Ég sit við tölvuna með algebrubókina opna, les um Mod p Irreducibility Test og bíð eftir að klukkan detti í miðnætti svo ég megi fara á Feisbúkk. Alveg tryllt.
Er búin að eyða kvöldinu í að fylgjast með borgarafundi í Háskólabíó og sýna pabba sickanimation.com (guðdjókinn og knock knock). Honum fannst það ekki jafn fyndið og mér.
Þessi borgarafundur var eitthvað undarlegur. Mér finnst leiðinlegt að sjá hrokann í stjórnmálamönnunum, þeir líta á almúgann sem fáfróðan skríl, en almúginn finnst mér einmitt haga sér eins og fáfróður skríll þótt hann sé það ekki. Hann er bara reiður vegna framkomu ráðamanna þjóðarinnar og ræður ekki við skapið í sér.
Ég veit að ég yldi ekki álaginu sem er á umræddum stjórnmálamönnum um þessar mundir, ég væri löngu dottin í krónískt grátkast og myndi bara að reyna að baka til að gleðja. Þeir þurfa að sinna því hlutverki að upplýsa þjóðina á sama tíma og þeir þurfa að passa sig að segja ekki of mikið meðan á ákvarðanatökum stendur, því allir erlendir fjölmiðlar fylgjast nú með athöfnum íslensku ríkisstjórnarinnar.
Þeir hljóta líka að gera sér grein fyrir því að þeir hefðu getað gert fullt af hlutum öðruvísi með því að vera betur með á nótunum, en á sama tíma var svo erfitt að sjá þetta fyrir (enda gerði það enginn þótt nokkra óraði fyrir þessu). Það hlýtur að vera rosalega erfitt að finnast maður bera vott af ábyrgð á hruni þjóðar, og þeir hljóta að hafa a.m.k. keim af þeirri ábyrgðartilfinningu.
Ég skil að múgurinn sé reiður. Ég væri svo reið ef ég væri nú annað hvort gjaldþrota eða skuldsett það sem eftir væri ævi minnar, eftir að hafa tekið lán sem greiningardeild bankans míns ráðlagði mér hiklaust að taka. En mér finnst bara ekkert vit vera í beiðnum múgsins og eiginlega bara hálfsorglegt að sjá fólk hrópa aðfinnslur að ráðamönnum og segja þeim að víkja. Fólk heldur áfram að staðhæfa að kosningar séu það besta í stöðunni, án þess að rökstyðja það almennilega og taka til greina öll mótrökin við kosningum.
Það er svo erfitt að treysta þeim sömu og leyfðu hinum ýmsu viðvörunum framhjá sér að fara, til að stýra skipinu aftur á rétta leið. En ég sé ekki að það sé skárra að grípa til kosninga á milli stjórnmálaflokkanna sem eru í boði. Ég er þess vegna föst á milli þess að mótmæla og mótmæla mótmælum, ég get einhvern veginn hvorugt gert.
Ég skil bara ekki hvað er í gangi og mér finnst þetta ástand bara svo hræðilega ógnvekjandi. Hvernig fer þetta? Endar þetta með líkamlegu ofbeldi af hálfu æstra skuldara?
Tryllt myndband með. Thom Yorke í kafi í tæpa mínútu. Svo svalt. Hann er svo svalur.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Ég er svo hjartanlega sammála.. þetta er eins og ritað út úr mínu heilabúi Stefanía
Skrifa ummæli