miðvikudagur, janúar 06, 2010

Birtir til?

Skyndilega líst mér vel á komandi önn. Hún verður erfið en ég er bara tilbúin í að taka þátt í önninni. Í fyrsta skipti síðan ég byrjaði í Háskólanum ætla ég ekki að taka þátt í kosningabaráttu Röskvu; þar liggja margar ástæður að baki. Meðal ástæðna er að sjálfsögðu að árangur minn á vorönn hefur aldrei verið uppá marga fiska og jafnvel mætti segja fáa fiska, vegna þess að þær annir hef ég alltaf byrjað á kosningabaráttu fyrsta eina og hálfa mánuðinn. Það tekur sinn toll frá námi. Að þessu sinni er ég ekki í neinu öðru en skóla. Ég hræðist allt auka, enda forðast brennt barn eldinn.
Önnur ástæða fyrir stúdentapólitíkur-grænu-bólunum mínum er einfaldlega að ég hef misst trú á því að mannkynið geti tekið saman höndum og unnið saman að einhverju frábæru. Við erum svo hrokafull og gráðug að það hálfa væri meira en nóg fyrir fimmtíufalt mannkyn. Mig langar að taka þátt í samfélagi þar sem fólk tekur tillit til hvers annars og umhverfisins í kringum sig. Mig dreymir um að vera Neytiri í Avatar og ég hef engan áhuga á að taka þátt í samfélagi vestrænna þjóða þar sem gengið er út frá því að gróði verðmæta skipti gríðarlegu máli fyrir afkomu okkar.

Þrátt fyrir þessa skoðun og löngun get ég ekki barist fyrir breyttu viðhorfi í pólitík því ég hef enga trú á því að þvinga fólk til að gera það sem það hefur ekki trú á. Það er það sem vestrænar þjóðir gera við þá sem eru aðeins tengdari fólkinu og náttúrunni í kringum sig; reyna að þvinga þá til að fórna því sem þeir hafa trú á, fyrir verðmæti í jörðinni. Ég hef ekki trú á því að þvinga megi fólk til eins eða neins og vestrænar þjóðir munu alltaf innihalda fólk sem hugsar einvörðungu um sjálft sig.
Ef ég fæ einhvern tímann að lifa í litlu samfélagi manna sem eru vinir, þar sem goggunarröðin er virt (því hún verður sennilega að vera til staðar ef samfélagið á að þrífast (á samt eftir að velta því aðeins betur fyrir mér)), græðgi kemur ekki í veg fyrir samstarf og tengsl okkar við náttúruna eru nýtt - þá vil ég að það sé þannig að allir sem tilheyra samfélaginu séu tilbúnir að taka þátt í því, það gengur aldrei sé einhver tilneyddur.

En kannski verður alltaf einn Skari bróðir í hverju samfélagi.

þriðjudagur, janúar 05, 2010

Út vil ek.

Jólin eru að klárast. Prófin kláruðust og ég þurfti að sætta mig við einkunnir sem ég hefði viljað hafa hærri. Nú má segja að alltaf vilji maður meira en maður fær. Þá vil ég svara að mjög oft maður fái minna en maður á að fá (og á að sætta sig við). Almennt í lífinu. Auk þess held ég að það sé ekkert gott að sætta sig við að maður fái ekki alltaf það sem maður vill. Frekar að reyna að gera raunhæfar væntingar. Væntingarnar mínar um aðeins betri einkunnir voru ekki óraunhæfar. Sjö, áttafimm, níu og níu. Þetta hljómar betur en það er fyrir manneskju í minni aðstöðu. Kannski hljómar það ekki einu sinni vel.

Um áramótin tíðkast það hjá systrunum Ösp og Björk á Tjörn í Svarfaðardal að rétt fyrir miðnætti öskra þær burt allan pirring og allt hið slæma í lífinu sínu og skilja það eftir á árinu sem er að líða það sinnið, svo taka þær pirringslausar á móti nýja árinu.
Áramótunum sem voru að líða, áramótunum níu-tíu, eyddi ég hjá Ösp á Tjörn og Björk í Jarðbrú (sem er ekki sama Björkin og Björk á Tjörn, systir Aspar) og rétt fyrir miðnætti öskraði ég burt pirringinn með systrunum á Tjörn. Hann (pirringurinn) fól í sér hitt kynið og einkunnir. Ég var hins vegar nokkuð óundirbúin þegar að stundinni kom og held ég hafi ekki náð að fjarlægja allan pirringinn.

Ég reyni því að klára þetta hér með því að gera tilraun til að færa pirringinn frá mér yfir á veraldarvefinn:
Megi mér takast að losna við allt angur sökum einkunna/skólagengis og hins kynsins.

Þrátt fyrir fullyrðingar fyrstu greinaskila þessa fannáls ætla ég að láta Mick og félaga eiga síðasta orðs hans (fannálsins).

 

© Stefanía 2008