fimmtudagur, desember 03, 2009

Prófatíð og dramatík

Ég lokaði feisbúkk. Að sjálfsögðu, það er prófatíð. Þetta er fyrsta önnin mín í Háskóla Íslands sem ég er í svona þægilegum áföngum. Ókey ég veit ekki alveg. Ég myndi svosem ekki segja að þetta væru þægilegir áfangar allt - þeir hafa alveg sumir reynt á, en það er virkilega skemmtileg tilfinning að það sé engin óvissa til staðar um hvort áfanga verði náð eður ei. Ég er ekki með bókaða tíu í sérhverjum kúrs, en staðið er bókað. Það er kósí.
Það hefur nóg verið að gera á önninni - fyllilega nóg! Og sopinn var lagður á hilluna á önninni að því tilefni (enda fengum við ágætis útrás fyrir partýstuðdjamm í Noregi í sumar). En allt öðruvísi álag en aðrar annir sem ég hef upplifað í Háskólanum. Allar aðrar annir hef ég verið í kúrsum sem eru þannig að ég veit aldrei neitt hvað er að gerast og reyni endalaust að fá hluti á hreint en það gengur bara aldrei neitt.
Núna finn ég allavega smá árangur. Og ég fæ verkefnin mín til baka og er ánægð með árangurinn. Það er fáránlega awesome.
Ég er líka að kenna þessa önn. Stærðfræðigreiningu IC fyrir tölvunarfræðinema. Það er pínu pró.

Segstánda desember er ég búin í prófum. Ég hlakka til. Ég ætla að prjóna og baka. En gaman.

Stundum finnst mér ég óttalega dramatísk. Ég skil ekki alveg hvernig það getur verið. Ég veit alveg hvað það er kjánalegt að vera dramatískur, samt er ég það. Ég ræð bara ekkert við það. Svo segi ég pabba frá vandamálinu mínu, þá segir hann það sem ég vissi að hann myndi segja og veit að er rétt hjá honum: "Hættu að velta þér uppúr þessu." En samt hætti ég því ekki.

Að því tilefni skulum við hlusta á krúttlegu Fleet Foxes:

mánudagur, nóvember 02, 2009

Yann Tiersen

Þessi tími árs hefur svo undarleg áhrif á mig.

Undanfarnar vikur hafa verið tiltölulega dramatískar á fjölda vegu. Það er langt síðan svona margt hefur dunið á. Held ég. Þá er ég svosem ekki að vísa í neitt alvarlegt, bara nokkur atvik sem hefðu mátt fara öðruvísi. Þegar ofan á það bætist skammdegið og endalausa álagið í skólanum verð ég hálf þróttlaus.
Í mér býr útþrá og tilbreyting.

Mér finnst Yann Tiersen fanga þessar tilfinningar. Tilhugsun um eitthvað frábært, angurværð minninga en jafnframt eitthvað þungt á sveimi. Undarlegt.

fimmtudagur, apríl 30, 2009

Lykke Li og Bon Iver

Gjörðusvovel, Erla.



Epík, epík, epík.

þriðjudagur, apríl 28, 2009

Feisbúkkfíkn.

Vááá hvað mig langar núna að fara á Feisbúkk að njósna um fólk. Vanabindandi djöfull sem feisbúkk er.
Nennir svo einhver að tjá sig við mig um þátt tuttuguogtvö í þáttaröð tvö af Gossip Girl? Tryllta, tryllta lag sem þátturinn endaði með.

mánudagur, apríl 27, 2009

Mat á fólki.

Ég hef nú, eins og í síðustu prófatíð, lokað fyrir Feisbúkk aðganginn minn. Að sjálfsögðu er það fyrsta sem ég gríp til gamli skræpótti. Skræbótti, afsakið.

Nýlega komst ég að því - nei stopp, ég komst að þessu fyrir löngu. Byrjuppánýtt:
Nýlega fór ég að velta fyrir mér að margir eru þannig gerðir að þeir meta sambönd fólks meira en gæði þess. Í því ljósi eru þeir einkar ræktarsamir við þá sem hafa mikil sambönd, en ekki jafn ræktarsamir við þá sem lítil sambönd hafa. Þetta finnst mér undarleg afstaða. Ég hef ekki sérstaklega mikil sambönd og mætti jafnvel svo að orði komast að ég hafi tiltölulega lítil sambönd. Mér er þó nokk sama um það og uni sátt við mitt þar sem ég hef gæði fólks í hávegum, fremur en sambönd þess.
Mögulega er þetta ástæða þess að ég er umkringd góðu fólki. Af þeim sem ég umgengst að einhverju ráði eru allflestir gott fólk sem hefur eiginleika eins og heiðarleika, góðmennsku, heilindi, traustverðugleika (en ljótt orð - mögulega væri fremur við hæfi að nota "að vera traustverðug/ur"), áreiðanleika og svo framvegis.
Fátt finnst mér óþægilegra en félagsskapur fólks sem ég treysti ekki (þótt ég hafi ekki upplifað það að viðkomandi svíki mig - það nægir mér að geta mér til um eða vita af því að viðkomandi eigi það til að svíkja), talar mikið/illa um aðra, setur sig á háan stall gagnvart öðrum, kemur illa fram, útskúfar leiðinlegum og svo framvegis.
Mér finnst sárt þegar fólk byggir dóm sinn á manneskju á skemmtanagildi hennar. Það er mikill munur á að vera vondur og vera leiðinlegur. Leiðinlegt fólk getur verið mjög gott fólk en lendir oft í dómhörku annarra og jafnvel útskúfun, fyrir það eitt að vera ekki þeim hæfileika gætt að geta sagt góðar sögur eða gott grín.

Ég veit ekki af hverju ég hóf þessar vangaveltur en ég segi þetta gott í bili. Nú held ég áfram að huga að Mál- og tegurfræði.

Stef

laugardagur, mars 21, 2009

Dinner and a movie með pabba.



Dóttir eldar.

fimmtudagur, mars 12, 2009

Skökk samkeppni háskóla landsins – ríkissjóður veitir meira til einkarekinna háskóla en ríkisrekinna.

Fjárframlög til háskóla úr ríkissjóði eru um milljón á nemanda fyrir hvern þann sem þreytir próf í lok annar (hvort sem hann nær þeim eður ei) – óháð því hvort nemandinn sækir ríkisrekinn eða einkarekinn skóla (skólagjaldaskóla).
Auk skólagjaldanna og ofangreindra fjárframlaga frá ríkinu mega einkareknir skólar taka við styrkjum til rannsókna frá fyrirtækjum. (Þetta getur haft áhrif niðurstöður rannsókna; rannsakendur eru háðir fyrirtækjum og þora ekki að stugga við þeim af hræðslu við að missa styrki). Einkareknir skólar hafa því meira fé á milli handanna sem þeir geta eytt í betri aðstöðu, betri kennara, rannsóknir o.s.frv. Þetta fyrirkomulag skekkir ljóslega samkeppnishæfni Háskóla Íslands því þeir sem hafa efni til geta sótt betri menntun (ég hef fyrirvara á betri enn sem komið er) fyrir aðeins meiri pening.
Þökk sé velferðarkerfi Íslendinga (mikill fjöldi framhaldsskólagenginna) – og kannski góðærinu, sem nú er liðið – getur þó nánast hver sem er numið við skólagjaldaskólana þar sem skólagjöldin eru lánshæf hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Margir nota einmitt þessi rök gegn því að einkareknir skólar séu fyrir þá sem hafa efni til. Þetta er að vissu leyti rétt, en að fá lánað fyrir skólagjöldunum eykur á skuldabyrði nemenda eftir nám svo ég held það sé engin tilviljun að fög sem kennd eru við skólagjaldaskóla eru almennt fög sem koma fólki í ágætlega launuð störf svo þeir sem þurfa að greiða skólagjöld hafa efni á að niðurgreiða námslánin að námi loknu.
Hins vegar eru fög sem skila fólki í störf sem ekki gefa jafn mikið fé af sér, svo sem leikskólakennarafræði, hjúkrunarfræði, félagsfræði, heimspeki, trúarbragðafræði, o.fl., einungis kennd í ríkisháskóla Íslendinga, Háskóla Íslands. Segi mér enginn að leikskólakennarar og hjúkrunarfræðingar hafi minna mikilvægi fyrir samfélagið en tölvunarfræðingar. Að loknu námi í þessum fögum er aðeins erfiðara að niðurgreiða námslánin þar sem þessi menntun skilar fólki oft ekki í sérlega vel launuð störf. Þessi tegund faga ræki sig því sennilega ekki í skólagjaldaskólum – nema að sjálfsögðu á meðal þeirra sem hafa efni á að vippa fram nokkur hundruð þúsund krónum á önn og þurfa ekki á námslánum að halda.
Er þá niðurstaðan sú að það er allt í lagi að ríkissjóður leggi jafn mikið fé í einkarekna skóla og þá ríkisreknu svo lengi sem þeir einkareknu kenna aðeins fög sem gefa vel af sér fjárhagslega?

Þegar ég nefndi þetta við Alþingismann Sjálfstæðisflokksins var mér svarað með spurningunni: Hvaða réttlæti er fólgið í því að einn fái meiri pening úr ríkissjóði en annar, bara vegna þess að hann kaus einn skóla fram yfir annan?
Ég svaraði því þá og svara því núna þannig að allir hafa valið um að fara í ríkisháskóla Íslendinga eða einkarekinn skóla – eins og áður kom fram eru öll fög kennd við HÍ, en einungis þau sem gefa vel af sér kennd við þá einkareknu. Það er því ekkert óréttlæti fólgið í því að kjósi einhver að fara í einkarekinn skóla og borga fyrir það, fái hann minni pening frá ríkinu. Hann hefur val. Sama val og sá sem kýs að fara út að borða í hádeginu fyrir fimmtán hundruð krónur í stað þess að nýta sér niðurgreiddan mat vinnustaðarsamfélags síns – sá getur ekki gert kröfu á vinnustaðinn sinn um að niðurgreiða dýra hádegismatinn sinn. Eða hvað?

Vissulega hlýtur að vera ákveðin hvatning til framfara og gæða að hafa samkeppni – en samkeppnin verður að vera réttlát. Eins og fyrirkomulaginu er háttað núna eru einkareknir skólar samkeppnishæfari en ríkisreknir skólar og hafa meira fé til að efla nám skólans – en hafa þrátt fyrir það nákvæmlega sama öryggisnet og Háskóli Íslands! HÍ er fjársveltur og hefur verið það lengi, þessi samkeppnisskekkja skapar ákveðinn ójöfnuð m.a. á meðal þeirra sem vilja sinna störfum í heilbrigðis- og velferðarkerfinu okkar.
Er það ekki auk þess á skjön við hugtakið einkarekstur að einkarekin fyrirtæki hafi sama öryggisnet og þau ríkisreknu? Er það réttlát samkeppni í samræmi við frjálshyggju? Þarf ekki skólinn af sjálfsdáðum að gera sig það eftirsóknarverðan að það sé þess virði að greiða háar fjárhæðir til þess eins að fá menntun þaðan? Á stofnun sem eykur ójöfnuð meðal samfélagsmeðlima að hafa til þess sama öryggisnet og sú sem minnkar ójöfnuð?

Gefum okkur þó að þessi niðurstaða sé röng og eðlilegt sé að sérhver nemandi í háskóla fái jafn há fjárframlög frá ríkinu, sama hvort skólinn sem hann stundar nám við rukki inn skólagjöld (sé einkarekinn) eður ei (sé ríkisrekinn).
Nú er ástæða þess að hagstætt er fyrir námsmenn að taka námslán hjá LÍN sú að hjá LÍN eru lægri vextir en annars staðar. Niðurgreiðslan á þessum vöxtum kemur að sjálfsögðu úr ríkissjóði Íslands. Nemendur sem fá lánað hjá LÍN fyrir skólagjöldum sínum við HR, Bifröst eða aðra einkarekna háskóla, fá því, auk fjárframlaga úr ríkissjóði fyrir það eitt að þreyta próf við skólann sinn, niðurgreiðslu vaxta á lánum fyrir skólagjöldum.
Til að summera þetta upp: Nemandi í HR sem fær lánað hjá LÍN fyrir skólagjöldunum sínum fær á endanum meiri pening úr ríkissjóði heldur en nemandi í HÍ!

Ef ekki næst samstaða um þá niðurstöðu að það sé ekkert misrétti falið í því að ríkið eyði minni pening í nemanda sem kýs að fara í einkarekinn skóla (en hefur val um að gera það ekki) – þá hlýtur að nást samstaða um að misrétti sé falið í því að ríkið eyði meiri pening í þennan nemanda.

Enginn sem ég hef talað við hefur getað svarað mér þessari spurningu:
Af hverju eru fjárframlög til einkarekinna háskóla ekki minnkuð um a.m.k. það sem samsvarar útgjöldum ríkissjóðs í niðurgreiðslu vaxta á námslánum fyrir skólagjöldum?

Ég óska eftir svörum, frá hverjum þeim sem þau hafa.

mánudagur, mars 09, 2009

Skráningagjöld

Því sem ég tilkynnti að væri á leiðinni verður frestað um stund.


Skráningargjöld við HÍ eru 45.000 krónur á ári. Gjaldið er sagt vera fyrir kostnaði við skráningu nemenda; "frír" prentkvóti (sem reyndar fæst bara í fyrsta skipti sem einstaklingur skráir sig við HÍ), skriffinnska, laun fyrir skráningastarfsmenn o.s.frv. Það kostar semsagt 22.500 krónur á hvern nemanda að skrá hann til náms í eina önn.

Þegar raðað er niður í stofur, kennarar og aukakennarar ráðnir, bækur pantaðar í Bóksölu stúdenta er tekið tillit til fjölda nemenda í hverju námskeiði. Ef fjöldi nemenda sem skráðir eru í námskeið er minni en raunverulegur fjöldi nemenda í námskeiðinu er kostnaður við námskeiðið meiri en þarft er. Ef gert er ráð fyrir of fáum getur orðið sætaskortur eða þjónustuskortur við nemendur (t.d. of margir nemendur á kennara ef námskeiðið er þannig). Einhvern veginn þarf því að tryggja að mat á fjölda sé sem nákvæmast. Mér finnst skráningagjöldin við HÍ vera sniðug leið til þess:
Ég veit þess dæmi að nýstúdent hafi skráð sig til náms við tvo íslenska háskóla og ekki gert upp á milli þeirra fyrr en hann þurfti að borga skráningar-/skólagjöld - þá kaus hann þann með skólagjöldin og sleppti því að borga skráningargjöld við HÍ, þar með gerði HÍ ekki lengur ráð fyrir þeim einstaklingi þegar raðað var í námskeið. Ef hann hefði ekki þurft að borga skráningargjöld hefði hann sennilega ekki skráð sig úr náminu og skólinn gert ráð fyrir fleiri nemendum en þörf var á.

Hins vegar finnst mér óviðeigandi að gjöld séu kölluð skráningagjöld þegar þau gegna öðru hlutverki en aðeins því að vera skráningagjöld. Ef þessi ráðgering er röng hjá mér og skráningavinna er svona kostnaðarsöm ætti ekki að vera vandasamt að gefa út sundurliðun á því í hvað gjöldin fara. Ef hægt er að sýna fram á með sundurliðun að raunkostnaður við skráningu nemanda sé 45.000 krónur þá biðst ég afsökunar á þessu tuði, ef ekki þá ætti nemandi að fá endurgreiddan þann hluta skráningargjaldsins sem ekki fór í skráningu þegar hann hefur lokið árinu sem hann borgaði fyrir.

Ég vil semsagt ekki að skráningagjöld verði felld niður, síður en svo, heldur vil ég að gefin sé út sundurliðun á því í hvað peningar nemenda fara, og ef fjörtíuogfimmþúsund krónurnar þeirra fara ekki í að skrá þá á tvær annir þá vil ég að restin sé endurgreidd þegar nemendur hafa sýnt fram á námsframvindu. Endurgreiðslan gæti t.d. farið í niðurgreiðslu á næstu skráningargjöldum.

Annað:
Að auki sé ég fátt því til fyrirstöðu að fólk skrái sig til hálfs árs í einu. Þegar fólk greiðir skráningagjöld hefur það greitt fyrir tvær annir; það þýðir að ef það klárar hálfa önn og tekur sér svo hlé, getur það snúið aftur til náms þegar því hentar, án þess að greiða skráningagjöldin. Hvers vegna ekki að greiða fyrir eina önn í einu?


Innskot:
Sums staðar skrifaði ég skráningargjöld, annars staðar skráningagjöld. Ég reyndi að haga því þannig að þegar ég talaði um eina skráningu hafði ég err, þegar ég talaði um fleiri en eina sleppti ég errinu. Sambærilegt augabrún og augnabrúnir. Er það bull?

sunnudagur, mars 01, 2009

Coming up:

Munur kynjanna.
Samskiptaörðuleikar.
Ofgreining.
Dramatísering.
Bömmer.
Tilfinningarstjórnun.

sunnudagur, febrúar 01, 2009

Best í heimi:

Útúrdönsuð og þreytt en glöð, barin af langri kraftmikilli fáró heitri sturtu, beint upp í rúm undir sæng.

sunnudagur, janúar 11, 2009

Sköp verða hjarta

Ég var eitthvað að spá í að gera þetta blogg ósýnilegt, eins og ég hef gert sjálfa mig ósýnilega á Feisbúkk og emmessenn. Heilaga tímaþjófaþrenndin; feisbúkk, emmessenn og blogg. Eins og sést hætti ég við að fullkomna ósýnileika minn í heilögu þrenndinni.

Í stað þeirrar fullkomnunnar ætlaði ég að tjá mig um uppruna táknsins hjarta sem tákn ástarinnar, en hætti við það líka sökum vangaveltanna sem fram koma og setti í staðinn aðeins inn orðið hjarta.
Ég er hætt við að hætta við og ætla að bomba fram vangaveltum mínum um þetta mál.
Svo að enginn verði reiður er best að taka fram að hér fer ég ekki með neinar sérstakar alhæfingar um muninn á körlum og konum, textinn er einungis settur upp á þennan hátt til að koma á framfæri uppruna táknins hjarta fyrir ástina.

Uppruni hjartans.

Það má óneitanlega sjá svip með aflöngu hjarta og sköpum, að minnsta kosti er auðvelt að sjá fyrir sér myndtáknið sköp þróast út í hjarta. Auk lögunarinnar er liturinn. (Ég ætla ekki að setja inn myndir af þessu).

Það fyrsta sem við sjáum þegar við komum í heiminn eru kvenmannssköp (hér eftir ætla ég aðeins að nota orðið sköp, en vísa þá til kvenmannsskapa). Viljinn til að fjölga sér er innbyggður í mannkynið. Það sem karlmenn hafa því viljað frá örófi alda er að komast aftur í sköp síðar á lífsleiðinni. Eina leiðin til að komast í sköp er að komast í færi við kvenmann. Löngun karlmanns í kvenmann (og kynlíf) má því leiða af löngun mannkynsins til að fjölga sér.

Snemma fóru menn að tjá sig með myndum. Það er mín kenning að myndtáknið sköp hafi komist á hellaveggi sem tákn um löngun karlmanns í þau (sem eins og áður segir á rætur að rekja í löngun til fjölgunar), auk þess sem lífið sem karl og kona búa til í sameiningu, kemur út um sköp. Ef kenning mín er sönn og sköp voru notuð sem tákn löngunar karlmanns í þau, er það enn fremur mín kenning að sú notkun hafi þróast út í notkun myndtáknsins skapa sem tákn um löngun karlmanns í kvenmann.

Nú er hugtakið ást í grunninn bara löngun fólks til að vera saman og (oftast) stunda kynlíf - þar sem það er sennilega nánasta og innilegasta tjáningarformið.

(Sjá innskot neðst).

Ég held því að táknið sköp hafi þróast frá því að vera tákn löngunar karlmanns í sköp (einvörðungu vegna innbyggðrar (mögulega ómeðvitaðrar) löngunar til að fjölga sér) út í að vera tákn ástar á milli karlmanns og kvenmanns, og síðar tveggja einstaklinga af hvoru kyninu sem er, og jafnvel móðurástar eða annarrar ástar í þeim dúr. Í gegnum tíðina hafi svo ofangreind þróun táknsins sjálfs átt sér stað;
táknið sköp varð að hjarta, tákni ástarinnar.


Innskot:
Þetta er reyndar tilvalið tækifæri til að koma á framfæri þeirri skoðun minni (mögulega ekki í fyrsta sinn) að ást er ekkert nema skilyrt hegðun (og allt drama tengt ástinni og kynlífi er alfarið óþarfi - svosem skiljanlegt stundum, en það er annað mál):
A hittir B, A heillast af B, heili A framleiðir gleðivaldandi boðefni (ég er enginn miðtaugasérfræðingur svo ég get ekki farið með hvaða boðefni þetta eru) vegna heillunarinnar. Þetta gerist aftur. Og aftur. Og aftur. Virkni skilyrtrar hegðunar hefur verið margstaðfest með rannsóknum (hundar Pavlovs t.d.), svo það er ekkert undarlegt að ítrekuð vellíðan A við að hitta B, kalli á löngun A til að hitta B. Ef þetta ferli (“tilfinningar”) er gagnkvæmt, er talað um að A og B séu hrifin hvort af öðru. Ef ferlið heldur áfram að ganga vel og A og B rækta góða framkomu við hvort annað svo hrifningin kemst á alvarlegra stig, er talað um að A og B séu ástfangin. Þá kemur fram löngun mannkynsins til að fjölga sér. A þykir B vænlegur kostur til barnsföður/móður (ómeðvitað eða meðvitað) og langar að stunda kynlíf með B - og vonandi öfugt. A og B verða lífsförunautar.
Innskoti lokið.

miðvikudagur, janúar 07, 2009

Hjarta.

föstudagur, janúar 02, 2009

Úff búin að vera slök í ræktun þessa bloggs. Ég er ekki enn búin að fá einkunn úr þessu síðasta prófi, en allt hitt er in the bank. Ánægjulegt það.

Janúar.
Röskva. Röskva. Röskva, Röskva, Röskva, Röskva, Röskva. Ekkert annað. Bera út blöð, ganga í stofur, hringja í fólk, fara í sumarbústað með Röskvuteymi, hafa gaman.

Febrúar.
Röskva. Röskva. Röskva. Kosningar - sigur með sex atkvæðum. Úff, tæpt og stressandi. Ég tók sæti í hagsmunanefnd, sem telur fimm stórgóða einstaklinga úr annars vegar Röskvu og hins vegar Vöku. Við erum búin að vera fáró dugleg.
Lokapróf í einum heimspekiáfanga. Ekki rúst, en fínt miðað við tímann sem lagður var í áfangann.

Mars.
Læra. Læra ó svo mikið. Hvolsvallarferð að passa baunalingana mína, Emmu og Lóu.

Miðlaði Rúbikkskjúb áhuganum niður á yngra fólk. Maður verður að miðla.
Fór slatta í Bláfjöll og naut mjög mikið. Sjá okkur krúttrassa:

Árshátíð Stiguls átti sér stað, þemað var fortís, plús mínus tíu. Ég og ástarpúngarnir mínir, Nalli og Fáni:


Apríl.
Stigulskosningarnar með myndun stjórnarinnar minnar; ég, Jóhanna, Erik, Arnaldur og Helgi. Stórkostlegt fólk, ég á ekki mynd af hópnum. Ég þarf að redda því. En þetta er kórónan mín:



Maí.
Próf og próflokadjamm. Með þetta:

Erik og Jóhanna með.
Sigrún átti afmæli og Sunna mætti kasólétt og fín.
Annað sumarið mitt sem starfsmaður hjá Kynnisferðum hófst, lovely.
Skilnaður hjá öðru foreldrinu og flutningar í kjölfarið.
Davíð átti Sögu.

Júní.
Sunna Dís átti Gunnar Inga.
Spánarferð með mömmu, systrum og stjúpföður. Fullt af rigningu en líka fullt af sólbruna. Pouring drinks fyrir mig og Rebekku. Bailey's þema í ferðinni. Mmmhhh.

Keyrði ein til Barcelona frá Benidorm. Það var pínu klúður, en reddaðist. Hitti Stebbu og fann dúfur.




Elsku Rebekka átti afmæli. Við fengum logandi skot frá uppáhaldsbarþjóninum okkar.



Oddur átti Katrínu.

Júlí.
Ég fór á Hróarskeldu, til Þórsmerkur með yndislegu samstarfsfélögunum mínum og á Stapa með Ásgeiri og Miriam. Þess á milli vann ég.
Mætt upp á Valahnúk. Sátt við lífið. Birtusvipur langbestur.

Fáró gaman hjá mér og Miriam.

Fáró næs hjá mér og Ásgeiri.




Ágúst.
Vinna. Og vinna. Og sjá um systkini. Sunna systir fór til útlanda að vera dugleg að læra.

Skólinn byrjaði.

September.
Nýnemaferð. Gubbandi fólk en allir hressir. Læra. Skilnaður hjá hinu foreldrinu og þar með varð ég fimmfalt skilnaðarbarn.
Tvítugsafmæli Röskvu. Ég, Ösp og Kata ákváðum að vera fáró sætar:


Október.
Afmælið mitt. Þá ákvað ég að vera jússa:

Októberfest. Fleiri afmæli. Airwaves sem ég fór ekki á. Fleiri afmæli. Haustferð og haustfögnuður Stiguls. Hvort tveggja awesome to the max. Það var nördaþema í haustfögnuðinum, ekki allir sáttir við það val og fannst þemað óþarft, en mér finnst við hafa eisað þetta:



Nóvember.
Alveg föst á milli steins og sleggju. Alltaf gaman það. Stundum er maður bara fullur. Þess utan lærði ég. Svo mikið.
Um þrítugasta nóvember segi ég ekki meira.

Desember.
Sorg. Samheldni. Ást.
Próf. Prófstress. Próflestur. Prófpirringur. Prófklepr. Próflok. Próflokadjamm.
Ég og Hákon með þetta:

Hólmfríður Helga átti Snæfríði Eddu.
Jólin með mömmu. Jólin með pabba. Jólin með fjölskyldu. Áramótin með fjölskyldu.


Mér finnst eins og allir þeir atburðir sem ég taldi upp hér að ofan hafi gerst í gær.


Ég ætla að nota þessa mynd til að lýsa árinu.

Hresst, súrt, litríkt, fullt. Það var fullt af ást, áfengi, ferðalögum, nýju fólki, gömlu fólki, atburðum og nýjungum.

Takk fyrir allt, fólk, og gleðilegt nýtt.
 

© Stefanía 2008