fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Jájá, ég er meinstrím.

Það er allt í lagi að vera meinstrím. Einu sinni pirraði það mig þegar fólk fór allt í einu að verða artý eða fíla eitthvað sem það fílaði ekki áður en það komst í tísku að fíla það. Núna pirrar það mig þegar þetta fer í taugarnar á öðru fólki.
Mér finnst það vera gott mál þegar fólk þroskast og fær tækifæri til þess að líta öðruvísi á hlutina. Mér finnst það vera gott mál þegar fólk kynnist nýjum hlutum.
Orð eins og hæp og pós og fleiri í þeim dúr angra mig. Fólk sekkur, eðlilega, mismikið og djúpt ofan í hluti, eins og tónlist t.d. Þeir sem hafa ekki svo mikinn áhuga á tónlist eða tækifæri til að kynna sér tónlist, dýrka kannski einhverja hljómsveit meira en aðrar hljómsveitir sem þeir þekkja, og byggja þessa dýrkun á fremur lítilli áheyrn. Svo eru aðrir, sem hafa mun meiri áhuga á tónlist eða betri tækifæri til að kynna sér hana, sem finnst þeir fyrrnefndu ekki hafa rétt til þess að dýrka þessa hljómsveit, því þeir vita ekki nóg um hana.
Mér finnst þetta eiginlega bara sorglegt. Eða ég veit ekki rétta orðið.

Það er kannski hægt að líkja þessu við myndlist. Segjum sem svo að einhver líti eitthvað málverk, eftir atorkusaman listamann, augum og finnist þetta málverk frábært. Sá hinn sami sér jafnvel eitt málverk til viðbótar eftir sama listmálara og finnst það málverk alveg jafn æðislegt. Eftir þetta fer hann að segja að hann kunni vel að meta þennan listmálara.
Er það rangt? Ég veit það ekki.
Kannski þarf maður meiri þekkingu á listmálaranum eða hljómsveitinni til að geta sagst kunna að meta hann/hana.

Ég skil svosem sjónarmið þeirra sem láta svona angra sig. En mér finnst samt betra að fólk geti allavega myndað sér einhverja skoðun heldur en enga. Það er eðlilegt að hafa skoðanir á hlutunum.
Maður myndar sér fyrst skoðun eftir fyrstu kynnum, síðar kemst maður að meiru og skoðunin breytist, þegar maður kemst að enn meiru þá breytist skoðunin væntanlega enn meira. Þeim mun meiri þekking, þeim mun meiri stuðningur er á bakvið skoðunina - en það er samt eðlilegt að mynda sér skoðun.

Aðalmálið er að vera tilbúin að breyta skoðunum sínum ef betri rök bætast í þekkingu manns.

Engin ummæli:

 

© Stefanía 2008