fimmtudagur, ágúst 05, 2004

ég er ein manneskja af milljörðum sem lifa á þessari plánetu. og ég er með kvef og mér er óglatt, en margir eru að deyja. á meðan ég skrifa þessi orð eru milljónir að lifa villtu kynlífi... ég er nú samt bara hérna í herberginu mínu, að drepast úr nefrennsli og söknuði... ég sakna nefnilega. eins og margir aðrir.
ég hef aldrei upplifað að missa neinn ótrúlega nákominn mér. ég hef misst tvær langömmur sem ég þekkti ekkert sjúklega vel og einn afa sem dó úr krabbameini. það var fyrsta manneskjan sem ég grét.
ég man vel eftir deginum sem hann dó. ég var bara tólf ára. það var föstudagur. á fimmtudeginum sagði pabbi mér að daginn eftir ætlaði hann að sækja mig og fara með mig heim til afa þar sem allir yrðu því það væri kveðjustund fyrir hann.
á föstudeginum hringdi pabbi í mig til að segja mér að hann ætlaði að sækja mig stuttu síðar til að fara með mig til afa. hann var mjög þungur í röddinni þegar hann sagði mér þetta. klukkutíma síðar kom mamma heim úr vinnuni og settist niður með mér og sagði mér að afi væri dáinn.
ég gat ekkert hugsað eða sagt. ég bara grét í faðmi mömmu. ég hugsaði að ég var sár útí pabba fyrir að ljúga að mér. ég fattaði nefnilega að afi hefði verið dáinn þegar hann hringdi í mig. hann gat bara ekki sagt mér það í gegnum síma.
ég fékk ekki að kveðja afa. í síðasta skipti sem ég sá hann var hann orðinn mjög veikur. þá var ég ekki búin að sjá hann lengi og mér brá mjög svo í brún að sjá hann. hann var nefnilega alltaf maður vel í holdum, með háværa rödd og stórt bros. þegar ég sá hann í síðasta skipti var hann orðinn mjór. húðin í andlitinu á honum var orðin of stór á hann. hann var fölur og með lítið sem ekkert hár.
mér fannst ótrúlega asnalegt þegar fólk samhryggðist mér. ég veit ekki af hverju.

bless afi.

Engin ummæli:

 

© Stefanía 2008