fimmtudagur, desember 28, 2006

Jæja. Langt síðan. Alltof langt? Alltof margt.

Ég fékk tvær tíur. 2x10. Tuttugu. Það var gott.

Svo komu jólin og ég gaf nokkrar jólagjafir og fékk nokkrar. Borðaði hnetusteik sem ég framreiddi af sjálfsdáðum. Bakaði nokkrar súkkulaðibitakökur líka. Var veik. Vann hjá póstinum við pakkaútkeyrslu. Hitti mann búsettan í Noregi um þessar mundir. Hann er rauðhærður. Borðaði yfir mig fimm daga í röð. Sendi nokkur jólakort.
Allt gott og blessað.

Djamm annan í jólum eftir jólaboðið góða heima hjá ömmu Böddu. Það er classic. Alltaf annan í jólum. Árlegur hittingur afkomenda ömmu Böddu og afa Péturs. Eftir það var sumsé skemmtun niðrí bæ.
Fjandans bannsettir þjófar stálu jakkanum mínum sem var nýr! Í erminni á honum var klúturinn minn, sem var nýr líka (fékk hann í jólagjöf)! Og leðurhanskarnir mínir sem voru LÍKA nýir!
Vá! Svo ógeðslega pirrandi.
Mér finnst líka pirrandi þegar fólk segir já við einhverju sem það veit ekki hvað er. Fyrirgefið. Mér finnst það bara.

Skapið er ekki búið að vera alveg uppá sitt besta síðustu daga. Ég veit ekki alveg hvaðan það kemur. Þetta annars í jólum djamm fór bara ekki sem best. Miklar tilfinningar og svona. Gerði svolítið sem ég er ekki búin að gera í langan tíma og hefði sennilega betur látið ógert. En eftirsjá er til einskis og ekki ætla ég að standa í henni.

Var vakin daginn eftir með símtal um draum um símtal um miður fallegan hlut, glæsó. Það er hlutur sem mun aldrei gerast. Ég er of jákvæð fyrir svoleiðis. Þegar allt er glatað veit ég samt bara að allt mun lagast og eftir einhvern tíma verð ég orðin glöð og allt gott. Ég er bara tímabundið pirruð.
Það gengur svosem allt vel hjá mér. Ekkert amarlegt að fá tíurnar. Mjög gaman og góðar fréttir. Svo er ég náttúrulega alveg umkringd góðu fólki.
Stundum bara er gott fólk ekki nóg. Stundum fellur líka góða fólkið í skuggann af vondu fólki. Og góða fólkið fellur líka stundum í skuggann af eigin athöfnum.

Æji. Bla.

Partý um áramótin. Mega partý. Vonandi ekki downtown. Bara áramótakjóllinn minn sem ég get ekki beðið eftir að vera í. Vígja hann.
Fyrst Sunnubrautarfjölskyldupartý. Er ekki búin að vera þar um áramótin í þónokkurn tíma, það verður fínt. Eftir það verður það lífið. Vonandi ekki niðrí bæ, það er leiðinlegt niðrí bæ.
Eða hvað?

Allavega. Ást bara á línuna. Svona stærstan hluta línunnar.

Bless.

miðvikudagur, desember 13, 2006

I'm back from London, baby.

Það var alveg jafn gaman og ég vonaði, jafnvel vonum framar.

Ég sá Big Ben, London Eye, Buckingham Palace, ferðaðist í the Tube, verslaði, kynntist Bretum, borðaði breskan mat (samt ekki fish and chips, enda er ég með ofnæmi fyrir sjávarmeti), fór á breska skemmtistaði, talaði bresku, tók myndir af fólki sem býr í Bretlandi, fór í breska sturtu, drakk breskt kranavatn (sem var allt í lagi sko), sá breska heimilislausa menn, fékk viðreynslur frá breskum mönnum og svo margt fleira.

Ég skemmti mér svo rosalega konunglega.

Mætti þarna á fimmtudaginn alveg týnd vegna þess að ég gleymdi að fá mér svokallað Frelsi í útlöndum og gat því engan látið vita af mér. Sem betur fer var ég búin að fá lestarleiðbeiningar áður en ég fór frá Íslandi og endaði einhvern veginn á réttum stað (eftir að hafa villst á nokkrum stöðum).
Lísa tók á móti mér í lestarstöðinni í Croydon, sem er úthverfi London, í ysta svæðinu (zone 6). Þar býr hún, Hrefna og Anna. Það sem tók líka á móti mér var rosalega íslenskt haustveður; rok og rigning. Æði.
Um kvöldið var auðvitað bara djamm. Ég innbyrði eitthvað áfengi það kvöld sem olli örlitlum höfuðverk daginn eftir, og gerði svosem ekki margt á föstudaginn, fyrren djammið tók við aftur. Jebeibeh.

Puttin' some lipstick ooon á föstudagskvöldinu:




Og pigerne úti á lífinu:




Á laugardaginn verslaði ég helling fyrir ekki mikinn pening. Hef svosem alveg verslað meira, en gerði virkilega góð kaup, sem var mjög gaman.
Um kvöldið fórum við auðvitað aftur út á lífið, en í það skipti kom Aníta Hirlekar með okkur. Það var æðiii.
Svona mikill hressleiki:



Haha, Aníta á góðri stundu.


Sunnudagurinn fór svo í að túristast í London með Lísu. Þá skoðaði ég allt sem ég taldi upp efst og fór svo út að borða, voða kósí.
Við enduðum svo aftur í Croydon, á aðalstaðnum, Lloyds. Og sátum þar með hvítvínsflösku. Og fengum aðra. Og aðra. Ekki okkur að kenna.

Morguninn eftir vaknaði ég eftir heldur lítinn svefn. Pakkaði, fór útá lestarstöð og þar tók við þrír bilaðir hraðbankar og bilaðar miðasöluvélar og miðasölumaðurinn tók ekki við kortinu mínu.
Paniiiiik, takk fyrir pent. Allt sem ég var með voru tíu evrur. Þegar ég spurði hvort hann gæti tekið við evrum sagði hann "We're in London!" og horfði á mig eins og ég væri hálfviti.
Þá kom rauðhærður, krúttlegur Breti og bauðst til að borga fyrir mig miðann. Ég var geggjað ánægð og lét hann auðvitað fá evrurnar í staðinn.

Allt er gott sem endar vel. Ég komst á leiðarenda og náði fluginu mínu.

Ég er komin heim.

Takk fyrir mig, Lísa, Hrefna og Anna. Þið voruð good gestgyafes. Þrátt fyrir mörg vandræðaleg augnablik í verslunarmiðstöðum og á fleiri stöðum.
Þið fáið mig aftur í heimsókn :)

Bleeess.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Jæja. Prófunum lokið. Fæ ábyggilega ekki að vita neitt fyrren um 19. desember. Gaman að hanga í lausu lofti. My favorite feeling.

Fer til London á morgun. Vá, en ótrúlega spennandi. Ég hlakka til að gera ekki neitt nema hafa gaman í fjóra heila daga! Engin ábyrgð, bara skemmtun. Oh, svo næs sko. Gleði? Ég held það.

Ég er orðin mæspeis nörd. Ég verð að halda aftur af mér að kíkja ekki á mæspeis á hverjum degi. Þvílíkur tímaþjófur. Og allt sem maður er að gera er að njósna um líf annarra. Hvers vegna hver er að segja hvað og svona. Ótrúlegt. Svo er allt í einu liðinn klukkutími. Já, já. Svona er þetta.

Ferskar fréttir (sem eru svosem ekki ferskar en ég gleymdi bara að segja frá þeim):
Björk ætlar að kenna mér á fiðlu. Haha. Júlía Sif, litla átta ára systir mín, er líka að læra á fiðlu. Við verðum saman inní herbergi að spila falskan dúett. Og Halldór Sörli, tvíburabróðir hennar, verður í næsta herbergi að æfa sig á saxófóninn. Það verður stuð á mínu heimili. Lovin' it.

Mig langar til að vera fyrir norðan um áramótin.
Vill einhver hýsa mig? Mér finnst líklegt að ef einhver þekkir mig það mikið að hann er tilbúinn að hýsa mig þá veit hann annað hvort e-mailið hjá mér (sem er líka hérna til vinstri á síðunni) eða gsm-símanúmerið mitt, eða getur hreinlega kommentað hérna eða á mæspeisið mitt.
Þannig að I'm all yours, people. Just say the word.

Jæja, ég er farin að sækja London-flugmiðann minn. Næææs.

Bless.

mánudagur, desember 04, 2006

Crazy eyes.

Afmælið hans Palla var stemmari. Þetta var afmælisgjöfin mín til hans:



Þetta ásamt bók frá 1939 um uppruna flugvéla. Gaman að því. Fyrir óglögga get ég sagt frá því að hann er sumsé upprennandi flugmaður.
Í afmælinu var mikið glens og gaman. Ég fékk mér áfengi þónokkurt, jafnvel meira en góðu hófi gegnir miðað við aðstæður (stærðfræðipróf mánudaginn eftir). Ég fór allavega ekki niður í bæ, sem getur talist gott fyrir fólk eins og mig sem á erfiðara með að halda niðri hvötum sínum þegar það er í glasi (hvatirnar verandi að vilja fara niður í bæ).

Smá lærdómur á laugardaginn og um kvöldið fór ég að vinna.
Ég lenti í virkilega ágengum og óþægilegum viðskiptavini sem ákvað að þetta kvöld skyldi hann fá númerið hjá mér. Ekkert illa útlítandi strákur, ef hann hefði ekki verið útsprautaður af sterum, búinn að liggja í ljósum og dýfa hárinu á sér ofan í bleikiefni. En það sem gerði mig algerlega afhuga var hegðunin.

Einn, tveir og saga:
Þegar ég fór á borðið hans til að hreinsa diska, sem ég þurfti að gera þónokkrum sinnum þar sem þetta var þrírétta jólahlaðborð (nokkrar ferðir til að hreinsa forréttadiska, nokkrar til að hreinsa aðalréttadiska og örfáar til að hreinsa eftirrétta (þá eru allir orðnir svo saddir að þeir fara bara eina ferð)) þá starði óþarflega hann og brosti svona: "How you doin'..."-brosi. Haha.
Þegar líða tók á kvöldið og flestir búnir að innbyrða þónokkuð magn áfengis, þ.m.t. hann, þá greip hann í mig, togaði mig niður til sín og munnurinn hans nálgaðist óþægilega hratt og mikið þar til ég náði að bograst einhvern veginn undan hendinni hans.
Þar sem ég hörfaði þá ákvað hann að hann skyldi frekar prufa að nota aðra leið en beint í kossinn, og bað um númerið mitt, sem ég neitaði auðvitað að láta hann fá.
Eftir ítrekað suð þá heimskaðist ég til þess að játast með trega. Sagðist skyldu skrifa það niður, en hvarf svo bara og ákvað að forðast hann það sem eftir væri kvölds og hélt bara áfram salhreinsuninni.

Nei, nei, stekkur ekki strákstaulinn á fætur og eltir mig í átt að barnum á einni ferð minni um salinn. Þar ítrekaði hann bónina um símanúmerið sem ég þar með harðneitaði að láta hann fá, þrátt fyrir tilraun hans til að sannfæra mig um að hann væri mun skemmtilegri edrú. (Á þessu stigi var hann kominn með ákveðna kjálkahegðun sem ég hef einmitt séð hjá manni sem er mér mjög kunnugur þegar sá maður drekkur gríðarlegt magn áfengis, haha (you know who you are)).

Já. Skýr skilaboð? Ég held það.
But, no. Hann yfirgaf varla mikið meira en tveggja metra sjónlínu frá mér restina af kvöldinu. Sem var sem betur fer ekki langur tími reyndar.
Á þessu ferli spurði hann mig m.a. um nafn, sem ég tilkynnti honum ranglega að væri Jóhanna.
En toppurinn var samt þegar hann tilkynnti mér (stelpunni sem var að taka aðra vaktina sína í vinnunni) eftirfarandi:
"Ég var sko að vinna hérna einu sinni, ég veit alveg hver þú ert..." *blikk*

Kemur.

London eftir þrjá daga. Næææs.

Farin að læra fyrir stæææ. Bless.
 

© Stefanía 2008