mánudagur, mars 09, 2009

Skráningagjöld

Því sem ég tilkynnti að væri á leiðinni verður frestað um stund.


Skráningargjöld við HÍ eru 45.000 krónur á ári. Gjaldið er sagt vera fyrir kostnaði við skráningu nemenda; "frír" prentkvóti (sem reyndar fæst bara í fyrsta skipti sem einstaklingur skráir sig við HÍ), skriffinnska, laun fyrir skráningastarfsmenn o.s.frv. Það kostar semsagt 22.500 krónur á hvern nemanda að skrá hann til náms í eina önn.

Þegar raðað er niður í stofur, kennarar og aukakennarar ráðnir, bækur pantaðar í Bóksölu stúdenta er tekið tillit til fjölda nemenda í hverju námskeiði. Ef fjöldi nemenda sem skráðir eru í námskeið er minni en raunverulegur fjöldi nemenda í námskeiðinu er kostnaður við námskeiðið meiri en þarft er. Ef gert er ráð fyrir of fáum getur orðið sætaskortur eða þjónustuskortur við nemendur (t.d. of margir nemendur á kennara ef námskeiðið er þannig). Einhvern veginn þarf því að tryggja að mat á fjölda sé sem nákvæmast. Mér finnst skráningagjöldin við HÍ vera sniðug leið til þess:
Ég veit þess dæmi að nýstúdent hafi skráð sig til náms við tvo íslenska háskóla og ekki gert upp á milli þeirra fyrr en hann þurfti að borga skráningar-/skólagjöld - þá kaus hann þann með skólagjöldin og sleppti því að borga skráningargjöld við HÍ, þar með gerði HÍ ekki lengur ráð fyrir þeim einstaklingi þegar raðað var í námskeið. Ef hann hefði ekki þurft að borga skráningargjöld hefði hann sennilega ekki skráð sig úr náminu og skólinn gert ráð fyrir fleiri nemendum en þörf var á.

Hins vegar finnst mér óviðeigandi að gjöld séu kölluð skráningagjöld þegar þau gegna öðru hlutverki en aðeins því að vera skráningagjöld. Ef þessi ráðgering er röng hjá mér og skráningavinna er svona kostnaðarsöm ætti ekki að vera vandasamt að gefa út sundurliðun á því í hvað gjöldin fara. Ef hægt er að sýna fram á með sundurliðun að raunkostnaður við skráningu nemanda sé 45.000 krónur þá biðst ég afsökunar á þessu tuði, ef ekki þá ætti nemandi að fá endurgreiddan þann hluta skráningargjaldsins sem ekki fór í skráningu þegar hann hefur lokið árinu sem hann borgaði fyrir.

Ég vil semsagt ekki að skráningagjöld verði felld niður, síður en svo, heldur vil ég að gefin sé út sundurliðun á því í hvað peningar nemenda fara, og ef fjörtíuogfimmþúsund krónurnar þeirra fara ekki í að skrá þá á tvær annir þá vil ég að restin sé endurgreidd þegar nemendur hafa sýnt fram á námsframvindu. Endurgreiðslan gæti t.d. farið í niðurgreiðslu á næstu skráningargjöldum.

Annað:
Að auki sé ég fátt því til fyrirstöðu að fólk skrái sig til hálfs árs í einu. Þegar fólk greiðir skráningagjöld hefur það greitt fyrir tvær annir; það þýðir að ef það klárar hálfa önn og tekur sér svo hlé, getur það snúið aftur til náms þegar því hentar, án þess að greiða skráningagjöldin. Hvers vegna ekki að greiða fyrir eina önn í einu?


Innskot:
Sums staðar skrifaði ég skráningargjöld, annars staðar skráningagjöld. Ég reyndi að haga því þannig að þegar ég talaði um eina skráningu hafði ég err, þegar ég talaði um fleiri en eina sleppti ég errinu. Sambærilegt augabrún og augnabrúnir. Er það bull?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

áhugaverð og góð færsla þetta, ég held ég sé sammála öllu nema innskotinu - ég er of óeinbeittur til að nenna að botna í því.

fjöður í hatt hefur verið veitt.

Stefanía sagði...

Takk. Ég tek á móti fjöðrinni með reisn.

 

© Stefanía 2008