miðvikudagur, apríl 12, 2006

Mér finnst eins og ég sé alltaf að blogga eða tala um staffadjamm. Það er líka svo mikið um þau á uppáhaldsvinnustaðnum mínum. Veij. Takk fyrir gærkvöldið, Buzz people.
Greifinn, krakkar, mæli með honum.

Ég fór í fjallið í dag. Færið var ömurlegt og það var fáránlega mikið rok - ég fór reyndar ekki fyrren klukkan fimm. Það var enginn snjór, þetta var bara klaki.

Brettaferð, þriðjudaginn 11. apríl 2006:
Ég byrjaði á því að detta á bossann og vegna klakans var það alveg pínu vont. Eftir það "kantaði" ég, eins og Hafdís mín (Greifayfirmaðurinn minn) vill kalla það; það er þegar hliðarkanturinn á snjóbrettinu rekst niður og maður svífur um stund, pompar svo nokkrum sinnum og endar með því að renna smá spöl. Við það fall fann ég ekki fyrir vinstra hnénu mínu fyrst um sinn. Haha, en steikt. Jæja.
Á þessu stigi máls var ég orðin svona smá óörugg og eiginlega bara pínu pirruð á brettinu mínu, færinu og sjálfri mér fyrir að standa mig ekki eins vel og daginn áður (kenni færinu algjörlega um þessi óhöpp).
Þá, skyndilega, einn, tveir og "kant" númer tvö - afturábak (kabarutfa)! Ég fékk tímabundið flughæfileika og flaug með bakið á undan niður brekkuna, pompaði í tíunda veldi með rassinn í klakann og fann bakið á mér braka upp allan hrygginn, lið fyrir lið, þar til einn hressilegur lokahnikkur kom á hálsliðinn. Á meðan og aðeins eftir að ég fann fyrir hverjum einasta hryggjarlið smella, rann ég og valt í smástund (þið gerið ykkur grein fyrir því að smá stund í tilfellum vandræðalegra misstiga og alvarlegra slysa er u.þ.b. 2-10 sekúndur - þessi smástund var t.d. svona tvær).
Ég endaði kylliflöt á maganum í miðri brekku.
Í ljósi þess að strákur sem ég þekki bakbrotnaði á snjósleða í gær (takið eftir því að núna er eftir miðnætti svo það var tæknilega séð í fyrradag - ekki það að það skipti neinu máli), fólk hefur slasast illa á snjóbretti, ég var orðin lemstruð eftir fyrstu tvö dettin (samkvæmt minni orðabók er krúttlegt að taka sagnorð og breyta því í nafnorð) sem ég lýsti og ég var orðin pirruð og hrædd um eigin líkama, lá ég grafkyrr áfram í brekkunni, hágrátandi því ég var svo hrædd um að ég væri bak- eða hálsbrotin og ef ég hreyfði mig gæti ég lamast eða dáið.

Gott, Stefanía. Ef Ómar hefði ekki komið og sannfært mig um að ég væri bara vænisjúk og það væri allt í lagi með mig, þá lægi ég ábyggilega ennþá uppí Hlíðarfjalli með frosin tár og ekka.

Mér líður ágætlega núna fyrir utan smá eymsli í hnjám og rófubeini og óbærilega stífan háls.

Ótrúlegt hvað hugarástand, áhyggjur og andleg líðan getur látið mann gera eða gera ekki (ég stóð t.d. ekki upp og hélt áfram að leika mér á bretti eins og ég hefði vel getað og átt að gera - haha).

En hvað það er gott að vera í páskafríi.

Engin ummæli:

 

© Stefanía 2008