Ég er farin að gera eitthvað af viti.
Af viti. Viti menn það þá er þeim borgið.
Núna er ég alltaf á leiðinni að læra. Alltaf. Og ef ég er ekki að læra (sem er alveg oft, þótt ég sitji með bækurnar opnar fyrir framan mig) þá finnst mér ég vera að sóa tíma.
Á morgun er vísindaferð. Sem ég er búin að skrá mig í en veit þó ekki enn hvort ég fari í. Valið stendur á milli vísindaferðar og Heima (í skilningnum kvikmynd um Sigur Rós, ekki heima í skilningnum að vera heima).
Hvort tveggja heillar og hvort tveggja hefur bæði kosti og galla. Eins og gildir um margt það sem heillar.
Gott ef það gildir ekki bara um flesta (þó endanlega marga) hluti í heiminum, hvort sem þeir heilla mig eða ekki. Eða heilla einhvern annan eða ekki. Eða ekki neinn.
Dæmi um hlut sem heillar mig ekki en hefur þó bæði kosti og galla er að vakna snemma. Það heillar mig aldrei. Það höfðar til skynseminnar en heillar mig ekki að neinu leyti. Að vakna snemma heillar samt fullt af heimingum.
Heimingar er heimfæring þjóðernis yfir á heiminn. Íslendingur, heimingur. Hljómar skelfilega. Heimsbúi væri nærri lagi held ég, en þó frekar ömurlegt að mínu mati.
Ég frumreyndi nýja hefð á sunnudaginn var. Það á enn eftir að koma í ljós hvort atburðurinn verði að hefð, svo það er kannski ekki rétt að tala um hann sem hefð ennþá.
En atburðurinn var lummuboð. Ég bakaði lummur og bauð fólki uppá lummur. Kaffi með þeim meira að segja. Þær voru hreint ágætar þótt ég segi sjálf frá.
Uppskrift að Lólóar lummum:
10 msk hveiti
3 msk sykur
2 tsk lyftiduft
70 g brætt smjör
1 egg
mjólk eftir þörfum
Eins og í flestum bakstri fer þetta svona fram:
Þurrefnin saman. Blautefnin (orð?) svo. Þynningarmeðalið (mjólkin í þessu tilviki) síðast.
Mig minnir að uppskriftin hafi litið svona út. Ég firri mig þó allri ábyrgð á misheppnuðum lummum ef þetta er ekki rétt uppskrift.
Kannski fletti ég því upp fyrir næstu færslu og staðfesti uppskriftina þá.
Ég held ég endi þetta á (ég ætla að láta þetta standa þótt mér finnist sjálfri (alla jafna held ég) ekkert skemmtilegt þegar fólk endar færsluna sína á "Ég ætla að enda þetta á...") heillaósk sem er afskaplega vel viðeigandi við allflest tilefni, nema einstaklingurinn sem ávarpaður er falli ekki í kramið hjá manni.
Gangi ykkur vel í lífinu.
Stefanía.
Péess. Sjáið hvað ég og Sunna Dís erum flippaðar gellur.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli