miðvikudagur, maí 03, 2006

Mig langar til þess að koma á framfæri samúðaróskum til allra þeirra sem þekktu Lilju og allra þeirra sem vissu hver hún var.

Ég heyrði fyrst af Lilju sumarið 2004. Það sem mér var sagt um hana var að hún væri ung stelpa sem hefði greinst með krabbamein en væri ótrúlega lífsglöð, almennileg, hugrökk, kraftmikil, frábær og innileg.
Þegar útliti hennar var svo lýst fyrir mér í framhaldi af þessari frásögn kannaðist ég auðvitað við hana.
Hún var, fyrir mér, óendanlega fallega stelpan sem rakaði af sér hárið og mér fannst ótrúlega töff - mér fannst hún bara vera stílflott að raka af sér hárið, mér datt ekki í hug að hún væri veik - því hún leit alls ekki út fyrir það.
Vá, hvað Lilja var falleg.

Ég kynntist Lilju í gegnum Lísu, góðvinkonu mína - einfaldlega þannig að ég hitti stundum Lísu þegar Lilja var með henni og Lilja hitti stundum Lísu þegar ég var með Lísu. Samt, af einhverjum ástæðum, hafði ég aldrei talað beint við Lilju.

Eitthvert kvöldið á Café Amour hitti ég Lilju og hún heilsaði mér og talaði við mig. Ég hef sjaldan eða aldrei upplifað þvílíkan heiður. Eftir þetta áttum við í þöglu höfuðnikk- og brossambandi, köstuðum jafnvel eins og einu "hæ"-i hvor á aðra.

Mig hefur alltaf langað til að kynnast Lilju betur því ég hef aldrei vitað um aðra manneskju sem jafn vel var um talað. Gleðin sem hún dreifði langar leiðir, brosið sem lýsti upp herbergi þegar hún gekk inn í það, hugrekkið sem allir vissu af, jákvæðnin sem hún smitaði út frá sér, þakklætið sem fólk lærði af henni - þetta er allt ótrúlegt og allt hlutir sem fólk ætti að tileinka sér.

Þetta kennir mér að maður á að drífa sig í að gera hlutina sem mann lystir til vegna þess að hvað sem er getur gerst, hvenær sem er - lífið er ekki svo langt.

Lilja, þótt ég hafi aldrei þekkt þig mikið þá lít ég virkilega mikið upp til þín vegna allra þinna eiginleika.

Þú munt aldrei deyja í hjörtum Akureyringa - því ef það er einhver sem hefur haft áhrif á allar kynslóðir sem lifa á Akureyri á þessum tímum þá ert það þú.


Innilegar samúðaróskir til umheimsins vegna missisins. Þeim sem þekktu hana samhryggist ég vegna þess að þeir hafa hana ekki lengur hjá sér, þeim sem ekki fengu að hitta hana eða kynnast henni samhryggist ég vegna þess að þeir misstu af henni.

Engin ummæli:

 

© Stefanía 2008