laugardagur, desember 01, 2007

In Rainbows, finnst mér vera svo ótrúlega góð plata. Ég held sérstaklega upp á 15 Step, Nude og All I need. Hið fyrstnefnda er fáránlega grípandi og fjölbreytt og hin koma af stað hjá mér jafn miklu tilfinningalegu flæði og þegar ég hlustaði á Creep og Karma Police, back in the days. Það tilfinningaflæði byggði, að ég held, mest á því að ég tengdi lögin við stóra frænda, sem var goð í mínum augum þegar ég var yngri. Það eru fáar skipanir sem ég hefði ekki hlýtt frá honum, sama hversu kjánalegar þær virtust mér. Það var hann sem opnaði augun mín fyrir Radiohead, þess vegna tengi ég Radiohead við hann.

Ég veit ekki hversu mörg grátköst hafa farið fram við Radiohead. Ég held að sem stelpa sé alveg eðlilegt fyrir mig að hafa gengið í gegnum nokkur óútskýranleg grátköst. Mér fyndist ekki ótréttlætanlegt fyrir strák að ganga í gegnum grátköst, en það er víst ekki jafn viðurkennt. Hvort það er ástæðan fyrir því að mér finnist eðlilegt að stelpur gangi í gegnum fleiri grátköst en strákar eða bara að kvenkynið sé tilfinninganæmara, veit ég ekki.

Mér finnst allavega mjög gott að gráta við Radiohead - frá mínu sjónarhorni er tónlist hljómsveitarinnar rosalega tilfinningarík. Rödd Yorke spilar mjög stóran þátt í því, en líka bara hversu mikið liggur í tónlistinni. Lögin innihalda oft þungan gítarleik, léttúðugan gítarleik, flottar taktbreytingar, tilfinningaþrunginn píanóleik og almennt skemmtileg ásláttarhljóð ásamt auðvitað einstakri rödd Thom Yorke. In Rainbows finnst mér nánast fullkomnun á þessari samsetningu. Hún opnar oft á einhverjar flóðgáttir sem ég fæ ekki útskýrt. Einhverjar blendnar tilfinningar sem koma af stað þvílíku flæði tilfinninga og hugsana.
Kannski er það, sem setur þessa plötu svona uppá stall hjá mér, að hún sameinar í mínum augum allt það besta í fari Radiohead í gegnum tíðina. Hún dregur fram minningar mínar tengdar Pablo Honey, The Bends og OK Computer - og eiginlega líka Amnesiac og Hail to the Thief (þótt ég hafi almennt ekki haldið jafn mikið uppá þær plötur).

Ég nefndi í upphafi lagið Nude af þessari plötu, sem kveikir sérstaklega á einhverju tilfinningaflæði hjá mér, en Arpeggi, Reckoner, Faust Arp, House of Cards og Videotape finnst mér alveg frábær líka. Nú er ég búin að þylja upp öll lögin á plötunni fyrir utan Bodysnatchers og Jigsaw Falling into Pieces. Þau lög finnst mér alls ekkert síðri - þau flokkast undir sama hatt og 15 Step hjá mér, ástæðan fyrir því að ég fíla þau lög er ekki þessi tilfinningatengsl við lögin sem ég var að tala um - frekar einhver hressleiki sem grípur mig með sér.

Fyrir utan allt það sem ég hef nefnt, finnst mér leiðin sem þeir völdu til að gefa út plötuna sína ótrúlega skemmtileg. Það getur vel verið að þetta sé allt bara risastór sölubrella (heildin sem þeir ætla að lokum að selja kostar náttúrulega ca. 5000 krónur) - en mér finnst þetta samt eitthvað krúttlegt. Mér finnst eins og þeir séu að gefa aðdáendum sínum plötuna, fyrir tryggð í gegnum tíðina. Og útaf þessu "örlæti", ef svo má kalla, langar mig til þess að borga þeim fyrir plötuna, og þakka fyrir það sem þeir hafa "gefið" mér í gegnum tíðina.

Nú hefur það verið gert opinbert að Radiohead verður á Hróarskeldu á næsta ári. Ég var að spá í að sækja um vinnu á svæðinu og þurfa þá ekki að borga fyrir miðann - en eftir að þetta kom í ljós þori ég ekki að taka áhættuna á því að missa af Radiohead. Frekar borga ég 20.000 krónur fyrir Hróarskeldumiðann. Guð minn góður, ég á eftir að fara yfir um á biðinni eftir þessum tónleikum. Sjö mánuðir eru langur tími. Ég hlakka svo til!
Ég vona að þessir tónleikar verði jafn frábærir og Ásgeir og Arnar hafa haldið fram um þá sem voru á Pukkelpop í fyrra - þar sem þeir spiluðu víst nánast allt sem strákarnir vildu heyra, gamalt sem nýtt. Reyndar hrópaði einhver yfir hópinn: "Play Creep!" og Thom Yorke svaraði: "You think I'm gonna play Creep for the rest of my fucking life, you fucking idiot?!"
Svolítið hart, en pínu kúl, haha. Ég hefði allavega hengt mig ef Thom Yorke kallaði mig "fucking idiot".

Ein lokaathugasemd; þótt stíll Radiohead og Arcade Fire sé gríðarlega ólíkur, þá er eitthvað við lagið Videotape sem minnir mig á lagið Neon Bible með þeim síðarnefndu. Mér finnst það skemmtilegt.

Engin ummæli:

 

© Stefanía 2008