laugardagur, nóvember 29, 2008

Varúð, kvartfannáll

Þetta er búinn að vera hræðilegur rúmur sólarhringur, að nokkrum góðum atriðum frátöldum. En fyrir einmitt tuttuguogátta tímum síðan (klukkan fjögur á föstudeginum) gekk ég út úr dæmatíma í Tvinnfallagreiningu og sá ekkert annað fyrir mér en allan lærdóminn sem ég á eftir að sinna þar til 18. desember er liðinn - en við mér tóku helvítis verkfræðingar sem voru á leiðinni í vísindaferð!
"Hvurs lags hneisa er það að fara á ábyrgðarlaust frítt fyllerí korteri fyrir próf? Hvort segir þetta meira um vinnuálag í náminu þeirra eða forgangsröðun þeirra?" hugsaði ég.
Afbrýðisama ég varð afspyrnu reið vegna þessa (óþarflega mikið augljóslega - tvinnfódæmatíminn var líka erfiður) og lét það bitna á öllum í kringum mig. (Ég var einmitt að renna yfir gamlar færslur um daginn og las þar eigin frásögn af því hversu illa mér tekst að láta eigin reiði ekki bitna á öðrum þegar hún er til staðar - það er ennþá vandamál).

Mig langar að vera að tryllast úr gleði og skemmtun og sleik en ekki læra alla klukkutíma. Og þetta bölvaða endalausa drall sem hleðst upp virkar ekki sem hvatning til að sinna því, heldur er því öfugt farið; mér fallast hendur.


Mmm allavega, þetta angraði mig mikið, þannig að þegar kom að kvöldmatartíma tók ég boði Fána Jök og eldaði með honum grænmólasagne (eina sem ég borða þessa dagana virðist vera - fyrir utan ís og popp auðvitað).
Eftir lasagne fór ég heim í faðm pabba og var buguð fram að svefntíma - og horfði á fyrrnefndan (alts°a (pirrandi að bollan fari aldrei yfir a-ið í Linux) í síðustu færslu) 30 Rock þátt og endinn (er það ekki endir/um endi/frá endi/til endis og endi/um enda/frá enda/til enda?) á Kops.


Verður betra:
Í morgun vaknaði ég með flensukeim sem pabbi hefur smitað mig af, svo lesturinn fyrir heimspekiverkefnið sem ég ætlaði að vippa fram áður en ég færi í laufabrauðsgerð í faðmi fjölskyldunnar, tók sirkabát þrefaldan þann tíma sem hann hefði gert án flensukeims - og ég er ekki enn búin með þetta verkefni - það verður verkefni kvöldsins.

Þegar ég ákvað að skella mér af stað út á Álftanes að verkefninu óloknu fór bíllinn ekki í gang. M, gaman. Ég reyndi að hringja og redda og hringja og redda, en það reddaðist ekki. Þá ýtti ég honum af stað, ein (það var hlohl), hoppaði svo undir stýri (líka hlohl), en fattaði þegar hann var kominn á fulla ferð niður brekkuna í Úthlíð að það er auðvitað ekki hægt að ýta sjálfskiptum bílum í gang, þeir þurfa að vera í park til þess að þeir fari í gang. Tryllt.

Mér tókst þá með erfiðismunum að smeygja honum inn í langsum stæði, þótt litlu munaði að ég klessti á bílinn fyrir framan - þar sem stýri og bremsur á bílum sem eru ekki í gangi eru mjög stíf.
Þar sat ég pirruð og leið og buguð og hringdi fleiri reynaðredda-símtöl, þar til pabbi góði kom heim og lánaði mér bílinn sinn, svo ég komst að gera laufabrauð. Það var awesome, skar út S fyrir mig og Ó fyrir pabba.

Sökum þess að ég var sein í laufabrauðsgerð (fyrst um þremur tímum vegna verkefnisins, svo um einum og hálfum tíma vegna bílavesens) dvaldist ég lengur við á Álftanesi en áætlað var og var komin í Kennó (Menntavísindasvið HÍ) - til að fara á tónleika í boði Aspar - klukkan sjö, í stað segs. Þar tók Ösp við mér og sagði:
"Ég vaar að klára..."

Ég hélt ég færi að gráta - en ég gerði það ekki af því að ég er svo hörð. Í staðinn skemmti ég mér yfir atriðunum sem eftir voru, kom svo heim og kláraði þessa bitru, bitru færslu sem ég byrjaði á í dag á meðan ég beið eftir að pabbi kæmi heim með bílinn.

Hugljúf og hressandi saga.

---

Aftur kom sjúklega löng færsla. Þú ert hetja ef þú last í gegn. Og enn meiri hetja ef þú last (eða lest núna) líka færsluna fyrir neðan. Hetja.


Hann er líka hetjan mín:



Gaman að sjá hann syngja og stjórna á sama tíma - fyrir utan hversu fáránlega fallega hann syngur.

-Stef.


*Eftiráinnskot*
Þrátt fyrir fáró leiðinlegan dag ákvað ég að reyna að gera heiminn að betri stað og tók upp í bílinn tvo íslenska táningsdrengi á leiðinni af Álftanesinu. Þeir voru illa klæddir í nístingskulda að reyna að komast í Hafnarfjörð svo ég keyrði þá auðvitað áleiðis, alveg svona tíu mínútna (er ég að ýkja?) akstur á áttatíu kílómetra hraða - fullt af ísköldu labbi sem þeir sluppu við.
Ég sagði þeim að pay it forward - vonandi gera þeir það.
Karma, krakkar.
*innskotilokið*

Tina Fey

Búin að vera geggjað dugleg að horfa á 30 Rock og borða pappír (nei, en Jenna gerir það til að megra sig - ég borða bara súkkulaði og popp og ís og grænmetislasagna og salad (þarattlæ ég er búin að ræða þetta áður, það er allt í lagi að borða sjúklega mikið í prófatíð)).

Ég virði svo Tinu (já ég ætla að fallbeygja bandaríska nafnið "Tina" sem það væri íslenskt - ég kýs að gera það) Fey. 30 Rock eru ridikk (ætla líka að leyfa mér að skrifa ridikk) fyndnir þættir og Tina er deffó (kúl) búin að ryðja einhvers konar braut - ég á bara eftir að átta mig á því hvaða braut það er nákvæmlega. Hún virðist vera svo venjuleg (af því ég trúi því að allir séu í raunveruleikanum eins og þeir virðast vera þegar þeir leika skáldaða persónu í gamanþætti (reyndar er þessi byggð á henni sjálfri, held ég)) en samt svo fyndin! Og falleg en samt ekki gervifalleg eins og svo margar frægar leikkonur þurfa að vera til að komast áfram, því konur eru oft ekki jafn fyndnar og karlar (eða húmorljós þeirra nær a.m.k. oft ekki að skína, ef það er einhvers staðar falið), þess vegna þurfa þær að vera fallegar í staðinn, svo einhver nenni að horfa á þær.


Ég var að velta þessu fyrir mér um daginn og er komin með hálfkákskenningu sem er ekki fullgerð, og ekki heldur rökheld (eins og fokheld eða vatnsheld, nema rök). Áður en ég fer með kenninguna er ágætt að taka fram að þegar ég tala um konur og karla á ég við einhvers konar staðalímynd þeirra.

Það hefur verið minna um kvenkyns gamanþátta- og -myndahöfunda í gegnum tíðina, a.m.k. fyndna slíka. Konur hafa meira verið í að skrifa ástar- og dramaskáldsögur, og ekkert svo mikið í að vera fyndnar. Konur hafa á sér mjúka stimpilinn og karlar hafa á sér harða stimpilinn, þ.a. dramamyndir og -þættir eru stílaðar á konur, en hörkumyndirnar og -þættirnir eru stílaðar á karla. Undir hörkuflokkinn fellur svartur húmor, sér í lagi kaldhæðni og fönníbíkösittstrú-húmor, svo þar sem karlar tengja betur við karla en konur (og konur tengja betur við konur en karla), hafa karlar aðallega staðið í skriftum slíkra þátta, og konur ekki svo mikið.
Þessi tegund húmors virðist stefna í að verða ráðandi (kannski er það bara í mínu umhverfi - en ég held það sé ekki þannig (án þess í alvöru að vera viss)) og er ekki lengur húmor sem er mun meira stílaður á karla en konur. Hins vegar eru karlar ennþá ráðandi á markaði handritshöfunda af þessu tagi og virkilega fáar (sem ég veit um a.m.k.) konur sem ráðast á þennan garðinn (til þæginda skulum við kalla þær konur Tinur - og köllum karlana Tona).
Tilgáta1: Ekki er til jafn mikið magn af Tinum og til er af Tonum.

Almennt, þegar framboð er lítið er eðlilegt að hámarksgæði finnist ekki í jafn miklu magni og þegar framboð er mikið (fákeppni)(hlutfalls-/höfðatölupæling, eruðimeð?). Svo þar sem til er meira af Tonum en Tinum má draga eftirfarandi ályktun:
Tilgáta2: Ekki er til jafn mikið magn af fyndnum Tinum og fyndnum Tonum.

Ef við gerum ráð fyrir að tilgáturnar séu sannar, má segja það eðlilegt að það sé erfiðara fyrir fyndnar Tinur að verða í hávegum hafðar heldur en fyndna Tona, því samkvæmt tölfræði/líkindafræði er líklegra að þáttur sem sjónvarpsstöð kaupir slái í gegn sem gamanþáttur ef höfundur hans er Toni - svo líklegra er að sjónvarpsstöð kaupi þátt eftir Tona en Tinu (einföld bestun, krakkar). Þá (þegar þátturinn hans hefur verið keyptur) er auðvitað líklegra að Toninn slái í gegn heldur en Tinan.
Tilgáta3: Gamanþáttur sem við fílum er líklegri til að vera eftir Tona en Tinu

Vegna tilgátnanna þriggja held ég að konur séu hræddari við að athuga hvort þær geti orðið fyndnar Tinur heldur en karlar við að ath. hvort þeir geti orðið fyndnir Tonar (sem meikar samt ekki sens ef það er rétt hjá mér að fyndnu Tinurnar séu bara færri, en ekki hlutfallslega færri); maður vill ekki verða Tina/Toni nema maður geti orðið fyndin/n Tina/Toni, því ef maður er Tina/Toni án þess að vera fyndin/n, sinnir maður eiginverki sínu sem Tina/Toni ekki vel, og er eiginlega bara misheppnuð/aður Tina/Toni.
Tilgáta4: Konur þora síður að fara út í Tinu-bransann en karlar að fara út í Tona-bransann.
(Og það af órökréttri ástæðu).

Nú kemur órökstuddur partur, sem er eins og stendur bara óskhyggja:
Ég held að það séu fullt af mögulegum fyndnum Tinum til, sem eru ekki orðnar Tinur vegna þess að þær treysta sér ekki í erfiðari leiðina að garðinum. Það sem ég er að reyna að segja er að vegna staðalímynda held ég að konur þurfi að fara erfiðari leið að garði gamanþáttaritunar en karlar. Ég held á sama tíma að Tina Fey hafi rutt leiðina mjög mikið.

En svo gagnrýna konur konur mest, svo þær eru alltaf sín eigin fyrirstaða. Ef einhverjir munu koma í veg fyrir ruðning kvennaleiðarinnar inn í garðinn þá eru það konur, sem vilja ekki gefa öðrum konum of mikið kredit.

Is it?

Svo getur auðvitað vel verið að konur séu einfaldlega ekki jafn fyndnar og karlar, en þá er Tina Fey bara einstaklega svöl (sjúklega vel heppnuð einstök Tina) og dýrkun mín á henni ekki óréttmæt.


Aftur að Tinu Fey; hún er geðveikt oft "sjúskuð" (ég setti gæsalappir því hún er náttúrulega aldrei sjúskuð, hún er auðvitað alltaf búin að fara í gegnum mega meiksessjón, en er stundum gerð sjúskuð þar) og alltaf borðandi (eins og ég) (lýsingarháttur nútíðar, næs), fáró fyndin - og virðist vera svo venjuleg kona, en ekki einhver ofurkona. Hún er eiginlega bara nýja ædolið mitt.

Jack Donaghy hlægir mig (eins og grætir mig, nema andstæðan) einna mest:




Næsta mynd sem ég sé (fyrir utan þær sem RÚV eða aðrir mata mig af) verður Mama Baby. Þessi titill hljómar svo hræðilega, og ég veit ekki alveg með söguþráðinn - ég reyni að lesa sem minnst af aftanáspóluhulsturstextum því þeir gefa alltaf aðaltwistið í myndinni upp - en ég er að spá í að treysta á Tinu. Ég reyni frekar að velja myndir eftir leikstjórum, handritshöfundum, leikurum eða umsögnum. Stundum er það samt ekki í boði, og þá vel ég eftir aftanáspóluhulsturstextum.


Vá svo langur fannáll. Varstu hetja og komst í gegn?


Eitt loka:
Ég sá mesta hlohl-kvikmyndaatriði sem ég hef á ævi minni í kvöld (kannski var ég með svefn-/lærdómsgalsa) - í sænsku kvikmyndinni Kops. Watch it. Síríusslí; skylduáhorf! (Ég sá reyndar bara endann á myndinni og á því sjálf eftir að uppfylla skylduna, en ég ætla að gera það!)

Attlæ farin að sofa, laufabrauðsgerð á morgun.
Góða nótt.

fimmtudagur, nóvember 27, 2008

Að vanda

...tók bloggið mitt breytingum við upphaf prófatíðar. Að því tilefni:




Að þessu sinni lét ég undan þrýstingi blogger.com og tók upp template frá því stórveldi, í stað þess að sjá um allar breytingar sjálf á formi hátéemmell-kóða. Hið síðarnefnda er gaman, en ég var löt. Þar að auki eru svo margir möguleikar í boði ef maður notast við þeirra template, sem ekki eru í boði ef ég nota minn eigin, nema ég færi út í forritun sem ég nenni ekki að læra. Núna get ég t.d. sett fyrirsagnir á færslurnar - en það var ekki í boði þegar ég byrjaði að blogga - fyrir segs árum! Það eru virkilega níu dagar í segs ára bloggafmæli!
Fyrir utan fyrirsagnirnar, sjást nú líka gamlar færslur, en þær hurfu af einhverjum ástæðum í eitt skiptið þegar ég breytti hátéemmell-kóðanum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að ná þeim aftur. Þær eru nefnilega sögulegt fyrirbæri - dramatísk þroskasaga tánings.

Innskot: Ég gleymdi að segja frá stærstu breytingunni: Ég lagði niður Haloscan og tók um blogger kommentkerfi! Tryllt. Innskoti lokið.

Ég veit ekki hvort þá færslu má ennþá finna á meðal þessara færslna eða hvort ég eyddi henni, en eitt sinn skrifaði ég færslu um hversu reið og sár ég væri út í pabba og að hann væri frekur (tánings-syndrome). Það var í þá daga þegar ég gerði mér ekki grein fyrir áhrifamætti internetsins - auðvitað fann pabbi færsluna og varð reiður, og ég varð sár, og hann varð sár, og ég sagði fyrirgefðu og svo urðum við vinir aftur og ég endaði með að flytja til hans. En svo strauk ég að heiman og fór á Airwaves. En kom heim viku síðar. Svo flutti ég að heiman og varð stór stelpa. En svo saknaði ég pabba og flutti aftur til hans. Hann sagði mér að ég ætti ekki að vera í Röskvu, ég ætti að vera í Vöku, og hætta þessari vitleysu sem það er að borða ekki dýr. Svo fluttum við að heiman saman og þar lét hann undan og eldaði handa mér grænmetislasagna.

Hættið nú í verkfalli.
Neibb, ekki farin að sofa. Ég kenni Salvöru um, hún minnti mig á að tíminn félli niður í fyrramálið. Ég ætlaði nú samt að vakna snemma og henda mér í stærðfræðigreininguþrjúa. Er búin að vakna fyrir níu tvo daga í röð núna, það væri ljúft að ná þeim þriðja!

Fól er vanmetið orð. Af hverju er ekki meira af því?


Kollegi minn (sófistikeitid), fannálarinn (nýyrðasinni) Olga, tjáði sig um sleikþörf sambandsnýgræðinga um daginn og hversu bitur hún liti út fyrir að vera þegar hún gengi framhjá sleiknum vandræðaleg og reyndi að horfa í aðra átt. Ég fann ekki samkenndina þegar ég las fannálinn, en ég finn hana núna. Það er komið sleikpar í vafferrtvo. Fyrst sá ég þau lappast (flækja löppum saman undir borði) við borð fyrir utan bókasafnið. Næst sá ég þau standa andspænis hvort öðru hvíslandi sín á milli inná bókasafni og sleikþörfin skein í gegn til næstu sólkerfa. Þriðja atvikið var þegar hún sat við borð inni á bókasafni og hann stóð yfir henni og virtist vera að aðstoða hana með eitthvað í náminu, á meðan hún strauk á honum rassinn blíðlega. Nú og síðast blöstu þau að sjálfsögðu við mér kannandi góm hvors annars, þegar ég gekk út af bókasafninu í lok semíolnætermaraþons, blygðunarlaust, parið, og það á tuttugustogfyrstuöldinni, tíma gervigreindar og internetásta. Hvað á þetta að fyrirstilla?


Sweet:

mánudagur, nóvember 24, 2008

Ég sit við tölvuna með algebrubókina opna, les um Mod p Irreducibility Test og bíð eftir að klukkan detti í miðnætti svo ég megi fara á Feisbúkk. Alveg tryllt.

Er búin að eyða kvöldinu í að fylgjast með borgarafundi í Háskólabíó og sýna pabba sickanimation.com (guðdjókinn og knock knock). Honum fannst það ekki jafn fyndið og mér.

Þessi borgarafundur var eitthvað undarlegur. Mér finnst leiðinlegt að sjá hrokann í stjórnmálamönnunum, þeir líta á almúgann sem fáfróðan skríl, en almúginn finnst mér einmitt haga sér eins og fáfróður skríll þótt hann sé það ekki. Hann er bara reiður vegna framkomu ráðamanna þjóðarinnar og ræður ekki við skapið í sér.
Ég veit að ég yldi ekki álaginu sem er á umræddum stjórnmálamönnum um þessar mundir, ég væri löngu dottin í krónískt grátkast og myndi bara að reyna að baka til að gleðja. Þeir þurfa að sinna því hlutverki að upplýsa þjóðina á sama tíma og þeir þurfa að passa sig að segja ekki of mikið meðan á ákvarðanatökum stendur, því allir erlendir fjölmiðlar fylgjast nú með athöfnum íslensku ríkisstjórnarinnar.
Þeir hljóta líka að gera sér grein fyrir því að þeir hefðu getað gert fullt af hlutum öðruvísi með því að vera betur með á nótunum, en á sama tíma var svo erfitt að sjá þetta fyrir (enda gerði það enginn þótt nokkra óraði fyrir þessu). Það hlýtur að vera rosalega erfitt að finnast maður bera vott af ábyrgð á hruni þjóðar, og þeir hljóta að hafa a.m.k. keim af þeirri ábyrgðartilfinningu.
Ég skil að múgurinn sé reiður. Ég væri svo reið ef ég væri nú annað hvort gjaldþrota eða skuldsett það sem eftir væri ævi minnar, eftir að hafa tekið lán sem greiningardeild bankans míns ráðlagði mér hiklaust að taka. En mér finnst bara ekkert vit vera í beiðnum múgsins og eiginlega bara hálfsorglegt að sjá fólk hrópa aðfinnslur að ráðamönnum og segja þeim að víkja. Fólk heldur áfram að staðhæfa að kosningar séu það besta í stöðunni, án þess að rökstyðja það almennilega og taka til greina öll mótrökin við kosningum.
Það er svo erfitt að treysta þeim sömu og leyfðu hinum ýmsu viðvörunum framhjá sér að fara, til að stýra skipinu aftur á rétta leið. En ég sé ekki að það sé skárra að grípa til kosninga á milli stjórnmálaflokkanna sem eru í boði. Ég er þess vegna föst á milli þess að mótmæla og mótmæla mótmælum, ég get einhvern veginn hvorugt gert.

Ég skil bara ekki hvað er í gangi og mér finnst þetta ástand bara svo hræðilega ógnvekjandi. Hvernig fer þetta? Endar þetta með líkamlegu ofbeldi af hálfu æstra skuldara?


Tryllt myndband með. Thom Yorke í kafi í tæpa mínútu. Svo svalt. Hann er svo svalur.

Sjitt, ég braut feisbúkkbannið mitt. Það var samt óvart og það munaði bara 12 mínútum. Algert slys.

Jólakortagerð er lokið.
Stærðfræðigreiningu IIIa enn og aftur ólokið á aðfaranótt skiladags, staðsetning: vafferrtveir. Svo gaman.
Vafferrtveir mun alltaf eiga stað í hjarta mínu sem mitt annað heimili.
Rifna og skítuga ullarteppið á bókó.
Maðurinn sem gistir þar.
Orkusparandi perurnar á salernunum.
Töflurnar í miðjunni á hverri stofu sem má augljóslega ekki tússa á en ótakmarkað margir virðast samt ekki fatta og skrifa á þær.
Lásakerfið sem virkar ekki alltaf.
Ljósið sem byrjar reglulega að suða þar til maður slekkur á því og kveikir aftur.
Appelsínuguli stóllinn.
Tímaritin sem eru til í tonnatali (ýkjur) en enginn les.
Skítugu borðin.
Yddarinn sem sökhar.
Og svo framvegis.

Back to work.

Fallegt með:

laugardagur, nóvember 22, 2008



Mér finnst þetta bara svo fallegt lag í kórútsetningu. Er það ekki opinbera útsetningin? Eitt eilífðar smáblóm á mínútu 1:11 gefur mér gæsahúð, flott hvernig kvennaraddirnar koma inn í karlaraddirnar. Hvað þá þegar raddirnar endurtaka textann sameinaðar á mínútu 1:56 og allt tryllist með (bassa?)trommum og svo symbli(?). Ég veit ekki hvað þessar trommur heita, haha. En þetterallavegatryllt. Ég veit ekki hvort guð á hér að vera mótmælendaguðinn eða bara einhver æðri vera. Ég kann ekki textann í íslenska þjóðsöngnum. Ég kann eiginlega enga texta, bara lög. Enda finnst mér lagið oftast mikilvægara en textinn.

Ég er núna búin að eyða fullt af tíma dagsins í að grúska, heima hjá mér og á netinu. Merkilegt hvað allt verður áhugavert (meira að segja trommur) þegar prófatíðatörnin hefst. Það eru átján dagar í prófin mín. Átján dagar líða mjög hratt.
Í kvöld ætla ég að gera jólakort. Ég veit ekki hversu mikið af fólkinu sem gefur mér jólagjafir les bloggið, en ég er búin að biðja um það áður og ítreka það hér með:

Ég vil ekki jólagjafir. Ég vil ást og samveru. Í mesta lagi jólakort eða eitthvað heimatilbúið.

Mig vantar ekkert. Ef mig vantar eitthvað get ég útvegað sjálfri mér það. Það sem ég get ekki útvegað sjálfri mér er ást og samvera með öðru fólki, til þess þarf ég fólk.
En næstu tuttuguogsegs daga þarf ég samt að fórna samskiptum við fólk og eiga bara samskipti við bækur. Fyrir utan jólakortagerðina í kvöld og laufabrauðsgerðina á sunnudaginn eftir viku held ég að ég þurfi að hitta fátt annað en rúmið mitt og bækurnar umrædda daga.

Mig langar í meira kaffi. Ég ætla að fá mér meira kaffi og klára greiningu. Ég vildi að ég gæti eytt þessum átján dögum í að bara lesa undir próf, en ég þarf líka að gera þrjú til fjögur skiladæmi á viku og læra nýtt efni. Pirrandi.

Hér kemur ástin og umhyggjan sem ég ætla ekki að gefa í veraldlegu formi næstu tuttuguogsegs daga:
ástogumhyggjanæstututtuguogsegsdaga - up-for-grabs.

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Eitthvað finnst mér bloggheimurinn slakur þessa dagana.

Ég hélt ég myndi deyja í dag. Svo dó ég ekki, ég tók bara verkjatöflur í tonnavís og vældi eins og hundur. Svo var allt í lagi. Svo var ótrúlega gaman, því ég söng á tónleikum.

Takk fyrir komuna þið sem komuð.

Tryllt lag og tryllt myndband:

mánudagur, nóvember 17, 2008

Ég mætti upp í vafferrtvo um hálftólf. Feisbúkkbannið* tók við á miðnætti og þá byrjaði ég að læra. Svo fór ég á emmbéell uppúr eitt, kíkti á hvorn tveggja tölvupóstanna minna, leit við á Stigulssíðunni, hélt áfram á emmbéell, las
fré tt ir um IMF og Söndru Magnus og kíkti á nokkur blogg (Vilhelms (ekkert nýtt) og Olgu). Núna er klukkan tvö.

Ég hef svo góðan sjálfsaga.

*Engin Andlitsbók á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum.

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

-Knock knock.
-Who's there?
-David E. Kelly.
-David E. Kelly who?
sleiksleiksleiksleik hjartahjartahjarta
-(Hvísl) I love you so much.
-(Hvísl) Did you just fart?
-(Hvísl) No.
-(Hvísl) Oh. I wish I could turn back time and not ask you that and not ruin the moment.
-(Hvísl) Trust me, you didn't ruin anything.
sleiksleiksleiksleik

fimmtudagur, nóvember 06, 2008

Þettersvonææs



Af einhverjum ástæðum minnir þetta lag mig á Söru og Auði.

Helginni verður að meirihluta eytt í Vafferrtveimur að þessu sinni. Vonandi verður ekki of mikið af fólki inni á bókasafni því þá er svo mikið skvaldur. Verst finnst mér þó þegar fólk er að hlusta á tónlist í heyrnartólum og gerir sér ekki grein fyrir því að það neyðir alla í kringum sig til að hlusta með sér.
Ég er að spá í að taka stærðfræðigreiningarmaraþon, ég er alveg týnd í þeim áfanga - kann ekki einu sinni að leysa diffurjöfnur (hann snýst um diffurjöfnur).

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég skil ekkert hvað ég er að gera í þessu námi. Til þess að standa sig vel í því þarf fólk að vera hvort tveggja klárt og ötult. Ég er hvorugt. Í hvert skipti sem ég reyni að gera skiladæmi kemst ég að því hversu týnd (euphemism (hvað er euphemism á íslensku?) yfir heimsk) ég er. Það er hræðilegt.
En hálfnað er verk þá hafið er og ég ætla að klára.
 

© Stefanía 2008