Fjárframlög til háskóla úr ríkissjóði eru um milljón á nemanda fyrir hvern þann sem þreytir próf í lok annar (hvort sem hann nær þeim eður ei) – óháð því hvort nemandinn sækir ríkisrekinn eða einkarekinn skóla (skólagjaldaskóla).
Auk skólagjaldanna og ofangreindra fjárframlaga frá ríkinu mega einkareknir skólar taka við styrkjum til rannsókna frá fyrirtækjum. (Þetta getur haft áhrif niðurstöður rannsókna; rannsakendur eru háðir fyrirtækjum og þora ekki að stugga við þeim af hræðslu við að missa styrki). Einkareknir skólar hafa því meira fé á milli handanna sem þeir geta eytt í betri aðstöðu, betri kennara, rannsóknir o.s.frv. Þetta fyrirkomulag skekkir ljóslega samkeppnishæfni Háskóla Íslands því þeir sem hafa efni til geta sótt betri menntun (ég hef fyrirvara á
betri enn sem komið er) fyrir aðeins meiri pening.
Þökk sé velferðarkerfi Íslendinga (mikill fjöldi framhaldsskólagenginna) – og kannski góðærinu, sem nú er liðið – getur þó nánast hver sem er numið við skólagjaldaskólana þar sem skólagjöldin eru lánshæf hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Margir nota einmitt þessi rök gegn því að einkareknir skólar séu fyrir þá sem hafa efni til. Þetta er að vissu leyti rétt, en að fá lánað fyrir skólagjöldunum eykur á skuldabyrði nemenda eftir nám svo ég held það sé engin tilviljun að fög sem kennd eru við skólagjaldaskóla eru almennt fög sem koma fólki í ágætlega launuð störf svo þeir sem þurfa að greiða skólagjöld hafa efni á að niðurgreiða námslánin að námi loknu.
Hins vegar eru fög sem skila fólki í störf sem ekki gefa jafn mikið fé af sér, svo sem leikskólakennarafræði, hjúkrunarfræði, félagsfræði, heimspeki, trúarbragðafræði, o.fl., einungis kennd í ríkisháskóla Íslendinga, Háskóla Íslands. Segi mér enginn að leikskólakennarar og hjúkrunarfræðingar hafi minna mikilvægi fyrir samfélagið en tölvunarfræðingar. Að loknu námi í þessum fögum er aðeins erfiðara að niðurgreiða námslánin þar sem þessi menntun skilar fólki oft ekki í sérlega vel launuð störf. Þessi tegund faga ræki sig því sennilega ekki í skólagjaldaskólum – nema að sjálfsögðu á meðal þeirra sem hafa efni á að vippa fram nokkur hundruð þúsund krónum á önn og þurfa ekki á námslánum að halda.
Er þá niðurstaðan sú að það er allt í lagi að ríkissjóður leggi jafn mikið fé í einkarekna skóla og þá ríkisreknu svo lengi sem þeir einkareknu kenna aðeins fög sem gefa vel af sér fjárhagslega?
Þegar ég nefndi þetta við Alþingismann Sjálfstæðisflokksins var mér svarað með spurningunni: Hvaða réttlæti er fólgið í því að einn fái meiri pening úr ríkissjóði en annar, bara vegna þess að hann kaus einn skóla fram yfir annan?
Ég svaraði því þá og svara því núna þannig að allir hafa valið um að fara í ríkisháskóla Íslendinga eða einkarekinn skóla – eins og áður kom fram eru öll fög kennd við HÍ, en einungis þau sem gefa vel af sér kennd við þá einkareknu. Það er því ekkert óréttlæti fólgið í því að kjósi einhver að fara í einkarekinn skóla og borga fyrir það, fái hann minni pening frá ríkinu. Hann hefur val. Sama val og sá sem kýs að fara út að borða í hádeginu fyrir fimmtán hundruð krónur í stað þess að nýta sér niðurgreiddan mat vinnustaðarsamfélags síns – sá getur ekki gert kröfu á vinnustaðinn sinn um að niðurgreiða dýra hádegismatinn sinn. Eða hvað?
Vissulega hlýtur að vera ákveðin hvatning til framfara og gæða að hafa samkeppni – en samkeppnin verður að vera réttlát. Eins og fyrirkomulaginu er háttað núna eru einkareknir skólar samkeppnishæfari en ríkisreknir skólar og hafa meira fé til að efla nám skólans – en hafa þrátt fyrir það nákvæmlega sama öryggisnet og Háskóli Íslands! HÍ er fjársveltur og hefur verið það lengi, þessi samkeppnisskekkja skapar ákveðinn ójöfnuð m.a. á meðal þeirra sem vilja sinna störfum í heilbrigðis- og velferðarkerfinu okkar.
Er það ekki auk þess á skjön við hugtakið einkarekstur að einkarekin fyrirtæki hafi sama öryggisnet og þau ríkisreknu? Er það réttlát samkeppni í samræmi við frjálshyggju? Þarf ekki skólinn af sjálfsdáðum að gera sig það eftirsóknarverðan að það sé þess virði að greiða háar fjárhæðir til þess eins að fá menntun þaðan? Á stofnun sem eykur ójöfnuð meðal samfélagsmeðlima að hafa til þess sama öryggisnet og sú sem minnkar ójöfnuð?
Gefum okkur þó að þessi niðurstaða sé röng og eðlilegt sé að sérhver nemandi í háskóla fái jafn há fjárframlög frá ríkinu, sama hvort skólinn sem hann stundar nám við rukki inn skólagjöld (sé einkarekinn) eður ei (sé ríkisrekinn).
Nú er ástæða þess að hagstætt er fyrir námsmenn að taka námslán hjá LÍN sú að hjá LÍN eru lægri vextir en annars staðar. Niðurgreiðslan á þessum vöxtum kemur að sjálfsögðu úr ríkissjóði Íslands. Nemendur sem fá lánað hjá LÍN fyrir skólagjöldum sínum við HR, Bifröst eða aðra einkarekna háskóla, fá því, auk fjárframlaga úr ríkissjóði fyrir það eitt að þreyta próf við skólann sinn, niðurgreiðslu vaxta á lánum fyrir skólagjöldum.
Til að summera þetta upp: Nemandi í HR sem fær lánað hjá LÍN fyrir skólagjöldunum sínum fær á endanum meiri pening úr ríkissjóði heldur en nemandi í HÍ!
Ef ekki næst samstaða um þá niðurstöðu að það sé ekkert misrétti falið í því að ríkið eyði minni pening í nemanda sem kýs að fara í einkarekinn skóla (en hefur val um að gera það ekki) – þá hlýtur að nást samstaða um að misrétti sé falið í því að ríkið eyði
meiri pening í þennan nemanda.
Enginn sem ég hef talað við hefur getað svarað mér þessari spurningu:
Af hverju eru fjárframlög til einkarekinna háskóla ekki minnkuð um a.m.k.
það sem samsvarar útgjöldum ríkissjóðs í niðurgreiðslu vaxta á námslánum fyrir skólagjöldum?Ég óska eftir svörum, frá hverjum þeim sem þau hafa.