þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Í fyrrakvöld horfði ég á hryllingsmynd. Ég verð yfirleitt mjög uppveðruð og skelkuð þegar ég horfi á svoleiðis myndir. Ég er týpan sem öskrar á sjónvarpið: "Ekki fara inn í harbergið!" eða "Snúðu þér við!" eða "Hann er fyrir aftan þig!" og kippist til við bregðuatriði. Stundum er ég eina ástæðan fyrir því að fólkinu sem horfir á myndina með mér bregður.

The Descent varð fyrir valinu að þessu sinni. Hún er ógeðsleg. Ógeðsleg. Ógeðsleg. Ég get ekki sagt ógeðsleg nægilega oft til þess að lýsa því hversu ógeðsleg þessi mynd er. Ég á ennþá erfitt með að loka augunum, jafnvel í dagsbirtu. Og þá er ég ekki að ýkja!
Ég fór í ljós í gær (homminn ég) og ég gat ekki legið flöt í ljósbekknum heldur þurfti ég að draga lappirnar að mér og stara sífellt í kringum mig til að tryggja að viðbjóðurinn úr þessari mynd sæti ekki fyrir mér.
Ég hef aldrei séð neitt jafn ógeðslegt og fyrirbærin úr þessari mynd! Ég mæli með því að ENGINN sjái þessa mynd, til að halda geðheilsunni í sæmilegu ástandi fyrst og fremst. Oj bara. Oj bara oj bara. Og nú fékk ég hroll.


Í gær var árshátíð Kea-hótela og Greifans. Þvílíkur glæsileiki. Þegar ég gekk inn fékk ég "prom"-blóm um úlnliðinn, Ómar fékk rauða rós í jakkakragann og svo fengum við fordrykk. Á meðan við drukkum fordrykkinn spiluðu tveir menn (sem ég þekki eins og bræður núna vegna þess að þeir voru kynntir svo oft) djass fyrir okkur, svona eins konar for-dinnertónlist, voða kósý. Brátt tók við þriggja rétta, slefandi góð máltíð og vín með, bæði hvítt og rautt auðvitað.
Það var fiskur í forrétt eins og tíðkast mjög oft (og er bara gott og blessað), en ég er með ofnæmi fyrir öllu sjávarmeti og fékk þess í stað sveppasúpu og brauð. Ég er engin súpumanneskja, fæ mér til dæmis aldrei súpu nema ég hafi ekkert um það að segja, en ég hef aldrei, ALDREI, á minni ævi smakkað jafn góða súpu! Ekki einu sinni kakósúpu. Vá, svo góð sko.
Þvílíkt og annað eins örlæti hjá þessum gömlu greyjum. Gömlu? Nei, ég meina, ekki gömlu. Eftir á var svo sungið og dansað og allir skemmtu sér konunglega, nema þeir sem gerðu þau mistök að fara snemma heim.

Ég þakka fyrir mig Sigurbjörn, Ívar, Páll, Páll og Hlynur.


Orð dagsins er fávitahæli. Það var einu sinni notað á Íslandi. Haha!

Og svo bless.

Engin ummæli:

 

© Stefanía 2008