mánudagur, janúar 29, 2007

Allir í fjölskyldunni minni, pabba megin, eru veikir! Meira að segja sú okkar sem býr ekki heima, Sunna.
Ég hef aldrei lent í öðru eins. Ég svaf ekki í nótt fyrir magaverkjum, bylti mér bara endalaust á milli þess sem ég vafraði hálfsofandi inn í drauma og ofskynjanir og velti fyrir mér hvers vegna í veröldinni mér væri ekki bara óglatt svo ég gæti ælt burtu verkjunum.
Á endanum fann ógleðin mig með örfárra sekúndna fyrirvara og ég stökk inn á klósett og ældi svona þremur lítrum af vökva. Feeling better, but not well.
Þá kemur pabbi til mín og spyr hvort ég hafi verið að æla, ég svara játandi, þá tilkynnir hann mér að allir á heimilinu séu í sama ástandi. Ótrúlegt.
Um morguninn heyrum við í Sunnu, þá kemur í ljós að hún svaf á klósettinu því hún ældi svo mikið. Kerlingaranginn. Hún er ein.
Við hér á Háteigsvegi höfum allavega hvert annað til vorkunnar og þjónustu. En það er enginn á Freyjugötu, nema Sunna og magaveikin.

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Roslega leið mér ömurlega á síðasta sunnudag þegar við horfðum fram á tap á móti Úkraínu. Ég faldi mig undir teppi og táraðist og gaf frá mér einhver undarleg hljóð sem gætu kallast ýl, eða eitthvað svoleiðis, og inná milli heyrðist "ég get ekki horft!" - þegar ég gægðist undan teppinu. Þegar úrslitin voru ljós þá urraði ég á sambýlinga mína restina af deginum. Ég fékk mér meira að segja pizzu. Og súkkulaði.

Á mánudagskvöldinu var ég orðin svo roooosalega hamingjusöm að ég vissi varla hvað ég héti. Vá! Sigurinn á Frökkum var dásamlegur. Við pabbi, Halldór Sörlu og meira að segja Júlía Sif sátum og hoppuðum og klöppuðum og veinuðum í kór. Þvílík hamingja. Þá fékk ég mér meira súkkulaði, til að fagna. Hoho.
Svo kom Túnis. Sigur! Ekki stórsigur, en sigur þó.
Pólland: taaaap! Glatað! Elsku kallarnir... Þeir misstu þetta niður maður. Vá, ég var svo hoppandi á síðustu mínútunni. Helvítis leikhlé og kjaftæði. Það heyrist oft eftir tapleiki, en að þessu sinni voru dómararnir ekki alveg með gleraugun á réttum stað held ég. Það vantaði aðeins uppá sanngirnina.

Á laugardaginn; Slóvenía. Ég vonast eftir og leyfi mér að spá sigri.
Þýskaland, ég veit ekki. Þeir eru auðvitað mjög öflugir og það mun ekkert heyrast af íslenskum hvatningarorðum, því þau verða kæfð af þeim þýsku. En það er spurning hvort við náum að púlla Frakkaleikinn á þetta. Ég veit að við getum unnið leikinn, það fer allt eftir því hvort Alfreð tekst að draga fram annað jafn öflugt heimatilbúið myndband. Haha, vá hvað mig langar að vita hvað var á myndbandinu.
Ef einhver veit hvað var á myndbandinu sem Alfreð sýndi landsliðinu þá má hann endilega deila því með mér.

Já, ég hef enn mikla von. Ég bíð bara spennt að sjá markatölurnar frá Frakklands-Slóveníu leiknum.

Lífið er ágætt. Ég er á fullu í skólanum. Hef það ágætt. Hnéð er enn að jafna sig, hægt og bítandi.

Mig langar að fara að komast á snjóbretti. Það má endilega einhver bjóða mér í brettaferð til Alpanna. Akureyri væri líka fín.

Nú styttist í að nokkrir Akureyringar láti sjá sig hérna fyrir sunnan eftir prófin í MA. Það verður gaman að hitta Anítu, Söru og fleiri, vænti ég.

Ársyfirlitið fer að koma, haha. Ég á bara smásmá eftir.

Kveð með mynd úr eighties partýinu sem haldið var hjá Rakel og Hildi í nóvember 2005. Awesome.




Bleeess.

föstudagur, janúar 05, 2007

Sæl og bless.

Ég er fötluð um þessar mundir. Ég datt í hálku á aðfaranótt nýársdags, beint á hnéð mitt góða sem fyrir rúmum tveimur árum var í gipsi vegna þess að ég fór út lið.
Ég var með fimmfalt hné, en núna er það bara svona eitt og hálft. En marbletturinn er ennþá á stærð við undirskál, ef ekki brauðdisk. Rosalega fallegur og skrautlegur á litinn. Ég er líka með tvö frekar stór sár, sem blæðir öðru hverju úr. Ég er sumsé á hækjum. Týpískt ég? Það held ég.
Fór uppá slysó 2. janúar vegna áhyggja pabba míns, þar var biðstofan full af fólki á öllum aldri sem hafði verið að detta í hálku. Ég beið í þrjá og hálfan tíma. Sjæse. Eftir að ég komst að þá tók bara við aðeins meiri bið. Samtals tók slysavarðsstofan fjóra og hálfan tíma af 2. janúar.
Það kom eiginlega ekkert út úr röntgenmyndatökunni. Beinin voru ósködduð. En það sem sést ekki á röntgenmynd og læknirinn hafði áhyggjur af var annars vegar það að það hefði blætt inn á liðinn, sem með hans orðum væri "verra". Þetta sagði hann með miður fallegan svip svo að "blæðing inn á liðinn" hljómaði mjög illa. Hins vegar gæti ég hafa slitið liðband eða skaddað liðþófann.
Það kemur í ljós eftir svona hálfa viku, ef ég verð ennþá aum og illa haldin þá, bendir allt til þess að liðband sé slitið eða liðþófinn skaddaður. Þá þarf ég að fara til bæklunarlæknis. Ég er svo töff.
Æðislegt. Þetta er stórkostleg byrjun á nýju ári.
En fall er fararheill.

Núna er ég að fara að byrja í skólanum aftur. Fer í stærðfræði 603 og 703 og sennilega þjóðhagfræði líka og kannski eins og einn eða tvo eðlisfræðiáfanga. Kannski samt bara einn. Æj ég veit ekki.

Ég er að vinna að yfirliti ársins 2006 í orðum og myndum. Viðburðarríkt ár fyrir minn árgang. Útskrift, tvítugsafmæli, ferðalög og fleira. Yfirlitið fer að birtast.

Ást, bless.
 

© Stefanía 2008