mánudagur, desember 24, 2007

Nei ok. Ég er búin með fyrstu önnina mína í háskóla. Ég skil ekki að það hafi gerst - það á alveg að taka lengri tíma heldur en tvo daga.


Gleðileg jól krúttrassar.

Hér er (j)ólagjöf (leiðbeiningar: hundsa auglýsinguna og einbeita sér að gleðinni).


mánudagur, desember 03, 2007

Ég er búin að vera svo dugleg um helgina.
Nei.

Ég er búin að borða svo hollt og hóflega um helgina.
Nei.

Ég er búin að standa við öll markmið helgarinnar.
Nei.

Ég er tilbúin fyrir próf á morgun.
Nei.

Ég á blöð sem fylgja Golden.
Nei.

Mér líður vel með komandi daga.
Nei.

Það er gaman í prófum.
Nei.

Ég mun fá mjög góðar einkunnir fyrir önnina.
Nei.


En ég hlakka til jólafrís og ég elska fullt af fólki sem elskar mig. Það er geggjað.

laugardagur, desember 01, 2007

In Rainbows, finnst mér vera svo ótrúlega góð plata. Ég held sérstaklega upp á 15 Step, Nude og All I need. Hið fyrstnefnda er fáránlega grípandi og fjölbreytt og hin koma af stað hjá mér jafn miklu tilfinningalegu flæði og þegar ég hlustaði á Creep og Karma Police, back in the days. Það tilfinningaflæði byggði, að ég held, mest á því að ég tengdi lögin við stóra frænda, sem var goð í mínum augum þegar ég var yngri. Það eru fáar skipanir sem ég hefði ekki hlýtt frá honum, sama hversu kjánalegar þær virtust mér. Það var hann sem opnaði augun mín fyrir Radiohead, þess vegna tengi ég Radiohead við hann.

Ég veit ekki hversu mörg grátköst hafa farið fram við Radiohead. Ég held að sem stelpa sé alveg eðlilegt fyrir mig að hafa gengið í gegnum nokkur óútskýranleg grátköst. Mér fyndist ekki ótréttlætanlegt fyrir strák að ganga í gegnum grátköst, en það er víst ekki jafn viðurkennt. Hvort það er ástæðan fyrir því að mér finnist eðlilegt að stelpur gangi í gegnum fleiri grátköst en strákar eða bara að kvenkynið sé tilfinninganæmara, veit ég ekki.

Mér finnst allavega mjög gott að gráta við Radiohead - frá mínu sjónarhorni er tónlist hljómsveitarinnar rosalega tilfinningarík. Rödd Yorke spilar mjög stóran þátt í því, en líka bara hversu mikið liggur í tónlistinni. Lögin innihalda oft þungan gítarleik, léttúðugan gítarleik, flottar taktbreytingar, tilfinningaþrunginn píanóleik og almennt skemmtileg ásláttarhljóð ásamt auðvitað einstakri rödd Thom Yorke. In Rainbows finnst mér nánast fullkomnun á þessari samsetningu. Hún opnar oft á einhverjar flóðgáttir sem ég fæ ekki útskýrt. Einhverjar blendnar tilfinningar sem koma af stað þvílíku flæði tilfinninga og hugsana.
Kannski er það, sem setur þessa plötu svona uppá stall hjá mér, að hún sameinar í mínum augum allt það besta í fari Radiohead í gegnum tíðina. Hún dregur fram minningar mínar tengdar Pablo Honey, The Bends og OK Computer - og eiginlega líka Amnesiac og Hail to the Thief (þótt ég hafi almennt ekki haldið jafn mikið uppá þær plötur).

Ég nefndi í upphafi lagið Nude af þessari plötu, sem kveikir sérstaklega á einhverju tilfinningaflæði hjá mér, en Arpeggi, Reckoner, Faust Arp, House of Cards og Videotape finnst mér alveg frábær líka. Nú er ég búin að þylja upp öll lögin á plötunni fyrir utan Bodysnatchers og Jigsaw Falling into Pieces. Þau lög finnst mér alls ekkert síðri - þau flokkast undir sama hatt og 15 Step hjá mér, ástæðan fyrir því að ég fíla þau lög er ekki þessi tilfinningatengsl við lögin sem ég var að tala um - frekar einhver hressleiki sem grípur mig með sér.

Fyrir utan allt það sem ég hef nefnt, finnst mér leiðin sem þeir völdu til að gefa út plötuna sína ótrúlega skemmtileg. Það getur vel verið að þetta sé allt bara risastór sölubrella (heildin sem þeir ætla að lokum að selja kostar náttúrulega ca. 5000 krónur) - en mér finnst þetta samt eitthvað krúttlegt. Mér finnst eins og þeir séu að gefa aðdáendum sínum plötuna, fyrir tryggð í gegnum tíðina. Og útaf þessu "örlæti", ef svo má kalla, langar mig til þess að borga þeim fyrir plötuna, og þakka fyrir það sem þeir hafa "gefið" mér í gegnum tíðina.

Nú hefur það verið gert opinbert að Radiohead verður á Hróarskeldu á næsta ári. Ég var að spá í að sækja um vinnu á svæðinu og þurfa þá ekki að borga fyrir miðann - en eftir að þetta kom í ljós þori ég ekki að taka áhættuna á því að missa af Radiohead. Frekar borga ég 20.000 krónur fyrir Hróarskeldumiðann. Guð minn góður, ég á eftir að fara yfir um á biðinni eftir þessum tónleikum. Sjö mánuðir eru langur tími. Ég hlakka svo til!
Ég vona að þessir tónleikar verði jafn frábærir og Ásgeir og Arnar hafa haldið fram um þá sem voru á Pukkelpop í fyrra - þar sem þeir spiluðu víst nánast allt sem strákarnir vildu heyra, gamalt sem nýtt. Reyndar hrópaði einhver yfir hópinn: "Play Creep!" og Thom Yorke svaraði: "You think I'm gonna play Creep for the rest of my fucking life, you fucking idiot?!"
Svolítið hart, en pínu kúl, haha. Ég hefði allavega hengt mig ef Thom Yorke kallaði mig "fucking idiot".

Ein lokaathugasemd; þótt stíll Radiohead og Arcade Fire sé gríðarlega ólíkur, þá er eitthvað við lagið Videotape sem minnir mig á lagið Neon Bible með þeim síðarnefndu. Mér finnst það skemmtilegt.

þriðjudagur, nóvember 27, 2007




Þetta er Alfred North Whitehead.

fimmtudagur, nóvember 15, 2007

Það er eitthvað skrítið að gerast í höfðinu á mér núna. Ég veit ekki alveg hvað eða hvers vegna, en það er ekki þægilegt.
Kannski (vonandi) verður það farið á morgun. Kannski ekki.
Ég kem ekki fingrum á hvað það er sem lætur mér líða ekki-vel. Ég segi ekki-vel frekar en illa því ekki-vel hljómar betur.
Kannski er það vinavanrækjun (orð? Ég efast). Meira en líklegt.
Kannski eru það viðurstyggilegu Matlab skiladæmin sem ég var að reyna að gera fyrr í kvöld sem gerðu mér grein fyrir vanfærni minni í forritun. Einnig líklegt.
Kannski eitthvað annað.

Ég hugsa að ég eyði meiri hluta vöku minnar brosandi eða hlæjandi - og ég geri ráð fyrir að flestir sem þekkja mig geti tekið undir það. Þannig líður mér best. Enda hef ég gert mér grein fyrir að jákvætt hugarfar er lykillinn að vellíðan. Allavega í mínu tilviki.
Það er einstaklega erfitt að vera í vondu skapi. Vont skap vindur upp á sig svo skapið verður alltaf verra og verra. Meðan á vondu skapi stendur er allt sem um ræðir neikvætt, svo fleiri og fleiri hlutir skapa pirring.
Ég kann heldur ekki að vera í vondu skapi. Til dæmis að því leiti að ef ég er í vondu skapi þá kann ég ekki að fela það, svo ég get ekki einu sinni komið í veg fyrir að vonda skapið mitt bitni á öðrum. Það finnst mér hugsanlega verst.

Þá dettur mér í hug veggplatti sem hékk uppi á vegg heima hjá mér (mömmu megin) þegar ég var yngri. Á honum stóð texti sem hljóðaði eitthvað á þá leið:

"Guð [eða eitthvað annað sem við á] hjálpi þeim sem reyna að skemma vonda skapið mitt í dag."

Ég skildi þetta ekki þá, en ég skil það núna.
Oft er reyndar gott þegar einhver reynir að skemma vonda skapið manns - þótt það fari alfarið eftir aðferðum. Að reyna að skemma vonda skapið með húmor er ekki góð aðferð. Stuðningur og hvatning er sennilega besta og öruggasta leiðin. Sá sem notar þá leið við að skemma vont skap einhvers þarf sennilega ekki á guði (eða neinu öðru) að halda. Hann fær uppsker líklega bara gleði. Ef ekki frá eiganda vonda skapsins, þá í formi þeirrar ánægjutilfinningar sem fylgir góðmennsku við náungann.

Ég ætla að vera jákvæð á morgun og stuðla þannig sjálf að mínu góða skapi.

þriðjudagur, október 30, 2007

Þetta er fyndnast samtal sem ég hef á ævi minni heyrt! AHAHAHAHAHAHAAH!

Kiddi: Hvaða tegund af steik ertu eiginlega maður?!
Georg: ENGIN! ÚT!
Kiddi: Þú ert með klofinn góm!
Georg: NEI!
Kiddi: Þú ert örugglega snarvangefinn... Bíddu, foreldrar þínir eru systkini, er það ekki?
Georg: NEI!
Kiddi: Þú ert allavega ekki með kennitölu...
Georg: VÍST! ÞÚ!
Kiddi: Ég?!
Georg: Já, dauðadrukkinn og útúrdópaður hérna!


mánudagur, október 22, 2007

"Hin veraldlega siðfræði hefur til þessa staðið við hlið kristnu siðfræðinnar og veitt henni fyllingu. Hún hefur orðið fyrir áhrifum af anda hinnar og miðlað henni einhverju af sínum anda. Og ef hennar hættir að njóta við, óttast ég, að afleiðingin verði vesalt og auvirðilegt þrælakyn, sem flatmagar fyrir hinum æðsta vilja, sem það kallar, en getur aldrei hafið sig til hugsunarinnar um hin æðstu gæði né skilið hana."

-Jón Stúart Mill


Geggjuð helgi.
Fullt af kremi - stundum á bakvið hús.
Góðir tónleikar - of Montreal; Múm; GusGus; Ghostdigital; Bloodgroup; Mr. Silla; Fm Belfast; Chromeo; Hjaltalín; Steed Lord; Magic Numbers; og fleiri. Kann að meta hversu margar góðar íslenskar hljómsveitir voru.
Lítill lærdómur - eiginlega bara varla neinn.
Skemmtilegt fólk - áááást.
Mikið dansað - of Montreal og GusGus kipptu mest í mig.

Almennt mjög gott.

sunnudagur, október 21, 2007

brasilíusúkkulaðihnetur brasilíuhúðaðarsúkkulaðihnetur súkkulaðihúðaðarbrasilíhnetur súkkulaðihúðaðarbrasilíuhnetur súkkulaðibrasilíuhnetur súkkulaðihúðaðar brasilíuhnetur brasilískar súkkulaðihnetur súkkulaðihnetubrasilía brasilískar súkkulaðihnetur brasilísk súkkulaðihúð brasilísk súkkulaðihúð súkkulís brasilíuhúð
súkkulaðihúðaðar brasilíuhnetur súkkulaðihúðaðar brasilíuhnetur súkkulaðihúðaðar brasilíuhnetur súkkulaðihúðaðar brasilíuhnetur súkkulaðihúðaðar brasilíuhnetur súkkulaðihúðaðar brasilíuhnetur súkkulaðihúðaðar brasilíuhnetur súkkulaðihúðaðar brasilíuhnetur

mánudagur, október 15, 2007

Litla sysir mín, sem er níu ára, hannaði þyrlu sem flýgur, úr A4 blaði. Hún er hetjan mín.

Sigrún er komin heim. Það er æði.

Allir eru óléttir. Það er fínt svosem líka.

Airwaves er um helgina. Það er mjög gaman.

Ég syng stundum í sturtu. En það er oftast bull eða blanda af nokkrum lögum.

Ég er í stærðfræði. Það er mikið að gera.

17. júní er mjög fínn gaur.

Jónína, sem talaði við strák sem káfaði á stelpu, er fín gella.

Kaffitár er uppáhaldskaffistaðurinn minn.

Vefur er fínn.
Refur er lol.

Lol er lol.

Ég nenni ekki að skipuleggja mig.

Ég er farin að redda þessum málum. Áður en ég dey. Day.

Byltingin er hafin.

mánudagur, október 08, 2007

Bráðum blogga ég. Rétt bráðum.

miðvikudagur, október 03, 2007

Ég á afmæli (tuttuguogeitt ár komið) 7. október. Sá dagur rennur upp á sunnudaginn.

Innskot:
Ég heyrði þáttastjórnendur í útvarpinu í gær nota orðatiltækið "að renna sitt skeið á enda" vitlaust. Það var semípirrandi.
Innskoti lokið.


Þeim, sem vilja minnast mín, er boðið í lummur og kaffi á sunnudaginn klukkan þrjú í tilefni afmælisins. Það verður jafnvel súkkulaðikaka.
Þeim, sem vilja minnast mín á annan hátt, er velkomið að gera það líka. Mér finnst allt í lagi þegar fólk minnist mín.

Ef ykkur vantar heimilisfang þá bara hafið þið samband.

Þetta er ég að missa stjórn á lífinu í tvítugsafmælinu mínu (í fyrra, eins og gefur að skilja):



Hver veit nema ég klúðri lífinu á sunnudaginn líka?
Spennandi...

þriðjudagur, október 02, 2007

Hah.
Ég var að keyra heim frá lærdómssessjoni uppí skóla (nánar tiltekið "féló", vistarverum stærðfræði- og eðlisfræðinema) og leið mín lá framhjá fyndna manninum. Ekki í fyrsta skipti reyndar.

Fyndni maðurinn er reyndar veikur á geði, svo það er kannski ekki rétt af mér að hlæja að þessu, en hann er samt skondinn ásýndar, og það að hann sé veikur breytir því bara ekki neitt (þetta er ég að afsaka þessar gjörðir fyrir sjálfri mér).

Hann lítur sirka svona út:




Lýsing með mynd:
Þegar maðurinn gengur, hallar hann ávallt aftur á bak, meira en sést á myndinni (eins og hann sé að labba niður bratta brekku), með risastóra bumbu út í loftið. Hahaha.
En eins og þetta sé ekki nóg, heldur eykur hann á hláturinn með því að ganga með tunguna lafandi út úr sér (það sést kannski ekki á góðu Paint-myndinni minni), taka hvert skref mjög varlega (eins og brekkan (sem má ímynda sér að hann haldi að hann sé að labba niður) sé gerð úr lausamöl) og labba semí á ská.

Þetta er klárlega með því fyndnasta sem ég sé gerast.

Ástæðan fyrir þessu, segja sögurnar, er sú að hann telur jörðina hallast. Ef hann hallar ekki aftur á bak þegar hann gengur þá finnst honum hann vera að detta fram fyrir sig.


Það besta (sem er samt að sjálfsögðu alls ekkert gott (fyrir hann, a.m.k.)) er að stundum hallar hann svo mikið aftur á bak, af hræðslu við að detta fram fyrir sig, að þyngdaraflið togar hann einfaldlega kylliflatann niður á jörðina.

laugardagur, september 29, 2007

Dísess.
Ég sofnaði á kjánalegan máta og olli lífshættu.
Ég vaknaði og fór uppá slysó.
Ég kom heim og fór að sofa.
Ég hóstaði svörtu.

Ég get varla sagt frá þessu, þetta er svo vandræðalegt. Ég segi það kannski seinna.

HA ég var að fá rosalegar fréttir.
Bless.

föstudagur, september 28, 2007

Ég er farin að gera eitthvað af viti.
Af viti. Viti menn það þá er þeim borgið.

Núna er ég alltaf á leiðinni að læra. Alltaf. Og ef ég er ekki að læra (sem er alveg oft, þótt ég sitji með bækurnar opnar fyrir framan mig) þá finnst mér ég vera að sóa tíma.

Á morgun er vísindaferð. Sem ég er búin að skrá mig í en veit þó ekki enn hvort ég fari í. Valið stendur á milli vísindaferðar og Heima (í skilningnum kvikmynd um Sigur Rós, ekki heima í skilningnum að vera heima).
Hvort tveggja heillar og hvort tveggja hefur bæði kosti og galla. Eins og gildir um margt það sem heillar.
Gott ef það gildir ekki bara um flesta (þó endanlega marga) hluti í heiminum, hvort sem þeir heilla mig eða ekki. Eða heilla einhvern annan eða ekki. Eða ekki neinn.
Dæmi um hlut sem heillar mig ekki en hefur þó bæði kosti og galla er að vakna snemma. Það heillar mig aldrei. Það höfðar til skynseminnar en heillar mig ekki að neinu leyti. Að vakna snemma heillar samt fullt af heimingum.

Heimingar er heimfæring þjóðernis yfir á heiminn. Íslendingur, heimingur. Hljómar skelfilega. Heimsbúi væri nærri lagi held ég, en þó frekar ömurlegt að mínu mati.


Ég frumreyndi nýja hefð á sunnudaginn var. Það á enn eftir að koma í ljós hvort atburðurinn verði að hefð, svo það er kannski ekki rétt að tala um hann sem hefð ennþá.
En atburðurinn var lummuboð. Ég bakaði lummur og bauð fólki uppá lummur. Kaffi með þeim meira að segja. Þær voru hreint ágætar þótt ég segi sjálf frá.

Uppskrift að Lólóar lummum:
10 msk hveiti
3 msk sykur
2 tsk lyftiduft
70 g brætt smjör
1 egg
mjólk eftir þörfum

Eins og í flestum bakstri fer þetta svona fram:
Þurrefnin saman. Blautefnin (orð?) svo. Þynningarmeðalið (mjólkin í þessu tilviki) síðast.

Mig minnir að uppskriftin hafi litið svona út. Ég firri mig þó allri ábyrgð á misheppnuðum lummum ef þetta er ekki rétt uppskrift.
Kannski fletti ég því upp fyrir næstu færslu og staðfesti uppskriftina þá.

Ég held ég endi þetta á (ég ætla að láta þetta standa þótt mér finnist sjálfri (alla jafna held ég) ekkert skemmtilegt þegar fólk endar færsluna sína á "Ég ætla að enda þetta á...") heillaósk sem er afskaplega vel viðeigandi við allflest tilefni, nema einstaklingurinn sem ávarpaður er falli ekki í kramið hjá manni.

Gangi ykkur vel í lífinu.

Stefanía.

Péess. Sjáið hvað ég og Sunna Dís erum flippaðar gellur.

sunnudagur, september 23, 2007

Roots manuva - witness the fitness

Sumarið er tíminn. Eggertsgata.

fimmtudagur, september 20, 2007

Ég er með undarlega tilfinningu í maganum. Ekki í maganum í þeim skilningi að ég sé með undarlega tilfinningu í líffærinu sem tekur á móti mat. Heldur maganum í þeim skilningi sem maður leggur í magann þegar maður segist vera með fiðring eða hnút í maganum.

Ætli þessari undarlegu tilfinningu svipi ekki til þess þegar maður segist vera með hnút í maganum. Ég er ekki frá því.

Ég get ekki bent á hvað veldur þessari tilfinningu.

Kannski það að ég eigi eftir að læra það mikið út önnina að til þess að ég nái að klára allt efnið þarf ég að læra svona 12 til 18 tíma á sólarhring út önnina. Það stafar af því að ég byrjaði önnina ekki á að læra 12 tíma á dag alla virka daga. Heldur bara svona tvo daga.

Kannski það að ég hitti vini mína alltof lítið.

Kannski það að ég sé ekki skotin í neinum. Eða að mig langi til að vera skotin í einhverjum. Eða að ég sé skotin í einhverjum en fatti það ekki.

Kannski það að veturinn og myrkrið og ömurlega veðrið séu mætt.

Kannski það að ég sé ekki búin að eyða tíma með mömmu minni og Rebekku í ár og eilífð.

Kannski það að ég viti ekkert hvort ég vilji læra stærðfræði.

Kannski það að ég nenni bara ekkert lengur að vera í skóla. Þótt mig langi það. Bara kannski ekki erfiðum skóla.

Kannski ekkert af þessu.

Hver veit?

Kannski Beirut:



Ég veit samt alveg að lífið er gott. Allavega við mig.

sunnudagur, september 16, 2007

Al Green-Let's stay together

Óður til Söru Bjarnadóttur.

Iii, I'm so in love with you
What ever you want to do
Is all right with me
'Cause you make me feel so brand new
and I want to spend my life with you

(Let me say that)
Since (baby), since we've been together
Loving you forever
is what i need

Let me be the one you come running to
I'll never be untrue
(Oh baby) Let's stay together
Loving you whether, whether
Times are good or bad, happy or sad

Whether times are good or bad, happy or sad

Whyyy (somebodeh), why people break up
Turn around and make up
I just can't see
But you'd never do that to me
(Would you baby)
Staying around you is all i see

Here's what i want us to

Leeet's... We oughta stay togehter
Loving you whether, whether times are good or bad, happy or sad.
Comon lets stay together
Loving you whether



The Beach Boys - Wouldn't it be nice

Þetta lag er lausnin að öllu...

mánudagur, september 03, 2007

Hah. Djöfull er ég að meta nýju Síma-auglýsinguna fyrir 3. kynslóðar símana. Geðveikt.

Og ég er viss um að viðbrögð þjóðarinnar verða enn skemmtilegri...

sunnudagur, september 02, 2007

Næs.

Vá, hvað ég fékk góða tilfinningu þegar ég horfði á þetta myndband. Svona eins tilfinningu og þegar maður er geðveikt ánægður með lífið og er að keyra eitthvert og eitthvað geðveikt gott lag kemur í útvarpinu, akkúrat lagið sem maður vildi heyra, og maður er akkúrat með manneskjunni sem maður vill vera með, jafnvel með ís líka, og maður er á leiðinni á einhvern frábæran stað með þessari manneskju, sem maður vill einmitt vera með, og maður er með svona fresh fiðring í maganum og á erfitt með að hætta að brosa. Og það er sól.

Mmmmm. Watch it:









Sammála?

laugardagur, ágúst 25, 2007

A"Þetta er bara ekkert svona eins og svart og hvítt þú veist..."
S"Já maður er bara eitthvað svona ´Já,já,já´ maður getur ekkert bara sagt eitthvað ´já, einmitt...´"

Hún er miklu meira eitthvað svona, jááá...

Á ég að halda fyrir hér?
Haltu aðeins meira fyrir.

Koma niðrí...

Þetta er bara vesen.

Það er svo gott í Danmörku. (Og það er svo gott í London).
Þetta er svo miklu meira bara djamm.

Nei ég meina það er allt svo miklu grænna í Danmörku.
Já og hérna er allt miklu hærra.

Það er ekkert svona sýnilegt. Stundum er það bara meira svona ósýnilegt.
Eins og maður getur ekkert bara tekið litinn úr manneskjunni. Stundum þarf bara liturinn að vaxa úr manni...

fimmtudagur, júlí 26, 2007

Ég er veik. Myndaöpplódið er farið að virka svo bráðum ætla ég að koma með fullt af myndum af júbíleringunni. Með editors comments.

Annars er það að frétta að ég er veik. Það er mega pirrandi. Og ég losna ekki við þessa bévítans flensu. Svo er ég með ofnæmi.
Næst fer ég að gráta. Nema ekki því ég var að djóka.

Ég ætlaði samt að blogga um eitthvað um daginn, sem ég man ekki í þessum töluðu orðum hvað er.

Ég er farin að vera veik í vinnunni. Bless.

miðvikudagur, júlí 11, 2007

Besta kvót í heimi:

"Þú finnur hvergi meiri frið en á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku, nema kannski í kirkju." - Óli Palli, útvarpsmaður á Rás 2.


Djöfull var fokkíng gaman. Það var vel blautt, og lífið var erfitt, en lífið var samt svooo gott. Svo margir góðir tónleikar.
Topp: Björk, Arcade Fire, Muse og Flaming Lips. Red Hot Chilli Peppers komu líka svo vel á óvart. Ég er ekki mikil aðdáandi þeirra, en þeir voru awesome. Svo góð sóló.

Ég var góð á því alla hátíðina. Alltaf blaut stígvél. Alltaf skítug. Ekkert tjald í einkaeign. Það drukknaði mjög snemma.

Ég mætti á miðvikudeginum og átti að vera með Söru í tjaldi. Við keyptum okkur tjald á 1500 kjeell, sem átti að þola 300 millimetra, en lifði ekki af greyið.
Svo fór þó að ég fann ekki Söru, né neinn sem var með henni, og var týnd fyrstu tvo dagana. Það sem bjargaði mér var að ég var búin að mæla mér mót við góðan mann sem ljáði mér hlut af sinni dýnu og sínu tjaldi fyrstu tvær næturnar.
Takk fyrir það.

Ég fann Söru loksins á föstudeginum, það var mikil, mikil hamingja. Ég er ekki frá því að nokkur gleðitár hafi fallið - þrátt fyrir að hinar búðirnar hafi verið fullar af fögrum og skemmtilegum Íslendingum sem allir tóku vel á móti mér.
Eftir það var ég eiginlega á tveimur svæðum. Ég geymdi dótið mitt á gamla svæðinu, þar sem ég átti ekki tjald á því nýja (það drukknaði mjög snemma og Sara sagði mér frá því svo ég fékk að geyma búslóðina í hinu tjaldinu), en gisti svo á nýja svæðinu.

Það gerðist oft að maður týndi öllum, en þá fann maður sér bara nýjan félaga, hvort sem hann var íslenskur eða af erlendu bergi brotinn.


Einn, tveir og saga:
Það rigndi staaanslaust í 24 tíma á fimmtudeginum. Mér hafði einhvern veginn tekist að halda mér alveg þurri þangað til ég var að sofa og var mjög ánægð með það þar sem fólk var almennt að kvarta undan blautum stígvélum og slíku. En þá var ég að labba fyrir aftan tjaldið mitt og sá poll. Tók fyrsta skrefið mjög varlega og það var allt í lagi, svo ég tók næsta ekki svo varlega, en þá kom í ljós að þetta var hola sem náði mér upp að hné og olli því að ég hrundi ofan í holuna upp að mitti. Ekki svo þurr lengur. Og eiginlega bara ekkert þurr eftir þetta út alla Hróarskeldu.
Excelleeeent.


Já. Þetta var æði. Indeed. Og ég á ógeðslega mikið af skemmtilegum myndum sem ég á eftir að henda inn á netið bráðum. Í alvöru, ég ætla.

Og takk, svo margir, fyrir æðislegan tíma. Especially:
Logi, Sara, Sverrir, Robbi, Helga, Skúli, Logi annar, Íslendingarnir á B-svæði, Arnar Ómars, Axel Åge, Baldur, Böbbi, Egill og svo margir, margir aðrir, m.a. Þórgnýr, en samt ekki.
Djók, en samt ekki.
Takk fyrir frábæra hátíð kids.

Baless.

*Viðbóóót*
Pé ess. Það var ekki neitt í heiminum betra en þegar ég komst í sturtu heima hjá mér eftir drulluhátíðina. Ég eyddi hálftíma í að skrúbba mig hátt og lágt. Ég þvoði hárið á mér fjórum sinnum, notaði kornamaska, þvottahanska, bakskrúbb og fótaraspara (ef það orð er til, en þið vitið sennilega hvað ég meina).
Eftir sturtuna þurrkaði ég mér, bar á mig body lotion með góðri lykt, nuddaði tásurnar mínar með fótakremi og fór í mýkstu sokka í heimi sem fylgja fótakreminu. Svo fór ég að sofa í uppáhaldsnáttfötunum mínum, sem eru bleikköflóttar náttbuxur með stærsta gati í heimi á rassinum (en ég get samt ekki hent þeim, þær eru svo lovable) og risastór bleikur Todmobile bolur sem er klipptur til þannig að hann er ekki með neinar ermar eða þröngt hálsmál.

Ég svaf frá 14.00 til 18.30 á mánudeginum (heimkomudeginum). Vakti til miðnættis. Svaf þá til 13.00 daginn eftir (þriðjudagur). Fór að sofa um 3.00 (aðfararnótt miðvikudags). Svaf til 17.30 daginn eftir (miðvikudagur), með u.þ.b. klukkutíma vakipásu.

Do the math.

En mér hefur í alvöru sjaldan liðið betur en þegar ég fór að sofa eftir dekrið mitt á mánudaginn. Oh so nice.
*Viðbót lokið*

miðvikudagur, júní 27, 2007

Motherfokk.
Mynda öpplódið virkar ekki!

Ég ætlaði að setja inn fullt af myndum frá júbíleringunni og helginni fyrir það en ekkert gengur því hell ass myndaöpplódið virkar ekki. Sem er megasegapirrandi.
Það er ekki hægt að velja Upload fyrr en maður hefur hakað við að maður hafi lesið skilmálana. En það er bara ekkert hægt að haka við það! Og ég líka búin að lesa skilmálana, þar er ekkert sem ég þarf að gera til að geta komist áfram. This is glaytath!

Allavega. Ég júbíleraði og það var ógeðslega gaman. Ég hitti fullt af fólki sem ég hafði ekki hitt í ár. Suma talaði ég meira við en aðra. Suma er ég að fara að hitta meira.
Ég er svo ánægð með að hafa farið.

Kvöldið eftir var útskrift. Þá var líka gaman. Smygl, smygl.

Ég er að fara á Hróarskeldu á miðvikudaginn eftir viku (4. júlí).
Þá ætla ég líka að hitta fullt af fólki og hafa ótrúlega gaman. Á svo margan hátt. Jeas.

Bless.

fimmtudagur, júní 07, 2007

Jæja þá.
Nú er ég búin í ferðalögum. Ég fór til London, eins og fram kom hér að neðan. Gisti þar eina nótt, fór svo til Portúgal í viku og var hjá honum Oddi mínum. Við skemmtum okkur að sjálfsögðu konunglega.
Mikið roooosalega er portúgalskur bjór góður! Ég segi nú ekki annað. Ég mæli sérstaklega, sérstaklega með Superbock Tango. Svo Superbock Green. Svo Sacher. Og svo venjulegum Suberbock.
Ég varð að sjálfsögðu ekkert brún eftir Portúgal, frekar en fyrri daginn. Ég fór nú heldur aldrei í sólbað. Júnó. Bara labba úti í sólinni, en var samt helling í skjóli.
Ujáégeraðafsakaþaðaðhafaekkiorðiðbrún.
Ég náði ekki að fara á brimbretti eins og planið var að gera helling af. Sól er nánast alltaf samasem leti hjá mér. En reyndar ætluðum við Oddur oft að fara en alltaf var eitthvað sem kom í veg fyrir það. Meðal annars ölduskortur.

Já. Svo flaug ég aftur til Lísunnar minnar í London og var þar aðra nótt. Þar verslaði ég slatta. Sem og í Portúgal. Við skulum bara halda upphæðinni leyndri for the time being. En ég keypti mér þó myndavél! Og föt. Soldið mikið af fötum reyndar. En það var mjög gaman. Ég var ekki búin að gera það svoooo lengi.

Þá var það Ísland frá þriðjudegi til laugardags. Á laugardeginum fór ég til Ítalíu með papps, tvíbbs, ömms og Dóru vinkonu ömms. Það var æðislegt líka. Fyrir utan það að ég ætlaði að koma brún heim frá Ítalíu þar sem eini tilgangurinn með þeirri ferð var að liggja í sól og verða brún. Aðallega vegna þess að þetta var 75 ára afmælisgjöfin hennar ömmu, og hún nennir ekkert að standa í einhverju flakki. Sem mér þótti fínt. Til að verða brún.

Oh, no, no, no. Haldiði ekki að það hafi rignt allan tímann á Ítalíu? Just my luck, myndi ég segja.
En Lago di Como (Como-vatn) er samt sem áður yfirþyrmandi fallegur staður. Ég á ekki orð til að lýsa honum, svona foreal. Bara yfirþyrmandi.
Como vatn er eins og yfsilon á hvolfi í laginu og bærinn sem ég var í heitir Lierna, rétt hjá Lecco, var austan megin í austurlöpp yfsilonsins.
Bærinn sem er svo í horninu inní yfsiloninu heitir Bellagio og er talinn vera einn fallegasti bær Ítalíu. Og þá er nú mikið sagt. En þangað fór ég semsagt með ferju, og það var ótrúlega fallegt að sigla yfir Como vatnið. Úff.

En svo kom ég aftur til Íslands á laugardegi, eftir tvo sólardaga á Ítalíu, af átta. Að sjálfsögðu ekki brún. Neinei. En með gríðarlega fegurð greipta í hugann. Og þá vitneskju að aldrei á ævi minni hef ég smakkað betri ís en á Ítalíu! Og nú erum við að tala um mig, íssérfræðinginn.
Ég þori (á þó erfitt með) að viðurkenna að hann er betri en Brynjuís og Vesturbæjarbúðarís. Úff þetta var erfitt.

Fyrstu fréttir sem ég fékk þegar ég kom heim var að Sigrún færi til Boston á mánudeginum í níu mánuði!
Ég veit ekki hvað ég geri án hennar! Dzjís Lúís. Ég á eftir að sakna þín elsku, elsku Sigrún mín.

Núna er ég byrjuð í nýrri vinnu. Kynnisferðir. Að selja ferðir, alls konar ferðir um Ísland, bæði með leiðsögumönnum og ekki, ásamt ferðum í Bláa lónið og Flugrútuna.
Fyrst hélt ég að ég væri að fara í leiðinlega heilalausa vinnu. Svo mætti ég og fattaði að ég væri ekki að fara í heilalausa vinnu, alls ekki, en sennilega leiðinlega.
Eftir fyrsta daginn fattaði ég að ég er byrjuð í ótrúlega skemmtilegri og fræðandi vinnu sem gefur mér tækifæri til að ferðast ótrúlega mikið um landið! Og ekki skemmir fyrir hvað starfsfólkið er yndislega hresst og skemmtilegt.

Í gær fór ég í ferð um suðurströnd Íslands. Tíu tíma túr með leiðsögumanni. Sá meðal annars Reynisdranga, sem er án efa með því fallegasta sem ég hef séð.
Á morgun fer ég í gullna hringinn - Gullfoss, Geysir og Þingvellir. Átta tíma túr með leiðsögumanni.
Í sumar ætla ég líka að fara í Þórsmörk og til Landmannalauga. Og sitt hvað fleira.

Frábært!

Ég veit ekki alveg hvað ég geri um helgina.
15. júní fer ég til Akureyrar til að júbílera þann 16. og vera við nokkrar útskriftir 17.
19. júní fer ég á Air tónleikana.
4. júlí fer ég til Danmerkur á Hróarskeldu. Og áðan komst ég að, mér til ómældrar ánægju, að Aníta K verður með mér í flugi! Tilviljun (og þó ekki svo mikil því við keyptum okkur báðar pakkaferð (en samt því við völdum sömu pakkaferð og keyptum hana sama dag óafvitandi að hin væri að gera slíkt hið sama)) og afskaplega skemmtilegt.
Kannski fer ég til Eyja.
Í lok ágúst ætla ég sennilega að fara til Boston að heimsækja Sigrúnu. Þá fer ég vonandi líka aðeins um Bandaríkin (New York helst).


Jæja, ég er farin að hitta fólk. Íslenskt fólk sem er skemmtilegt. Á kaffihúsi/skemmtistað sem ekki má lengur reykja á. Orræt.

Ég minni fyrrum MA-inga að kaupa sér miða á afmælishátíð MA stúdenta á http://bautinn.muna.is/. Fyrir eins árs stúdenta kostar 4500.


Ciao bella!

þriðjudagur, maí 15, 2007

Ég er í LONDON BEIBÍ! Geðveikt! Á morgun fer ég til Portúgal.
Um helgina var ég á Akureyri, það var geðveikt!
Á mánudaginn kem ég aftur til London frá Portúgal og stuttu síðar kem ég heim til Æslend.
Laugardaginn eftir það

**Innskot**

Stefanía: Erða skoteða?
Lísa: Jámmarr!
Stefanía: Nenniraporössadrínk?
Lísa: Initbrov (brother)

**Innskoti lokið**

erða Ítaaalía með pabbanum mínum, tvíburunum (Halldóri og Júlíu, sem eru fyndnust í heimi (fyrir utan Lísu perhaps, eiginlega klárlega, en samt þú veist)), ömmu og Dóru vinkonu ömmu.


Ég er ferðalangur. Í skemmtun, þið vitið hvað þýðir. Nee, er það?

sunnudagur, maí 06, 2007

Ég var klárlega í léttasta stærðfræðiprófi í heimi á mánudaginn.
Nei það er lygi.
Og ég eisaði það.
Nei það er líka lygi.

Ég er búin í þremur prófum. Ég er ekki búin að vera dugleg. Svo langt frá því. Ég tapa ekki (það þýðir ég fell ekki), en ég vinn samt ekki (ég fæ ekki tíur). Það verður jafntefli (það þýðir að einkunnirnar verða á bilinu sjö til níu).

Vangavelta:
Að vera grátt leikinn.
Er maður þá leikinn á gráan hátt, eins og illa leikinn, t.d. því leikurinn er á gráu svæði eða það er grátt að vera svona illa leikinn?
Eða er maður leikinn þar til maður grætur?

Ef það er hið fyrrnefnda, þá er lífið að leika mig mislitt. Sumir litirnir eru alveg hressir, rauðir jafnvel, eða gulir. En sumir litirnir eru frekar litlausir, eiginlega bara gráir. Dökkgráir. Ég er ekki alveg sátt við dökkgráan eins og er.
Það er reyndar aldrei ásættanlegt að vera grátt leikinn af lífinu. Maður á ekki að leyfa lífinu að leika sig grátt.
Lífið nefnilega snýst ekki um hvað kemur fyrir eða hver atburðarrásin er. Það snýst um hvernig tekist er á við það sem kemur fyrir og hvernig spilað er úr atburðarrásinni. Ég get alveg staðhæft það og efast ekki um að margir geta staðfest, að allt er betra ef litið er á það jákvæðum augum. Það er bara þannig. Jákvæðni er algjör life saver. Í alvöru.

Og núna er ég eitthvað kjánalega ósátt við hvernig ég er að takast á við atburðarrásina. Ég er að leyfa lífinu að mála mig gráa. Ég gæti allt eins rétt lífinu gráa litinn og opnað mig eins og litabók.
Kjánalegt að vita af því en vera ekki búin að stoppa það.

En hressu litirnir eru samt awesome. Ég tek þeim fagnandi.

Prófin búin 11. maí. Nætur í pabbahúsum verða í lágmarki í þónokkurn tíma frá þeirri dagsetningu. Ég ætla til Akureyrar. Svo ætla ég til útlanda, nokkurra. Svo ætla ég að flytja
að heiman yfir sumarið. Þá ætla ég að búa með Lúcíu. It will indeed be very very awesome.
Það er one bright color sem lífið er að leika mig.

Weeell. Ég er farin að sofa. Eða eitthvað þannig. Ég er þreytt. Þreytt eftir að hafa verið fáránlega dugleg í allan dag. Ekki að læra, eh no no. Heldur að vera úti að hlaupa, labba, vera í fótbolta, hoppleik, sláleik, a-s-n-i-.-i-s og þess háttar.

Virkilega góður dagur.
Pabbi kominn heim frá Kína.
Leyndarmál komin upp á yfirborðið.
Sólin farin að skína reglulega.
Sundferðir farnar að gefa freknur.
Þolinmæði og skilningur ríkjandi.
Fólk að koma til Íslands og fólk að koma til Reykjavíkur.
Útlönd framundan.
Plenntí of löv.

Já, frekar gott bara, myndi ég segja.
Hver var að tala um grátt eiginlega?

miðvikudagur, apríl 25, 2007

Mig langar ótrúlega mikið á Hróarskeldu. Mig langar ótrúlega mikið að búa í Danmörku í sumar ef því er að skipta. Flytja út í byrjun júní, kannski svona fimmta, eitthvað svoleiðis.
Sjálfboðaliðar í að flytja með mér?

föstudagur, apríl 20, 2007

Nei, ég veit ekki. Ég er búin. Ég er búin með kvótann.

En lífið er gott. Finnst ykkur lífið ekki fínt? Það er ábyggilega sérstaklega fínt ef maður lifir eftir The Secret, hahaha.

Ég sakna Akureyrar. Ég komst samt á bretti um daginn, í Bláfjöllum. Damn it felt good. Indeed very nice. Fór með litla átta ára bróður mínum. Sem er bæ the veij mesti snillingur í heimi, hann Halldór minn.
Hann meikaði ekki stóru brekkuna, skiljanlega. Ég hef aldrei farið í Bláfjöll og vissi ekki að Kóngabrautin (eða hvað sem hún heitir), sem fylgir stólalyftunni, væri svona brött. Hann var fastur í brekkunni og gat ekki rennt sér niður. Það var pínu fyndið, en samt soldið leiðinlegt. Og ég kann ekkert á skíði svo ég gat ekkert hjálpað honum.
Á endanum komst hann niður og fór í barnabrekkuna það sem eftir var. Sem ég kemst ekki uppí vegna þess að ég meika ekki diskalyftur. Ég kemst ekki með nokkru móti upp þannig lyftur. Ég verð bara afskaplega pirruð.

Innskotssaga sem fylgir diskalyftum:
Ég fór í Oddskarð, fyrir austan, með Ómari einu sinni. Það fór þannig að hann fór upp og niður í einn og hálfan tíma á meðan ég var föst niðri því ég komst ekki upp, sama hvað ég reyndi. Allir í brekkunni voru ýmist að reyna að gefa mér ráð (sem er mjög pirrandi þegar maður er í vondu skapi) eða að hlæja að mér (sem er ennþá meira pirrandi þegar maður er í vondu skapi).
Þessi ferð endaði þannig að ég fór snarkolgeðveik í skapinu niður í skíðaskálann og fékk lyftumiðann minn endurgreiddan. Hahahaha. Góð Stefanía.
Innskotssögu lokið.

Svo leiðir mínar Halldórs skildu um þetta leiti. Hann fór tvær ferðir í barnabrekkunni á meðan ég fór eina í stólalyftuna. Honum fannst það víst ekki gaman og ég var ömurleg systir. Ég var smá leið að heyra það. Hann lét mig ekki vita að það hefði ekki verið gaman fyrren við vorum að fara heim. Þá sagði hann að þetta hefði verið "leiðinlegasta skíðaferð sem hann hefði farið í!"
Hann hefur farið í þrjár. Næst ætla ég að kenna honum á bretti.

Ég tileinka þessa færslu honum Halldóri Sörla. Elskulega litla bróður mínum sem ég átti eftirfarandi samtal við um daginn:

H: Stefanía, af hverju hlærðu alltaf svona mikið?
S: *Brosir* Ég veit ekki. Hlæ ég mikið?
H: Já! Sérstaklega að mér... *glottir*
S: Hahahaha!
H: Sko! Eins og núna. *brosir*
S: Hahahaha.

Hann er fyndinn, þess vegna hlæ ég svona mikið að honum. En kannski þarf fólk ekkert að vera svo fyndið til að koma mér til að hlæja. Það held ég a.m.k. að gildi almennt. Enda er það alveg rétt hjá honum, ég hlæ mjög mikið. Það held ég að allir geti staðfest.

En bleeeess. Enjoy life.

sunnudagur, apríl 15, 2007

Gott að sitja á Barnum. Það kemst með tærnar þar sem Karó hefur hælana, samt ekki lengra en það.

föstudagur, apríl 06, 2007

Jú, ég fór suður. Og ég fór ekki til Ísafjarðar. Í staðinn fór ég austur. Og ég ætla að hafa það mega nice.
Ég komst að því í gær að það væri laust fyrir mig far til Ísafjarðar, en ég veiktist. Ég er slöpp. Hörð maður, nei. Það hefði verið sjúklega gaman að fara, en ég vaknaði hand ónýt í morgun og tók þá ákvörðun að sleppa því að fara norður. Ég er alveg búin á því eftir ótrúlega langa törn af litlum svefni. Þetta var alveg ágætlega erfið ákvörðun samt. En að lokum komst ég að þeirri niðurstöður að ég hefði gott af smá family time og smá do nothing time.
Nú er ég semsagt mætttil Hvolfsvallar til að slappa af heila helgi. Oh, ég get ekki beðið eftir að borða páskaegg á sunnudaginn. Og horfa á barnatímann á meðan. Eða eitthvað annað jafn mikið eðal.

Rebekka litla systir mín fermdist í gær. Hún var ótrúlega falleg. Ég set inn myndir af okkur very very soon. Við tókum okkur nokkur saman og gáfum henni myndavél. Góða myndavél sko. Þar að auki fékk hún ferð til Danmerkur og MacBook! Asskoti vel af sér vikið maður. Og nóg af aurum í þokkabót.

Jæja ég er farin að hafa það meganæs. Hafið það gott í páskafríinu. Mmmm.
Aldrei fór ég suður?

þriðjudagur, mars 27, 2007

Brandari:

Það labbaði maður inn í strætó, snarbrjálaður í skapinu, öskrandi og veifandi höndum og hótaði fólkinu inní strætó:

-Ef þið drullið ykkur ekki út núna, öskraði maðurinn, þá diffra ég ykkur öll!

Allir sáu að manninum var fúlasta alvara og fylltust hræðslu við hann og hótanir hans. Enginn þorði öðru en að hlaupa út úr strætó í hinu snarasta. Nema einn strætófarþegi varð eftir, glottandi.

-Heyrðirðu ekki hvað ég sagði?! æpti brjálaði maðurinn. Ég diffra þig ef þú kemur þér ekki héðan út strax!

Þá svaraði farþeginn glottandi og áhyggjulaus:

-Það er allt í lagi, ég er e^x...

Hahahahahahahahahahahahaha. Hahahahahhaha. Hahahaha. Nei í alvöru sko. Haha. Úff svo fyndið sko. Ég er kannski orðin aðeins smá of stærðfræðisýrð, en þeir sem ekki skilja það eru að missa af svo miklu. Þið vitið ekki hvað stærðfræði getur verið falleg og fyndin. Greyin.

Ég var t.d. að læra jöfnu Eulers um daginn. Ó svo falleg.

Skólinn gengur ágætlega. Lífið er ágætt líka, æj soldið pirrandi oft samt. Fólk getur verið fíbbl. En fólk getur líka verið stórkostlegt.

Ég verð fjölskyldulaus um páskana. Mig langar til útlanda eða til Akureyrar, ég er ekki búin að ákveða hvort ég geri. Kannski ég verði bara hjá hinni fjölskyldunni minni minni og læt mömmu fela páskaeggið mitt. Það er mjög mikilvæg hefð í mínum augum. Ég og Ómar földum páskaegg hvors annars síðustu páska. Það var gaman.

Ég verð að fara að komast á snjóbretti. Verð. Ætti ég kannski bara að henda mér til Sölden í Austurríki næsta vetur og vera ein af fjölmörgum útskriftarnemum MA sem vinna í skíðaskála í níu mánuði? Aðalvandamálið þá væri bara að ég lærði frönsku en ekki þýsku. En ætli þetta fólk hafi virkilega kunnað nokkuð í þýsku? Allavega ekki allir, ég er handviss um það.

Ohhh ég fór á GusGus um helgina! Svo fokkíng geðveikt! Vá! Orð fá því ekki fyllilega lýst. Fyndin saga:

Ég var fremst allan tímann (og er marin á mjöðmunum eftir það, en tótallý þess virði) og þar við hlið mér var ung snót, sem tilkynnti mér það um leið og Daníel Ágúst, hinn mikli, steig á svið, að hann væri hjásvæfan hennar. Hahaha, takk fyrir upplýsingarnar. Það sem mér kom til hugar var: "Heppin ung dama, hún er ein af svo fáum. Pause... Not."

Obborobb, grín. Samt ekki. Hann er náttúrulega ansi heitur herra.

Æj, ég er orðin stressuð yfir því að ef ég hendi mér ekki í að vista þessa færslu þá muni hún hverfa.

Bless.

fimmtudagur, mars 08, 2007

Já, ég er klárlega brjáluð. Ég var bara fjarlægð af ónefndri síðu vegna biturðar hinna meðlimanna út í of litla virkni af minni hálfu. Mér finnst það ömurlegt og glatað og ég er sár. Rugl.

Fyrsta lag:
Ég vissi ekki að alvarleiki málsins væri svona mikill. Ég hélt að þetta blogg væri meira uppá gamanið en hefniaðgerðir og mér finnst klárlega að ég hefði átt að fá a.m.k. eina viðvörun áður en til svona rótrækra aðgerða var gripið. Algerlega óréttlátt.

Annað lag:
Ég var stofnandi félagsins í þá daga þegar það var stofnað og það að ég sé ekki majorly virk í nýstofnuðu bloggi þess gefur klárlega ekki rétt til þess að fjarlægja nafnið mitt úr meðlimum félagsins! Ég er ennþá hluti af félaginu þrátt fyrir að vera ekki bullandi virk í bloggsíðu þess.
Ekki var Óli Stef fjarlægður af landsliðssíðunni af því að hann bloggaði aldrei og kommentaði aldrei. Enda hefði það verið fáránlegt! Eins fáránlegt og þetta er!

Þriðja lag:
Ég er helling búin að kommenta (á a.m.k. 50% færslnanna sem sjást á upphafssíðu félagsins) og ég gerði skemmtilegustu færslu í heimi - og rökin fyrir brottrekstri eru að ég hafi "aldrei kommentað" og "ekkert bloggað". Obiously not true. Ég viðurkenni að færslan var ekkert sérstaklega löng og innihaldsrík, en hún var þó. Og síðast þegar ég vissi var eitthvað ekki ekkert og helmingur ekki aldrei.

Ég er sár, sár segi ég. Og mér finnst þetta asnalegt. Og fáránlegt eip. Og diss. Og algerlega alltof harkalegar refsiaðgerðir og engan veginn leiðin til að virkja mig! Mætti halda að umræddar manneskjur hefðu alist upp Bandaríkjunum (sbr. alltof harkalegar refsingar og oftar en ekki í virkilegu ósamræmi við glæpinn).

Hringið í mig þegar þið eruð í stæ603, stæ703, líf103, efn103 og eðl103 - í tveimur skólum - ásamt því að vinna, hjálpa helling til heima og eiga félagslíf.
Þá er ég ekkert að deyja úr spenningi í að eyða þessum tveimur mínútum á dag (já, ýkjun að sjálfsögðu, but you get the point) þar sem ekkert bíður mín (og þó bíður alltaf eitthvað, eins og hjá öllum, alltaf) í að uppfæra síðuna.
Og hvarflaði það að ykkur að mér fyndist þið standa ykkur ágætlega í að sjá um þetta og að ég treysti ykkur fyrir þessu? No, no.

Og, ónefndur meðlimur sem var dónalegur áðan, ekki halda að ég hafi ekki skoðað síðuna í mánuð, ég skoða hana reglulega, mjög reglulega, ég bara er ekkert alltaf að skoða meðlimaskránna, þar sem ég býst ekkert sérstaklega við að þar verði mikil breyting á!

Ég puffa á svona bannsett rugl og vitleysu! (Já, upphrópunarmerki)!
Djöfuls.

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Það er svolítið annað að vera í tveimur stærðfræðiáföngum sem heita stærðfræði 403 og 503 heldur en að vera í tveimur stærðfræðiáföngum sem heita stærðfræði 603 og 703 ásamt því að vera í efnafræði 103, líffræði 103 og eðlisfræði 103.
Það sem aðgreinir aðstæðurnar enn meira er að vera þeim tveimur síðastnefndu í öðrum skóla en hinum þremur. Bðöh. Mér fallast nánast hendur. Vinnuálagið er mikið. Mikið segi ég.

Ástæðan fyrir þessu öllu saman:
Þegar ég var á lokaönninni minni í MA, vorönn 2006, og var að fara að útskrifast af félagsfræðibraut, þá stefndi ég á heimspeki í HÍ.
Allt í einu fór ég að hugsa að heimspeki væri ekki nógu hagnýtt nám fyrir starfsframa. Ég fór þá að leita að námi sem ég sæi fyrir mér að mér fyndist jafn skemmtilegt og heimspeki. Stærðfræði var niðurstaðan. Stærðfræði í HÍ.
Þá hóf ég bréfaskriftir við formann stærðfræðiskorar í HÍ, Róbert að nafni. Ég vildi kanna möguleika mína með stúdentspróf af félagsfræðibraut.
Hann tilkynnti mér að inntökuskilyrðin væru 21 eining í stærðfræði og 30 einingar í raungreinum, þar af 6 í eðlis-, efna- og líffræði. Hann sagði mér hins vegar líka að hann væri að vinna í því að fá reglunum breytt svo inntökuskilyrðin væru mun færri eða jafnvel engar raungreinar.
Ég hoppaði nánast hæð mína af gleði (nei, nei, en þú veist) þegar ég komst að því að ég þyrfti svona litlu að bæta við mig til að komast inn, því ég útskrifaðist með 12 einingar í stærðfræði og 12 einingar í raungreinum. Það þarf varla mikla stærðfræðisnillinga til að sjá að ég þyrfti þá bara að bæta við mig 9 einingum (þremur áföngum) í stærðfræði og þá flygi ég inn í stærðfræði í HÍ.

Jeeeaaass.

Þá hóf ég aftur nám í MH (aftur segi ég vegna þess að ég tók líka 3. árið mitt í framhaldsskóla í þeim ágæta skóla, MH). Á fyrri önninni tók ég sumsé stærðfræði 403 og 503 (og eins og áður hefur verið getið en ég er enn jafn stolt af, fékk 10 í báðum, skooor) og horfði fram á jafnvel auðveldari vorönn.
Á endanum reyndar tók ég þá ákvörðun að taka ekki bara einn stærðfræðiáfanga í viðbót og rétt svo uppfylla inntökuskilyrðin, heldur taka þrjá stærðfræðiáfanga og hafa þá 27 einingar í stærðfræði. Nóprobblem for John Boblem. Það nokkuð? Það held ég ekki.

Æjiii, nei, úpps. Róbertinn sagði mér þá, eftir að ég hafði eytt haustönninni í chill bara með 6 einingar, að inntökuskilyrðunum hefði barasta ekkert verið breytt! Óóó, svekkjandi maður.
Inntökuskilyrðin í stærðfræði í HÍ eru ennþá 21 eining í stærðfræði og 30 einingar í raungreinum, þar af 6 í eðlis-, efna- og líffræði. Það hafa hins vegar oft verið gerðar undantekningar og 22 einingar í raungreinum látnar duga.
Jæks.

Já. Fullur skóli á vorönn.
Stærðfræði 603
Stærðfræði 703
Efnafræði 103
Eðlisfræði 103
Líffræði 103

Hvorki meira né minna. Eftir það er ég komin með 22 einingar í raungreinum. Ok. Ekkert mál. Ég get það. Ég er dugleg. Pís of keik. Pínu svekkjandi að hafa ekki getað dreift vinnuálaginu á þessar tvær annir, en ég get það samt.

En svo eru mál með vöxtum að þeir sem eru útskrifaðir mega ekki flokkast undir dagskólanemendur í MH. Þeir falla undir öldunga og eiga að sitja öldungadeild.
Það væri allt í lagi ef þessir áfangar væru allir kenndir í öldungadeild. En það eru þeir ekki. Ég þurfti að taka þá í dagskóla.
Ég púslaði sjálf saman stundaskránni minni í MH og var byrjuð að sitja alla tímana. Allt komið á skrið, allir tímarnir komust í stundatöfluna.
En þá var ég kölluð á fund skólastjórnar og mér tilkynnt að því miður væri það reglum samkvæmt að öldungar fengju bara að sitja þrjá áfanga í dagskóla. Engin fordæmi væru fyrir því að öldungar hefðu fengið að sitja fleiri en þrjá áfanga í dagskóla og því miður væru þær reglur óbreytanlegar.
Já, þrátt fyrir að nemandinn sem um ræðir væri með mjög viðamiklar ástæður fyrir öðru. Nefnilega að uppfylla inntökuskilyrði í ákveðna deild háskólans, stærðfræði - OG þótt rektor MH sé meira að segja stærðfræðingur sjálfur og ætti í praxís að styðja alla þá nemendur sem stefna á þá deild, þar sem þar er alþekktur skortur, sérstaklega á kvenkyns nemendum.
Að undanskilinni þeirri staðreynd að ég var með 100 prósent árangur og 100 prósent mætingu í þeim áföngum sem ég tók á haustönninni.

Engar undantekningar, sorrý.

Og þar sem þessi tilkynning skólastjórnar kom ekki fyrren að nokkrum skólavikum liðnum (rúmum þremur að mig minnir), þá var ég auðvitað strax orðin eftir á uppí FB þegar ég byrjaði þar.

Og þess vegna er ég núna í þremur vinnuálagsmiklum áföngum og tveimur virkilega vinnuálagsmiklum áföngum í ekki einum skóla, heldur tveimur skólum. Annar þeirra er í Hamrahlíð og hinn er í Breiðholti.
Tvisvar í viku þarf ég því að bruna tvisvar á dag - í mikilli tímaþröng, þar sem flestir tímanna sem ég sit í FB stangast á við einhverja tíma í MH - uppí Breiðholt og ná einhverjum hluta líffræði og eðlisfræði.
Aðra daga þarf ég hins vegar bara að eyða bensíni og menga umhverfið sem nemur einni ferð uppí Breiðholt á dag.

Vá, svo frústrerandi sko. Nei, sko, ég meina, vá! Svo frústrerandi!

Nú er mars að bresta á og ég er ennþá að rúlla einhverjum risa snjóbolta á undan mér. Ég hef ekki ennþá náð að grípa námið heljartökum og eisa allt sem ég geri.
Núna er ég orðin þreytt á því. Og pirruð. Ég er ekki að standa mig sem skildi vegna þess að ég er aaalltof pirruð á þessu. Og kannski útaf einhverjum fleiri ástæðum, ég veit það ekki.
Það sem mér finnst sennilega langt um mest pirrandi er að þessir þrír raungreinaáfangar og vinnuálagið sem fylgir þeim, eru að koma niður á áföngunum sem skipta mig mestu máli og mig langar mest að ná árangri í. Það eru að sjálfsögðu áfangarnir stærðfræði 603 og 703.

Ég er núna búin að fá þrjár einkunnir undir 7 á önninni, og ein þeirra var í stærðfræði 703. Ég fékk 6.0 í einu prófi þar. Og ég var svo reið. Og sár. Og leið. Svooo leið og sár og reið.
Það sem vegur aðeins upp á móti er að mér hefur gengið mjög vel í heimadæmunum í þeim áfanga (9/10, 12/12, 12/12 og 9,5/10), en samt svo rosalega pirrandi.
Hinn stærðfræðiáfanginn hefur líka innihaldið vel heppnuð heimadæmi (10, 9,5), en þar var einmitt líka próf sem ég var ekki með 100% árangur í, heldur 80%.

Það eru litlar líkur á að þetta væri að gerast ef ég fengi að vera í öllum fimm áföngunum í sama skólanum. Og enn minni líkur ef ég þyrfti ekki að taka þessa raungreinaáfanga. Þótt þeir séu reyndar afskaplega skemmtilegir og fræðandi.

Eins og ég hef líka áður getið hef ég verið ansi dugleg í stunda afþreyingu sem oft er kölluð "djammið". Það þykir mér afskaplega skemmtilegt ef um er að ræða skemmtilegt fólk. En eins og flestir geta sagt sér þá hefur það oft í för með sér ekki 100% árangur í skóla ef í honum er nóg að gera (eins og hjá mér).
Á fyrri önninni þá gekk þetta því ég var bara dugleg á virkum dögum og þá gat ég auðveldlega tekið helgarfrí. Nú get ég það í rauninni ekki.
En þessi misgóði árangur sem ég hef verið að ná að undanförnu hefur að sjálfsögðu verið að svekkja mig á skólanum. Það mikið að ég ákvað að ég ætlaði að slaka rosalega á í þessari umdeildu afþreyingu, djamminu.

Núna áðan, stóð ég mig hins vegar að því að hugsa:
"Æji... Það er svo ótrúlega gaman að hafa það gaman. Miklu skemmtilegra en að læra... Ég get alveg látið mér nægja að ná þessum raungreinaeiningum, standa mig ágætlega í stærðfræðinni og hafa það bara gaman þar til ég byrja í háskólanum.
"Ég meina, það er bara núna eða ekki, því ekki mun ég stunda skemmtanalífið grimmt á háskólaárunum og sennilega ekki svo mikið eftir þau, því þá verð ég orðin tæplega þrítug. Þá er kominn tími til að punga út börnum og eignast húsbíl og íbúð (tilvísun í hvað?) og frama. Þá er komið að öðruvísi skemmtilegum kafla lífsins. Ég vil líka njóta þessa kafla."


Þetta finnst mér ekki skemmtilegt að hafa leyft mér að hugsa. Ég hef metnað fyrir náminu. Það er glatað að ég sé orðin það þreytt á því strax að ég sé að hugsa um að setja djammið í annað sæti og námið ekki í nema fyrsta og þriðja.

Ég veit ekki hvað ég á að gera.


Vá, hvað þetta var ótrúlega gott vælublogg og mikil útrás.
Nú get ég líka alltaf vísað í bloggið mitt þegar fólk spyr mig hvað ég sé að gera í lífinu.
Það er nefnilega spurning sem ég giska á að ég svari að meðaltali einu sinni á dag. Í það minnsta. Og svarið er svo löng útskýring. Ég kann útskýringarræðuna algerlega utan að í höfðinu.
Þegar ég fæ spurninguna:
"Hvað ert þú að gera?"
Sem flestir svara með örfáum orðum ("efnafræði í háskólanum" eða "au-pair í london" eða eitthvað þess háttar), þá fer sjálfkrafa á Play í höfðinu á mér og ég tala í svona mínútu án þess að hugsa. Þyl upp ræðuna, sem inniheldur ástæðurnar fyrir því að ég er hvorki í háskóla á þessu ári, né að hafa það ótrúlega gaman eins og flestir þeir jafnaldrar mínir sem ákváðu að bíða með háskóla í eitt ár frá stúdentsprófi, eins og ég.

Nei, ég er nefnilega að eyða aukatíma í nám. Nám sem ég fíla náttúrulega, en ég er tvítug! Ég á að vera að gera eitthvað annað.
Úff, ég veit ekki.

Nú get ég svarað spurningunni með:
"Kíktu bara á skraebotturkraeklingur.blogspot.com, á bloggið frá 27. febrúar 2007."
Fine.

Eitt stórt andvarp. Stórt. Nokkur jafnvel.

Já, og svo finnst mér fólk stundum alltof erfitt. Alltof.


Jæja.
Þú ert hetja ef þú last þetta blogg. Hetjan MÍN. Ég er ánægð með þig.

Hér er Mia Wallace helgarinnar:




Bless.

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Ársyfirlit? Já, ég held það bara. Þrátt fyrir að kominn sé febrúar.

Þetta var ágætisár. Þetta myndaársyfirlit ræðst mestmegnis af myndunum í tölvunni minni, svo atburðirnir sem ég var með myndavél á eru heppnir.
Svo er hægt að klikka á myndirnar til að stækka þær.

-Síðasta önnin mín í Menntaskólanum á Akureyri var yndisleg. Kynntist Öspinni minni, heldur seint, en betra er seint en aldrei - gæti ekki átt betur við.
-Hildur átti tvítugsafmæli snemma og hélt æðislegt teiti á Húsavík. Það hefði mátt enda öðruvísi, heldur mikið áfengi þar á ferð, en þó afspyrnu skemmtilegt kvöld. Glimmer gay.
Svona (Konni, Guddi og ég):



-Guddimagg átti afmæli í febrúar og ég gleymdist. Það var hundleiðinlegt. Haha, svekkjandi. Augljóslega bestu vinir í heimi sem ég á... Ekki? Júú, fínir.
-Skólinn gekk rosalega vel. Heimspekin fékk forgang yfir allt og ég var að velta fyrir mér að fara í heimspeki í HÍ.
-Félagsfræðibrautin hélt félagsfræðiárshátíðina (ekki hina víðfrægu fylleríisárshátíð, sem 4.F (minn bekkur) heldur alltaf en klúðraði í ár, heldur skólafélagsfræðiárshátíð) þar sem okkar fög voru kynnt og ég ásamt nokkrum öðrum úrvalsheimspekingum MA tókum að okkur að kynna heimspekina.
Meðal annars þessum heimspekingi; Lísu Ólafssyni:



Og þetta er allur hópurinn, ásamt Sigurði Ólafssyni, heimspekingi og góðum manni með meiru. Frá vinstri; ég, Ásgeir Berg, Jonna, Sigurður Ólafsson, Ragna, Ísak, Sigurður Helgi Oddson, Aníta Hirlekar, Lísa, Ari Emm, Hildur Há:



-Í mars komu Sigrún og Sunna til Akureyrar til mín í eitt stykki bretta- og djammferð. Það var æði. Við fórum að borða á Greifanum mínum og svona. Sigrún missti málið vegna matarvenja Akureyringa (Bernaise sósa á pizzu og fleira, haha).
Hér erum við að þykjast hneykslast á einhverju(m), það gekk svona rosalega vel. Við erum greinilega ekki nógu góðar leikkonur og þurfum að horfa á e-ð meira en fatahengi til að geta sett upp góðan hneykslunarsvip.
Haha, en ótrúlega lovable mynd:




Þessa sömu helgi var laugardagskvöldið á Karó mjög óhefðbundið. Í staðinn fyrir að vera Karó þar sem maður situr og spjallar og hlær og hefur ótrúlega gaman, gerðist Karó djammstaður eitt kvöld. En aldrei aftur eftir það, því fastagestir á Karó eru mikil partýljón og þegar Sverrir þeytti skífum þetta kvöld þá bara missti fólk sig. Rúður brotnuðu, glös brotnuðu, stólar brotnuðu, fólk var rotað, sumir afklæddust (að ofan aðallega) en mest dansaði fólk af sér rassinn. Svona mikil gleði:
Sara og ég:




Stefán og dídsjeijinn:



-Í apríl gerðum ég og Ómar okkur ferð til Egilsstaða. Það var voða kósý. Við ætluðum á snjóbretti í Oddskarði, en ég komst ekki upp með lyftunni (diskalyfta) og brjálaðist og strunsaði niður í kofa og fékk endurgreiddan lyftumiðann. Haha, reiða ég. Það var funny.
Hérna er útivistarég í Hallormsstaðaskógi:




-Í apríl tókum við vinirnir okkur saman og grilluðum í Kjarnaskógi og eftir það var haldið í partý heim til Arnars. Þetta var mjög skemmtilegt krydd í tilveruna, awesome að fjölmenna í útifyllerí.
Þessir töffarar (nema annar Stebbinn (sá yngri)) grilluðu humar. Ásgeir sést í bakgrunni:



Hildur og Ari, rúsínurassgöt:




Aníta Kristjánsdóttir og undirrituð, hamingjumynd:




-Ég og Ómar fundum með okkur áhuga á snjóbrettum. Þá eiginlega ekki snjóbrettunum sjálfum heldur íþróttinni. Frekar leiðinlegt að hafa búið á Akureyri, þ.e. við rætur Hlíðarfjalls, annars vegar í 18 ár (Ómar) og hins vegar í 4 ár (ég) og uppgötva áhugann þegar mánuður er eftir af vetraropnunartíma Hlíðarfjalls og við að flytja í burtu. Kemur. Við allavega eyddum þessum mánuði uppí Hlíðarfjalli. Og eftir að því var lokað fórum við í ferð uppá Kaldbak með snjótroðara og renndum okkur þar niður. Það var æðislegt.
Hér má sjá út Eyjarfjörðinn af Kaldbaki:




-Í maí var líka upprennandi útskrift að nálgast óðfluga og það var svona mestmegnis það sem allir fjórðubekkingar MA voru að hugsa um þá. Æði. Síðasta skóladaginn okkar í skólanum er haldinn svokallaður sparifatadagur, þar sem allir fjórðubekkingarnir mæta í sínu næstfínasta pússi (á eftir útskriftardressinu) og borða svo kökur með kennurunum sem þeir fyrrnefndu bjóða uppá. Mjög góð og gild hefð og stór liður í útskriftinni.
Hér má sjá Sigurð Helga Oddsson og Erlu Hleiði sæt og fín á sparifatadeginum. Heiður að hafa kynnst ykkur:




-Dimmiteringin er auðvitað líka hluti af þessu ferli. Minn bekkur, 4.F, dimmiteraði sem Gay Pride. Það var æðislegt, fyrir utan rusalegt veður sem gerði það að verkum að allir misstu einn fingur og eina tá. Nei. En það var samt mjög kalt. Kuldaboli beit.
Tryggvi með undurfagran svip og ég með ágætis svip líka. Tryggvi datt vel inní hlutverkið sitt, það má segja:




Ég og Ari í bekkjarpartýinu eftir dimissio. Enn í fíling, eins og sést, en fremur sjúsk eftir kaldan og langan dag:




Olga og Baldur á dimissio kvöldinu. Olga æðifögur með eldrauðan varalit. Þau eru sko kærustupar:





-Sunna Dís útskrifaðist í lok maí og ég fór suður fyrir þann atburð ásamt því að Sigrún varð tvítug nokkrum dögum fyrr. Það var mikil og góð djammhelgi til heiðurs snótunum tveimur.
Sigrúnin á tvítugsafmæliskvöldinu:




Sunnie mín graduating:




-Ég fór á Roger Waters tónleika. Það var reyndar frekar geðveikt. Frekar.
-Ég útskrifaðist úr Menntaskólanum á Akureyri 17. júní, með 7,65 í meðaleinkunn. Hefði getað gert betur, en júnó, mismikið lagt á sig á þessum fjórum árum (mest lítið samt). Sigrún og Sunna komu aftur norður til mín og ég skemmti mér konunglega þennan dag. Marseraði niður í bæ með Ásgeiri.
Í garðinum heima í Munkanum þar sem flestir mínir nánustu og bestu fögnuðu með mér:




Hluti af mínum nánustu og bestu, Sunnslan mín og Sigrúnin:




Æjimms. Pínu krúttó:




-Ég hélt svo útskriftarveisluna mína fyrir sunnan viku síðar þar sem góðmenni fjölmennuðu (menni mennuðu jess). Sú veisla var æðisleg líka, útskriftargjöfin mín frá pabba og Steinunni.
Ég og those who made me:




Útskriftardrykkur í boði Bjarkarinnar minnar, Cosmopolitan beibí:




-Ég fór í fyrsta skipti á Hróarskelduhátíðina. Ég dó næstum því. Það var mjög skemmtilegt og æðislegt veður allan tímann, en ég er með svo sjúklegt gróðurofnæmi og viðkvæm fyrir öllu ryki að ég dó. Nei, ok, ég dó ekki, en ég var í alvöru komin með sár á nefið (ekki bara rauð) eftir snýtingar í lok ferðarinnar og ég var með hósta í margar vikur eftir þetta. Haha, aulinn ég. En þetta var æðislegt. Fór út með Ómari, Sigrúnu og Sunnu og skemmti mér svo konunglega með fullt, fullt af Íslendingum og öðrum þjóðum.
Gleðin var svona mikil eiginlega bara alltaf:




Nema á morgnana, því það var sjúkt að vakna í tjaldinu í þessum hita. Óbærilegt, í alvöru. Ég hefði sofið úti ef ég hefði ekki verið hrædd við skordýrin og að brenna. Fyrir utan ofnæmið mitt að sjálfsögðu.
Á morgnana leið mér alltaf svona:




Dagarnir fóru oftast ekki í mikið, vegna hitans. Ég naut þess eiginlega bara að gera ekkert í sólinni, nema stundum. En það var næs sko. Mmm, sakna þess, good times. Sólbað og bjór:




Og tásurnar mínar. Fótaburðurinn var yfirleitt ekki meiri, nema þegar það kólnaði á kvöldin. Næææs:




-Sumarið leið ótrúlega hratt hjá. Það byrjaði eiginlega ekki fyrren í júlí hjá mér, því útskriftarstússið var svo mikið og svo kom Hróarskelda. En ég meina þeir hlutir voru auðvitað bara hluti af sumrinu og gerðu það að einu besta sumri sem ég hef upplifað. Að öðru leyti var sumarið fullt af djömmum og gamani.
-Júlí bar með sér tvítugsafmælið hennar Bjarkar sem ég fór suður fyrir, skemmti mér konunglega þar. Björk kom líka norður og við ásamt Stebba héldum matarboð, sem er fáránlegt að gerist ekki oftar því það var wonderful.
-Um versló fórum við Ómar í smá innanlandsreisu. Byrjuðum í Ásbyrgi og sáum Sigur Rós, sem var dásamlegt. Æðislegt kvöld. Svo gistum við í Mývatnssveit eina nótt og enduðum svo vestur í gömlu sveitinni hans Ómars og gistum þar eina nótt. Morguninn eftir fékk ég minn fyrsta reiðtúr. Það var ótrúlega gaman að fara á hestbak! Ég var reyndar með þrusuofnæmi í soldinn tíma eftir, en what the heck.
Hildur þurfti að pissa eftir Sigur Rósar tónleikana, svo hún stökk útí runna.
Hvar er Hildur?




Við fórum auðvitað daginn eftir tónleikana og tókum hring um Ásbyrgi. Það er yfirþyrmandi fallegur staður, alveg rosalega.
Þetta er tekið við Botnstjörn, ótrúlega fallegt að vera þarna:




Þetta er á leiðinni á tjaldsvæðið innan úr botninum:




Hér erum við í Dimmuborgum við stein sem leit út eins og munnur, ég með smá sviðsetningu sem Ómari fannst asnalegt að taka þátt í:




-Ómar flutti út til Noregs í ágúst og ég til Reykjavíkur, svo að leiðir okkar skildust. Það er undarlegt að hugsa til þess að hafa verið í sambandi tvö ár, það virtist ekki vera svo langur tími. Það var auðvitað bara góð lífsreynsla, þótt sumir haldi því fram að það sé best að vera laus og liðugur á þessum svokölluðu bestu árum lífsins. En ég uppskar góðan vin og mikla ást, sem er alltaf góð, og ég nýt mín bara núna í staðinn :)
Hérna erum við á lokaútaðborða-inu (sem varð reyndar svo það næstsíðasta, en ekki síðasta) og lokadjamminu okkar. Þetta er hvolpa-myndavélasvipurinn hans Ómars:




-Ég ákvað semsagt að fara til Reykjavíkur, búa hjá pabba og bæta stærðfræði við stúdentsprófið mitt, áður en ég héldi svo haustið 2007 í stærðfræði í HÍ.
-Freyjulundur06 var haldinn í lok ágúst, helgina eftir að ég flutti suður. En að sjálfsögðu gerði ég mér ferð norður þessa helgi. Reyndar vildi þannig til að ég var ekki búin að skila lyklunum að íbúðinni minni þannig að ég gisti síðustu næturnar mínar í Munkanum okkar Ómars þessa helgi. Það var skrýtið og tómlegt satt að segja, en Freyjulundur var stórkostlegur, sem alltaf. Þetta var náttúrulega ekki heldur bara venjulegur Freyjulundur, heldur tvítugsafmæli Arnars Ómarssonar og Anítu Hirlekar líka. Krónika lék fyrir dansi í tilefni þess.
Hérna er sæti börþdeybojinn og partýhaldarinn ásamt mér. Skeggjaður og fínn:




C'est moi, með rauðvínsvarir og -tennur, undir lok kvöldsins:




Krúttlegustu rapparar í heimi að gera lýðinn vitlausan:




-Menningarvakan á Akureyri var stórskemmtileg líka, hún var daginn eftir Freyjulund06/tvítugsafmælin. Æðisleg tískusýning sem áðurnefnt afmælisbarn (Anítan) hélt og sýndi þar hæfileika sína í fatasmíðum. Svo var að sjálfsögðu bara partý og djamm og fyllerí og ótrúlega skemmtilegt.
Illskeytti skóflumaðurinn með klútinn og hattinn (Stefán Þór) mætti og varaði fólk við of mikilli skemmtun um kvöldið:




Því annars gæti farið svona:




Á endanum ákvað hann þó að skemmta sér bara og gefa skít í ábyrgð sína á að halda fólki í skefjum:




Sogbletta-Sverrir mætti líka á svæðið og stillti sér fallega upp fyrir myndavélina:



Þess má nú alveg geta að hann og Margeir mættu með sólgleraugu í öllu svörtu og með hvíta latexhanska vegna þemans sem þeir reyndu að koma í gang; þjónaþema. Skemmtileg tilbreyting. Haha.

-Í september varð Hafdís Greifaskvísan mín 25 ára, fjórðungur úr hundraði, hvorki meira né minna. Það var mikið gaman og mikið fjör í því teiti og eitthvað um vafasamar myndir af undarlegum stellingum sem verða ekki settar á netið (að þessu sinni að minnsta kosti, best að fá allavega leyfi hjá þeim sem um ræðið fyrst, haha).
-Ég, Björk og Stefán héldum EssEssBjé kvöld í koti þeirra Bjarkar og Steinars. Góð kvöld sko.
-Þann mánuð drap ég líka minn fyrsta geitung yfir ævina. Þvílíkt afrek.
Og hann var nú bara ekkert pínulítill sko:




-Í október varð ég loksins tvítug. Það var náttúrulega stórkostlega æðislegt og ég hélt uppá það með miklum tilþrifum. Eldaði dýrindismáltið handa mér og fimm öðrum útvöldum einstaklingum. Tveir af þeim misstu reyndar af herlegheitunum, annar þeirra löglega afsakaður, hinn bara hreint alls ekki. Engin nöfn verða nefnd að svo stöddu. En þau mættu bæði síðar um kvöldið og bættu upp fyrir fjarveruna við matinn. Þetta var æðislegt kvöld. Ég bauð fólki bara heim til mín og hitti fólk sem ég hafði ekki hitt í svolítinn tíma og svona. Voða gaman. Ölvun varð heldur mikil og djamm í downtown Reykjavík varð heldur lítið, meira um trúnó og svona skemmtilegheit. Afskaplega gott afmæli :)
Hérna var ég að missa það við Peaches, well in a glass:




Fékk þessi eðalgleraugu í afmælisgjöf frá eðalmanni. Miss Teacher:




Anna mín sætabaun kíkti:




Og auðvitað Sigrúnin mín:




Ásamt fleirum, en ég var ekki mikið að hugsa um myndavélina þetta kvöld :)

-Airwaves var óvænt ánægja. Ég sá ekki fyrir að ég færi, sökum peningaskorts, en mér hlotnaðist armband, mér til mikillar gleði. Airwaves var: Tryggvagata, fyllerí, fajitas, sukk, partý, of mikið fyllerí, öðruvísi en áður, ekki svo mikið af tónleikum (úúúpps) og ótrúlega skemmtileg (skrifa í kvenkyni vegna þess að það er hún tónlistarhátíðin, þaggi bara?).
Undirbúningur fyrir kvöldið (hohoho):




Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson djömmuðu með okkur á Tryggvagötu:




Svala, svala, fulla. Haha. Krúttin:




Need I say more? Sunnudagsmorguninn:




-Ég fór í nokkur tvítugsafmæli önnur en mín í október, góður mánuður. Þar á meðal var tvítugsafmælið hennar Sunnu Dísarinnar minnar, en ég á engar myndir frá því, sem er ömurlegt. Það var afskaplega notalegt afmæli. Hún var síðust af okkur S-gang (Sigrún, Sunna og Stefanía) að ná áfanganum. Það munar nú samt ekki nema þremur vikum á okkur Sunnu, hoho.
-Nóvember var svo síðasti mánuðurinn fyrir próf, svo ég ætlaði allavega að vera róleg, en það fór nú eins og það fór og áfengi var innbyrgt í einhverju magni, ekkert yfirþyrmandi samt. Tryggvagatan spilaði ágætlega stórt hlutverk í nóvember þar sem það var næstsíðasti mánuður íbúanna þar. Nóg af ótrúlega skemmtilegum Tryggvagötupartýjum.
-Desember, síðasti mánuður ársins góða, 2006. Ár tvítugsafmælanna og útskriftanna. Hann byrjaði á lokaprófum í stærðfræðinni sem ég var að taka. Mér tókst að eisa þá með 10 í báðum, ánægjulegt það.
-Helgina eftir prófin fór ég til London beibí að hitta Lísu skvísu og hafa það gaman. London var aaawesome.
Mússímússí, Lísan mín og ég:




Og Hrefna und Ich. Voða krúttó.




Það var æði að vera geðveikt miklar stelpur á hverju einasta kvöldi og gera okkur klárar saman fyrir djammið:




-Rakel Sölva, Birna Þrastar og Hildur Selma héldu kveðjupartýið sitt á Prikinu. Þær kvöddu allar landsteinana þegar nýja árið gekk í garð. Það var ógeðslega gaman í því teiti. Allt fullt af Akureyringum og alls kyns hyski sem maður var ekki búinn að hitta í heila eilífð. Hildur Harðar, komin heim frá Sverige og margirmargir fleiri. Það var æðislegra en svo rosalega margt annað sko. Well chosen pictures:
Miss Næní, sæt og fín með bjór, góðan:




Ég og Aníta Hirlekar rúsínurassgat:




Addi Kan, yndislegi, með ljósaeyrnalokk:




Pósin, HillPill professional ljósmyndari á bakvið myndavélina (góðu myndavélin). Ég, Aníta, Rakel og Birna:




Mikil systkinaást hjá Adda og Söru:




Zoe og Hildur Harðar yndislegu:




Meiri systkinaást, nema hjá gervisystkinunum Victori og Rakel:




Svala (úeh, orðaleikur) og Stefanía:




Eskimóa-Vikka mætti:




Ausgehr. Það var önnur ógeðslega fyndin mynd en ég set þessa. Gaman að segja frá því? Nei, ekkert sérstaklega. Allt í lagi samt. Allavega, hér er Ásgeirinn minn:




Og svo Björk og Stefanía, best buuudds:





Þá lýkur því. Ég vona að þið hafið haft af þessu nokkurt gagn og gaman og fengið smá innsýn í árið mitt.

Ég vil þakka öllum sem komu að þessu ári hjá mér. Það var stórkostlegt og æðislegt og skemmtilegt og lærdómsríkt og þroskandi og hellingur fleira.
Ár tvítugsafmælis, útskriftar, flutnings, nýrra vina, þroska og svo margs fleira.

Takk allir.
 

© Stefanía 2008