mánudagur, ágúst 11, 2008

Raunveruleikaþættir eru að fara með mig. Það er svo langt síðan fólk byrjaði að tala um að raunveruleikaþættir væru orðnir of margir, en samt er svona helmingurinn af sjónvarpsefni raunveruleikaþættir.

Aulahrollur vikunnar:
Kimora: Life in the Fab Lane
Mother Fabulous

To die for.
Og það varð eins og ég hélt það yrði. Ég fór á nýju Batman myndina, The Dark Knight (klígja útaf nafninu), búin að heyra stórkostlega hluti um myndina. Og þegar ég nefndi að ég væri reyndar ekki svo mikill Batman aðdáandi sagði fólk það ekki skipta máli því myndin væri svo rooosalega góð. Og þegar ég nefndi að þetta væri ábyggilega hæp útaf Ledgerláti, sagði fólk svo ekki vera.

Hún fór beint í toppsætið á imdb-listanum yfir bestu myndirnar, og hver má sjálfur sjá hvaða myndir eru á þeim lista. Ég gerði ráð fyrir að hún hefði flogið á toppinn þar sem fleiri en vanalega hefðu kosið um myndina vegna athyglinnar sem hún fékk við Ledgerlátið. Hann dó, allir sáu myndina, fullt af vitleysingum gaf myndinni aukastig, myndin fór hraðar á toppinn en eðlilegt er. Það sést alveg að óvenju margir eru búnir að kjósa um myndina miðað við tímann sem hún hefur verið í sýningu.
Eftir að hafa séð myndina er ég enn sömu skoðunar.

Heath Ledger er mjög góður í hlutverki jókersins, Michael Caine stendur náttúrulega alltaf fyrir sínu, en fyrir utan jókerinn og brytann finnst mér myndin mestmegnis vera tæknibrellur og aksjón. Reyndar eru tæknibrellurnar og aksjónið flott og myndin flott að því leyti. En ég varð fyrir vonbrigðum með múgæsinginn sem fjöldinn lét plata sig í. Þetta er ekki svona yfirþyrmandi frábær mynd.

En mig grunar að ég sé með teiknimyndasögumyndafordómana mína. Hún er kannski ágæt miðað við að vera þannig mynd, en ég er svekkt því mér var sagt að hún væri góð á hærri standard en það. En ég vissi að hún yrði það ekki. En fór samt með kröfur.

miðvikudagur, ágúst 06, 2008

Ég skil ekki samskipti kynjanna. Ég skil þau ekki. Það eru allir alltaf endalaust að leita sér að sleik eða daðri eða bóli til að sofa í. Og í kringum þessa leit er endalaust af leikjum. Svo margt sem má ekki gera og segja.

Svo er líka svo merkilegt að um leið og sleikurinn er orðinn, er mikil hætta á vandræðaleika. Sérstaklega ef um vini er að ræða. Voðalega erum við flókin eitthvað. Af hverju lifa ekki allir bara frjálsum ástum? Af hverju þarf að vera svona mikið mál að dettísleik? Hverjum finnst leiðinlegt í sleik? Engum finnst leiðinlegt í sleik. Af hverju eru ekki bara allir í sleik allan daginn án þess að það sé tiltökumál? Auðvitað er til fólk sem mann langar meira í sleik við en annað fólk, en þá fer maður bara í sleik við það fólk og sleppir hinu fólkinu.

Ok ég er búin að fatta þetta. Ég er búin að fatta af hverju leikirnir eru. Stundum er bara gott að skrifa niður það sem maður er að hugsa og þá skýrist allt.

Sleik-leikirnir koma auðvitað til af því að enginn vill koma sér í höfnunaraðstöðuna og þess vegna þarf að tipla á tánum og aðilarnir að nálgast hvorn annan rólega, lítil skref í einu.

En þetta skýrir ekki að það MEGI ekki taka of stórt skref.

Nei nú er ég komin í hringi og alveg orðin ringluð.

----

Fólk er semsagt ekki í sleik allan daginn vegna þess að það langar engan í sleik við hvern sem er. En um leið og maður er hættur að fara í sleik við hvern sem er þá er maður með einum sleik að sýna viðkomandi sleikleikmanni að maður sé til í sleik við hann fremur en aðra. Þar með er maður búinn að gera sig berskjaldaðri en hefði maður ekki farið í sleik við sleikleikmanninn.
Attlæ. Á þessu stigi erum við semsagt farin að velja okkur suma fram yfir aðra.
Nú gildir almennt um verðmæti mannkynsins að því sjaldgæfara, því eftirsóttara. Lítið framboð eykur eftirspurn og allt það. (Þess vegna er kúkur til dæmis ekki eftirsóttur, það eiga allir nóg af kúk).
Það sama hlýtur bara að gilda um samskipti kynjanna. Er það ekki?
Okkur býðst einhver, en hann er ekkert merkilegur af því það er svo auðvelt fyrir okkur að fá hann. Við viljum miklu frekar einhvern sem er mjög sjaldgæfur og erfitt að fá. Við þurfum semsagt að minnka framboðið á okkur sjálfum til að skapa eftirspurn á okkur. ÞAÐ er ástæðan fyrir því að við MEGUM ekki taka of stór skref í tipl-sleikleiknum við sleikleikmanninn, við erum að skapa eftirspurn.
Getur þetta verið?

Gvuðminngóðuþettaerfáránlegtogégáaldreieftiraðskiljaþetta. En skilningur á samskiptum kynjanna er hér með orðið eitt af því sem ég einset mér að fá í lífinu. Eitt af lífsmarkmiðunum.
 

© Stefanía 2008