Ég hef heyrt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að íslenskir fjármálajöfrar hafi fjárfest í skynsamlegri hlutum en margir aðrir fjármálajöfrar og að íslensku bankarnir hafi verið mjög vel reknir. Ekki þori ég að efast um það, enda er ég enginn viðskipta-, hag- eða annarskonar fræðingur.
En fer það á milli mála að Seðlabankinn hafi gert reginnmistök með því að afnema (eða minnka?) bindiskylduna og þar með leyfa gjaldeyrisforðanum að dragast svona langt aftur úr bankakerfinu að stærð? Því þrátt fyrir að fjárfestingarnar hafi verið góðar getur ekki verið sniðugt að vera með bankakerfi sem er margfalt stærra en þjóðarbúið. Eða á í alvöru að reyna segja okkur að engar líkur hafi verið taldar á hruni? (Þá hljóta líkindafræðingar að fá verk í hjartað). Þetta eru hagfræðingar að störfum, þeir vita hvernig fjárfestingar virka (eða eiga allavega að vita það). Þótt líkurnar á hruni hafi verið hverfandi, þá voru þær bersýnilega til staðar (sbr. að þetta gerðist í raun og veru).
Og ef einhverjar líkur eru á hruni þá hlýtur Seðlabankinn/ríkisstjórnin að þurfa að gera einhvers konar ráðstafanir - t.d. að hamla fjárfestingarvöxtinn og láta hann haldast aðeins meira í hendur við þjóðarhagvöxt (eins og Svisslendingar o.fl.); eða í stað þess að viðskiptabankarnir fengju að festa of stóran hluta fjár síns í góðum fjárfestingum hefði mátt skylda þá til að binda ákveðið (meira?) magn fjár í innlán til Seðlabankans, og búa þannig til ákveðið öryggisnet - sem er regla sem var afnumin!
Hér vil ég alls ekki firra fjárfestana ábyrgð. Þeir vita líka hvernig fjárfestingar virka (ef ekki betur?) og þeir áttu líka að sjá það sama og ég tala um hér að ofan (þ.e. að líkurnar hafi verið til staðar þótt þær hafi verið hverfandi). Mér finnst alltaf leiðinlegt að það þurfi virkilega lög til þess að aftra mönnum frá illa séðri hegðun, í þessu tilfelli lögin um bindiskyldu til að koma í veg fyrir auknar líkur á þjóðargjaldþroti. Ég geri mér grein fyrir að enginn sá kreppuna fyrir og hún herjar ekki aðeins á Íslendinga heldur heiminn allan, en eins og ég segi, þá hefði einfaldlega mátt fara varlegar í málið. Rísa hægar. Taka ábyrgð. Hætta að búa til peninga úr engum peningum. Ekki aðeins klífa hæstu hæðir og treysta á að reipið haldi, heldur hafa alltaf öryggisnet.
En það er auðvelt að vera vitur eftir á.
Ég skil bara ekki hvers vegna hvorki jöfrarnir né yfirvöld reyna að útskýra gjörðir sínar, með vitneskju og aðstöðu hvers tíma að leiðarljósi. Í stað þess einfaldlega að útskýra fyrir landanum á faglegan hátt hvers vegna hver ákvörðun var tekin og reyna þannig að fá almenning á sitt band, reyna þau að gera lítið úr rangri ákvarðanatöku sinni og almenningur verður bitrari og bitrari.
Það hlustar auðvitað enginn á endalausar afsakanir og ábyrgðarfirringu - fólk vill skýringar. Mér finnst við bara eiga þær skilið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli