þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Það er svolítið annað að vera í tveimur stærðfræðiáföngum sem heita stærðfræði 403 og 503 heldur en að vera í tveimur stærðfræðiáföngum sem heita stærðfræði 603 og 703 ásamt því að vera í efnafræði 103, líffræði 103 og eðlisfræði 103.
Það sem aðgreinir aðstæðurnar enn meira er að vera þeim tveimur síðastnefndu í öðrum skóla en hinum þremur. Bðöh. Mér fallast nánast hendur. Vinnuálagið er mikið. Mikið segi ég.

Ástæðan fyrir þessu öllu saman:
Þegar ég var á lokaönninni minni í MA, vorönn 2006, og var að fara að útskrifast af félagsfræðibraut, þá stefndi ég á heimspeki í HÍ.
Allt í einu fór ég að hugsa að heimspeki væri ekki nógu hagnýtt nám fyrir starfsframa. Ég fór þá að leita að námi sem ég sæi fyrir mér að mér fyndist jafn skemmtilegt og heimspeki. Stærðfræði var niðurstaðan. Stærðfræði í HÍ.
Þá hóf ég bréfaskriftir við formann stærðfræðiskorar í HÍ, Róbert að nafni. Ég vildi kanna möguleika mína með stúdentspróf af félagsfræðibraut.
Hann tilkynnti mér að inntökuskilyrðin væru 21 eining í stærðfræði og 30 einingar í raungreinum, þar af 6 í eðlis-, efna- og líffræði. Hann sagði mér hins vegar líka að hann væri að vinna í því að fá reglunum breytt svo inntökuskilyrðin væru mun færri eða jafnvel engar raungreinar.
Ég hoppaði nánast hæð mína af gleði (nei, nei, en þú veist) þegar ég komst að því að ég þyrfti svona litlu að bæta við mig til að komast inn, því ég útskrifaðist með 12 einingar í stærðfræði og 12 einingar í raungreinum. Það þarf varla mikla stærðfræðisnillinga til að sjá að ég þyrfti þá bara að bæta við mig 9 einingum (þremur áföngum) í stærðfræði og þá flygi ég inn í stærðfræði í HÍ.

Jeeeaaass.

Þá hóf ég aftur nám í MH (aftur segi ég vegna þess að ég tók líka 3. árið mitt í framhaldsskóla í þeim ágæta skóla, MH). Á fyrri önninni tók ég sumsé stærðfræði 403 og 503 (og eins og áður hefur verið getið en ég er enn jafn stolt af, fékk 10 í báðum, skooor) og horfði fram á jafnvel auðveldari vorönn.
Á endanum reyndar tók ég þá ákvörðun að taka ekki bara einn stærðfræðiáfanga í viðbót og rétt svo uppfylla inntökuskilyrðin, heldur taka þrjá stærðfræðiáfanga og hafa þá 27 einingar í stærðfræði. Nóprobblem for John Boblem. Það nokkuð? Það held ég ekki.

Æjiii, nei, úpps. Róbertinn sagði mér þá, eftir að ég hafði eytt haustönninni í chill bara með 6 einingar, að inntökuskilyrðunum hefði barasta ekkert verið breytt! Óóó, svekkjandi maður.
Inntökuskilyrðin í stærðfræði í HÍ eru ennþá 21 eining í stærðfræði og 30 einingar í raungreinum, þar af 6 í eðlis-, efna- og líffræði. Það hafa hins vegar oft verið gerðar undantekningar og 22 einingar í raungreinum látnar duga.
Jæks.

Já. Fullur skóli á vorönn.
Stærðfræði 603
Stærðfræði 703
Efnafræði 103
Eðlisfræði 103
Líffræði 103

Hvorki meira né minna. Eftir það er ég komin með 22 einingar í raungreinum. Ok. Ekkert mál. Ég get það. Ég er dugleg. Pís of keik. Pínu svekkjandi að hafa ekki getað dreift vinnuálaginu á þessar tvær annir, en ég get það samt.

En svo eru mál með vöxtum að þeir sem eru útskrifaðir mega ekki flokkast undir dagskólanemendur í MH. Þeir falla undir öldunga og eiga að sitja öldungadeild.
Það væri allt í lagi ef þessir áfangar væru allir kenndir í öldungadeild. En það eru þeir ekki. Ég þurfti að taka þá í dagskóla.
Ég púslaði sjálf saman stundaskránni minni í MH og var byrjuð að sitja alla tímana. Allt komið á skrið, allir tímarnir komust í stundatöfluna.
En þá var ég kölluð á fund skólastjórnar og mér tilkynnt að því miður væri það reglum samkvæmt að öldungar fengju bara að sitja þrjá áfanga í dagskóla. Engin fordæmi væru fyrir því að öldungar hefðu fengið að sitja fleiri en þrjá áfanga í dagskóla og því miður væru þær reglur óbreytanlegar.
Já, þrátt fyrir að nemandinn sem um ræðir væri með mjög viðamiklar ástæður fyrir öðru. Nefnilega að uppfylla inntökuskilyrði í ákveðna deild háskólans, stærðfræði - OG þótt rektor MH sé meira að segja stærðfræðingur sjálfur og ætti í praxís að styðja alla þá nemendur sem stefna á þá deild, þar sem þar er alþekktur skortur, sérstaklega á kvenkyns nemendum.
Að undanskilinni þeirri staðreynd að ég var með 100 prósent árangur og 100 prósent mætingu í þeim áföngum sem ég tók á haustönninni.

Engar undantekningar, sorrý.

Og þar sem þessi tilkynning skólastjórnar kom ekki fyrren að nokkrum skólavikum liðnum (rúmum þremur að mig minnir), þá var ég auðvitað strax orðin eftir á uppí FB þegar ég byrjaði þar.

Og þess vegna er ég núna í þremur vinnuálagsmiklum áföngum og tveimur virkilega vinnuálagsmiklum áföngum í ekki einum skóla, heldur tveimur skólum. Annar þeirra er í Hamrahlíð og hinn er í Breiðholti.
Tvisvar í viku þarf ég því að bruna tvisvar á dag - í mikilli tímaþröng, þar sem flestir tímanna sem ég sit í FB stangast á við einhverja tíma í MH - uppí Breiðholt og ná einhverjum hluta líffræði og eðlisfræði.
Aðra daga þarf ég hins vegar bara að eyða bensíni og menga umhverfið sem nemur einni ferð uppí Breiðholt á dag.

Vá, svo frústrerandi sko. Nei, sko, ég meina, vá! Svo frústrerandi!

Nú er mars að bresta á og ég er ennþá að rúlla einhverjum risa snjóbolta á undan mér. Ég hef ekki ennþá náð að grípa námið heljartökum og eisa allt sem ég geri.
Núna er ég orðin þreytt á því. Og pirruð. Ég er ekki að standa mig sem skildi vegna þess að ég er aaalltof pirruð á þessu. Og kannski útaf einhverjum fleiri ástæðum, ég veit það ekki.
Það sem mér finnst sennilega langt um mest pirrandi er að þessir þrír raungreinaáfangar og vinnuálagið sem fylgir þeim, eru að koma niður á áföngunum sem skipta mig mestu máli og mig langar mest að ná árangri í. Það eru að sjálfsögðu áfangarnir stærðfræði 603 og 703.

Ég er núna búin að fá þrjár einkunnir undir 7 á önninni, og ein þeirra var í stærðfræði 703. Ég fékk 6.0 í einu prófi þar. Og ég var svo reið. Og sár. Og leið. Svooo leið og sár og reið.
Það sem vegur aðeins upp á móti er að mér hefur gengið mjög vel í heimadæmunum í þeim áfanga (9/10, 12/12, 12/12 og 9,5/10), en samt svo rosalega pirrandi.
Hinn stærðfræðiáfanginn hefur líka innihaldið vel heppnuð heimadæmi (10, 9,5), en þar var einmitt líka próf sem ég var ekki með 100% árangur í, heldur 80%.

Það eru litlar líkur á að þetta væri að gerast ef ég fengi að vera í öllum fimm áföngunum í sama skólanum. Og enn minni líkur ef ég þyrfti ekki að taka þessa raungreinaáfanga. Þótt þeir séu reyndar afskaplega skemmtilegir og fræðandi.

Eins og ég hef líka áður getið hef ég verið ansi dugleg í stunda afþreyingu sem oft er kölluð "djammið". Það þykir mér afskaplega skemmtilegt ef um er að ræða skemmtilegt fólk. En eins og flestir geta sagt sér þá hefur það oft í för með sér ekki 100% árangur í skóla ef í honum er nóg að gera (eins og hjá mér).
Á fyrri önninni þá gekk þetta því ég var bara dugleg á virkum dögum og þá gat ég auðveldlega tekið helgarfrí. Nú get ég það í rauninni ekki.
En þessi misgóði árangur sem ég hef verið að ná að undanförnu hefur að sjálfsögðu verið að svekkja mig á skólanum. Það mikið að ég ákvað að ég ætlaði að slaka rosalega á í þessari umdeildu afþreyingu, djamminu.

Núna áðan, stóð ég mig hins vegar að því að hugsa:
"Æji... Það er svo ótrúlega gaman að hafa það gaman. Miklu skemmtilegra en að læra... Ég get alveg látið mér nægja að ná þessum raungreinaeiningum, standa mig ágætlega í stærðfræðinni og hafa það bara gaman þar til ég byrja í háskólanum.
"Ég meina, það er bara núna eða ekki, því ekki mun ég stunda skemmtanalífið grimmt á háskólaárunum og sennilega ekki svo mikið eftir þau, því þá verð ég orðin tæplega þrítug. Þá er kominn tími til að punga út börnum og eignast húsbíl og íbúð (tilvísun í hvað?) og frama. Þá er komið að öðruvísi skemmtilegum kafla lífsins. Ég vil líka njóta þessa kafla."


Þetta finnst mér ekki skemmtilegt að hafa leyft mér að hugsa. Ég hef metnað fyrir náminu. Það er glatað að ég sé orðin það þreytt á því strax að ég sé að hugsa um að setja djammið í annað sæti og námið ekki í nema fyrsta og þriðja.

Ég veit ekki hvað ég á að gera.


Vá, hvað þetta var ótrúlega gott vælublogg og mikil útrás.
Nú get ég líka alltaf vísað í bloggið mitt þegar fólk spyr mig hvað ég sé að gera í lífinu.
Það er nefnilega spurning sem ég giska á að ég svari að meðaltali einu sinni á dag. Í það minnsta. Og svarið er svo löng útskýring. Ég kann útskýringarræðuna algerlega utan að í höfðinu.
Þegar ég fæ spurninguna:
"Hvað ert þú að gera?"
Sem flestir svara með örfáum orðum ("efnafræði í háskólanum" eða "au-pair í london" eða eitthvað þess háttar), þá fer sjálfkrafa á Play í höfðinu á mér og ég tala í svona mínútu án þess að hugsa. Þyl upp ræðuna, sem inniheldur ástæðurnar fyrir því að ég er hvorki í háskóla á þessu ári, né að hafa það ótrúlega gaman eins og flestir þeir jafnaldrar mínir sem ákváðu að bíða með háskóla í eitt ár frá stúdentsprófi, eins og ég.

Nei, ég er nefnilega að eyða aukatíma í nám. Nám sem ég fíla náttúrulega, en ég er tvítug! Ég á að vera að gera eitthvað annað.
Úff, ég veit ekki.

Nú get ég svarað spurningunni með:
"Kíktu bara á skraebotturkraeklingur.blogspot.com, á bloggið frá 27. febrúar 2007."
Fine.

Eitt stórt andvarp. Stórt. Nokkur jafnvel.

Já, og svo finnst mér fólk stundum alltof erfitt. Alltof.


Jæja.
Þú ert hetja ef þú last þetta blogg. Hetjan MÍN. Ég er ánægð með þig.

Hér er Mia Wallace helgarinnar:




Bless.

1 ummæli:

johannth sagði...

Ég claima hetjustig.

 

© Stefanía 2008