fimmtudagur, september 20, 2007

Ég er með undarlega tilfinningu í maganum. Ekki í maganum í þeim skilningi að ég sé með undarlega tilfinningu í líffærinu sem tekur á móti mat. Heldur maganum í þeim skilningi sem maður leggur í magann þegar maður segist vera með fiðring eða hnút í maganum.

Ætli þessari undarlegu tilfinningu svipi ekki til þess þegar maður segist vera með hnút í maganum. Ég er ekki frá því.

Ég get ekki bent á hvað veldur þessari tilfinningu.

Kannski það að ég eigi eftir að læra það mikið út önnina að til þess að ég nái að klára allt efnið þarf ég að læra svona 12 til 18 tíma á sólarhring út önnina. Það stafar af því að ég byrjaði önnina ekki á að læra 12 tíma á dag alla virka daga. Heldur bara svona tvo daga.

Kannski það að ég hitti vini mína alltof lítið.

Kannski það að ég sé ekki skotin í neinum. Eða að mig langi til að vera skotin í einhverjum. Eða að ég sé skotin í einhverjum en fatti það ekki.

Kannski það að veturinn og myrkrið og ömurlega veðrið séu mætt.

Kannski það að ég sé ekki búin að eyða tíma með mömmu minni og Rebekku í ár og eilífð.

Kannski það að ég viti ekkert hvort ég vilji læra stærðfræði.

Kannski það að ég nenni bara ekkert lengur að vera í skóla. Þótt mig langi það. Bara kannski ekki erfiðum skóla.

Kannski ekkert af þessu.

Hver veit?

Kannski Beirut:



Ég veit samt alveg að lífið er gott. Allavega við mig.

Engin ummæli:

 

© Stefanía 2008